30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er að vísu rétt, sem fram hefur komið hjá öðrum stjórnarandstæðingum í þessari umr., að það hefur reynst ógerningur að fá fram skýr svör eða einarðar yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. En í þessu máli lærum við það af reynslunni að loðin viðbrögð og engin svör eru líka svör, vegna þess að þetta eru sömu víðbrögðin og voru undanfari þeirra samninga sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur gert við aðrar þjóðir. Og ég vil aðeins benda á það, að það er ekki að ástæðulausu sem hv. þm. Guðlaugur Gíslason kvaddi sér hér hljóðs áðan, eftir að hæstv. forsrh. var búinn að tala. Ég ætti e.t.v. frekar að segja að hv. þm. hefði talið sig knúinn til að kveðja sér hér hljóðs eftir ræðu hæstv. forsrh., og í ræðu hv. þm. kom greinilega í ljós að hann ber kvíðboga fyrir þeim atburðum sem hann á von á á næstunni. Hæstv. forsrh. hafði sem sé ekki getað lægt ótta þessa flokksbróður síns, og segir það sitt hvað um hvað fram undan er, því að ekki dettur mér annað í hug en hv. þm. Guðlaugur Gíslason, stjórnarliði úr flokki forsrh., fari nær um hugsanir, sem þar eru hugsaðar, heldur en við stjórnarandstæðingar. En ræða hans áðan lýsti því, að það er ekki að ástæðulausu sem menn óttast að þessi „engin svör“ hæstv. ríkisstj. séu í rauninni svör.

Aðeins eitt atriði í viðbót sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. áðan. Hv. 2. landsk. þm. orðaði þá fsp. til hans, sem margir hafa horið ótta yfir, hvort hugsanlegt væri að ríkisstj. hugleiddi þann möguleika að greiða fiskvernd með fiskveiðiheimildum. Hæstv. ráðh. tók svo til orða að hér væri um algera fjarstæðu að ræða, þetta kæmi ekki til mála. Ég skil þetta þá þannig — og það hljóta allir aðrir þm. að gera, að hér sé um að ræða yfirlýsingu af hálfu hæstv. ríkisstj. um að útilokað sé af Íslands hálfu að tilboð t.d. Efnahagsbandalagsríkja um fiskvernd eða ráðstafanir til fiskverndar á fiskstofnum sem ganga á Íslandsmið, slíkt tilboð verði af Íslands hálfu metið sem gild ástæða til að veita þessum þjóðum fiskveiðiheimildir. Ég tek þessi orð hæstv. ráðh. sem algera yfirlýsingu ríkisstj. um að þessi „kombinasjón“, ef ég má komast svo að orði, sé algerlega útilokuð, og vona að hæstv. ráðh. verði sannspár í því efni.