30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hef látið það koma fram í þingflokki Sjálfstfl., að þó að ég sé stuðningsmaður ríkisstj., þá mun ég hafa allan fyrirvara á um afstöðu mína í sambandi við landhelgismálið þegar það kemur hér til umr. hugsanlega í sambandi við umræður um samninga við aðrar þjóðir. Ég vil láta þetta koma fram hér, því að ég tel að hér sé um að ræða það mikið og mikilvægt mál fyrir alla íslensku þjóðina að þm. verði að meta það hver fyrir sig hvaða afstöðu þeir hafa þegar til þess kemur að ræða hugsanlega samninga, ef til slíks kemur, og að hvorki flokksafstaða né afstaða til ríkisstj. eigi þar að koma til greina eða ráða afstöðu þm. í sambandi við þetta mál. Ég tel að ef stjórnvöld og Alþ. eru með hugmyndir um að stiga skref um samninga, þá verði þm. allir að gera sér ljóst að við erum með því að marka stefnu sem við kannske eigum erfitt með að komast út úr síðar meir. Ég óttast að samningar nú mundu þýða að við værum bundnir langan tíma um endurnýjun þeirra samninga og aðstaða okkar til að komast út úr slíku yrði þá mun erfiðari heldur en nú er. Ég tel að við verðum að gera okkur alveg ljósa — ég vil segja þá gleðilegu staðreynd að við erum nú í þeirri aðstöðu að við getum einir, alveg án tillits til annarra, metið hvað okkur er hagkvæmast í sambandi við landhelgismálið og fiskveiðimál okkar.

Ég sagði hér, þegar verið var að ræða samningana við breta, staðfestingu á Oslóarsamkomulaginu, að ég teldi að þar hefðu íslendingar unnið stóran sigur þar sem þeir hefðu knúið breta til þess að viðurkenna rétt okkar til 200 mílna. Það var þá dregið nokkuð í efa af þm. stjórnarandstöðunnar, en nú hygg ég að það liggi alveg ljóst fyrir að þetta var og er staðreynd, að bretar hafa þegar viðurkennt þennan rétt okkar og þeir fari með skip sín út úr fiskveiðilögsögu íslendinga. Ég tel að þetta sé það mikilvægt að við hljótum að hafa það að leiðarljósi þegar eða ef við tökum upp viðræður við aðrar þjóðir um hugsanlegar aðgerðir í landhelgismálinu.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan að íslendingar mundu vera taldir sakleysingjar í sambandi við samninga um þessi mál, og hv. 5. þm. Vesturl. tók nokkuð undir þetta þegar hann hélt því fram að við með Oslóarsamkomulaginu hefðu látið undan kröfum breta. Ég tel að þessi ummæli þessara tveggja hv. þm. séu á mjög miklum misskilningi byggð. Það getur vel verið að þetta hafi nokkuð átt við þegar hv. 2. þm. Austurl. var sjútvrh. og gerði samninginn við breta 1973. Það getur vel verið að íslendingar hafi með þeim samningum aflað sér þess álits að þeir væru eftirgefanlegir og kannske sakleysingjar í samningum. Ég held að núv. ríkisstj. og þeir þm., sem hana styðja, hafi sýnt það mjög afdráttarlaust og ákveðið í sambandi við viðræður við breta og allar aðgerðir gagnvart þeim á síðasta vetri og með samkomulaginu í Osló að þessi ummæli geta ekki lengur átt við íslensk stjórnvöld eða íslenska alþm., því að það vita allir og það er viðurkennt, meira að segja viðurkennt af bretum, að Oslóarsamningarnir voru að telja verður hrein uppgjöf breta gagnvart hinni fámennu þjóð sem Ísland byggir. Má það teljast til afreka, að ekki fjölmennari þjóð en íslendingar eru, vopnlausir, eins og allir vita, nema með sinn litla varðskipaflota, skuli hafa tekist að knýja breta til undanhalds í landhelgismálinu, eins og átti sér stað með lausn deilunnar í Osló á s.l. vori.

Hér hafa verið rædd fiskverndunarmál og er mjög eðlilegt að þau blandist inn í þessar umr. Ég held að það komi engum hv. þm. til hugar og hafi aldrei komið til hugar annað en íslendingar mundu vera þar alveg fullkomlega sjálfráðir, enda höfum við byggt þá löggjöf upp sem nú gildir um verndun fiskimiða hér við land, að þar er sjútvrh. gefin heimild til þess að gera tilteknar og ákveðnar ráðstafanir hvar sem er í kringum landið og gagnvart öllum þeim fisktegundum sem talið er nauðsynlegt að þurfi verndunar eða friðunaraðgerða við. Ef í viðræðum þeim, sem staðið hafa undanfarið yfir við þjóðir Efnahagsbandalagsins, er að finna einhvern samvinnuvilja frá hendi fulltrúa Efnahagsbandalagsins um friðunarmál, þá er það ekki nema gott, og ég tel, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., að þeir geti sannarlega lært af íslendingum sem hafa óumdeilanlega haft nokkra forustu um verndun fiskstofnanna.

Þegar við nú að loknum þeim sigri, sem við höfum unnið í landhelgismálinu, hljótum að meta sjálfir hver framvinda þessara mála á að verða og nýting fiskimiðanna innan 200 mílnanna, þá hljótum við þar að hafa mjög mikið sjónarmið af ástandi fiskstofnanna. Við höfum þar bæði til leiðbeiningar skýrslu fiskifræðinga okkar og við höfum einnig þar til leiðbeiningar þá reynslu, sem við höfum fengið af fiskveiðum okkar á undanförnum árum, og hljótum því að mínum dómi að fara þar mjög varlega um nýtingu fiskstofnanna, jafnvel svo, að við hljótum að taka tillit til þess og skoða það hvort við getum sjálfir leyft okkur að taka eins mikinn hluta úr fiskstofnum hér í kringum landið eins og við höfum áður gert. Allt þetta kemur til athugunar, og hlýtur þá einnig að koma til athugunar sérstaklega hvort við höfum nokkra aðstöðu til þess að hleypa nokkrum aðilum inn á svæðið innan 200 mílna marka til fiskveiða.

Það hafa heyrst þær raddir, að menn kunni að vera nokkuð uggandi um að ef við neitum öllum samningum við aðrar þjóðir, lokum af fiskimiðin innan 200 mílna svæðisins og nýtum það einir, þá muni það geta haft áhrif á viðskipti okkar við aðrar þjóðir. Það má vel vera að á bak við þessa skoðun séu nokkur rök, og það má vel vera að við kunnum, ef við tækjum þessa afstöðu, að líða eitthvað fyrir það í bili. En ég hygg að þróun þessara mála verði sú, að við höfum lítið að óttast í því sambandi. Ef samdráttur verður í fiskveiðum breta, þjóðverja og annarra þeirra þjóða sem áður hafa stundað veiðar hér við land, þá getur það ekki leitt til annars en að fiskverð hækki á erlendum markaði og við fáum meira fyrir afurðir okkar heldur en við höfum fengið hingað til. Nú í morgun seldi einn íslenskur togari í Bretlandi fyrir langsamlega hæsta verð sem nokkurt skip hefur nokkurn tíma selt á breskum markaði, eða 160 tonn fyrir nær 100 þús. pund eða um 30 millj. kr. Ég hygg að við hljótum og megum taka mið af því að þannig muni þróunin verða, að ef við tökum þá afstöðu að útiloka aðrar þjóðir frá veiðum innan 200 mílnanna, þá muni það leiða til hærra markaðsverðs fyrir okkur, sem vissulega mundi koma íslenskri útgerð til góða og kannske verða nokkuð öruggur rekstrargrundvöllur fyrir bæði togaraflotann og bátaflotann í framtíðinni.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, var með nokkur frýjunarorð til þm. stjórnarliðsins áðan í ræðu sinni. Ég held að það sé ákaflega varasamt fyrir þm. Alþb. að vera með slík ummæli eins og hann lét falla í ræðu sinni gagnvart þm. núv. stjórnarliðs. Ég held að öllum hv. þm. sé ljóst, sem hér áttu sæti á Alþ. 1973, að það er einn flokkur, einn stjórnmálaflokkur hér á landi, Alþb., sem á vissulega mjög ljóta forsögu í sambandi við landhelgismálið. Þegar málgagn hans hafði prédikað það mánuðum og kannske árum saman að enga samninga mætti gera, hvorki við breta né aðrar þjóðir, gekkst síðan sá flokkur fyrir því hér á Alþ. að samningar við breta voru hér lagðir fram 1973 og samþykktir þvert ofan í margar yfirlýsingar um að aldrei mætti semja um eitt eða neitt. Þegar nú er verið að deila á núv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar fyrir þá samninga, sem gerðir voru í Osló, og kannske að einhverju leyti fyrir þá samninga, sem gerðir voru við þjóðverja, þá hafa þm. Alþb. sannarlega ekki ástæðu til þess að vera með stóryrði eða gífuryrði. Auðvitað hefðu allir þm. kosið að þurfa ekki að gera samningana við þjóðverja. En það var mat þáv. stjórnvalda og stuðningsmanna ríkisstj. að það væri sterkust aðstaða fyrir íslendinga að þurfa ekki að slást við aðra en breta á miðunum hér. Hygg ég að það hafi sýnt sig, að þó að við hefðum gjarnan óskað eftir að þurfa ekki að semja við þjóðverja, þá hafi þessi afstaða verið rétt. Við vorum mun sterkari við að hafa breta eina að slást við á miðunum hér í kringum landið, og ég hygg að það einmitt hafi leitt til sigurs íslendinga í landhelgismálinu með Oslóarsamningunum að þessi aðstaða var fyrir hendi, að við aðeins höfðum þar eina þjóð að slást við.

Ég skal ekki fjölyrða frekar nú um þetta. Þetta mál á án efa eftir að koma hér til umr. síðar. En ég vildi láta þessa afstöðu mína koma fram og að ég tel alveg afdráttarlaust að þegar til einhverra aðgerða kemur í þessu máli, þá verði hver einasti þm., hvort sem hann er stuðningsmaður ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu, að meta það sjálfur hvað hann telur best fyrir þjóðarheildina, því að málið er allt of stórt til þess að einn eða annar verði bundinn af stuðningi við ríkisstjórn eða vilja sinnar flokksforustu.