18.10.1976
Neðri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á einu atriði hér við 1. umr., enda þótt ég eigi sæti í þeirri n. sem þessu frv. væntanlega verður vísað til. Það er í sambandi við spurninguna um eina málstofu eða tvær. Það hefur verið minnst hér á reynslu Svía sem eflaust er svipuð og reynsla Dana. En ég vildi vekja athygli á því, jafnhliða því að slíkar breytingar yrðu gerðar er nauðsynlegt að gera gagngerar breytingar á þingsköpum Alþingis. Ég vil vekja athygli á því, að jafnframt því sem þessar breytingar voru gerðar þar, þá hefur verið breytt nánast málfrelsi þm. á viðkomandi þingum. Ég vil vekja athygli á því, og vitna þar sérstaklega til síðasta þings, hve óhemjumikill tími fór þar í þær umr. utan dagskrár og í umr. sem snertu fsp. Og ég sé ekki annað en að jafnhliða slíkri breytingu verði að gera breytingar á þingsköpum Alþ. Ég veit ekki betur t.d. en að þegar mál koma úr n., þá sé málfrelsi þm. takmarkað við forsvarsmenn eða talsmenn viðkomandi þn.

Um afstöðu mína gagnvart þessari breytingu eða þessu frv. vil ég sem minnst segja sem stendur. Ég sé ýmsa kosti við það að hafa tvær þd., en ég sé líka kosti við það að breyta Alþ. yfir í eina málstofu.

Það var rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði varðandi umr, um kjördæmaskipunina. Þetta frv. fjallar ekki um það atriði. En ég vildi aðeins vekja athygli á því, að það hefur komið fram þér í ræðum manna að þeir telja að það verði að jafna sem mest rétt kjósendanna, þ.e.a.s. það yrði sem líkust tala kjósenda á bak við hvern þm. Ég vil segja það, að lýðréttindi almennt eru fólgin í fleiru en því hvert áhrifavald atkv. er á bak við hvern þm. Ég held að við verðum að líta á lýðréttindin almennt, og ég tel að við náum ekki jöfnum rétti fyrir fólkið í landinu nema allir þættir séu skoðaðir í samhengi. Þess vegna tel ég að þar eigi að vera um ákveðið vægi að ræða, þ.e.a.s. fjölda kjósenda á bak við hvern þm., en vandinn er að finna hvert þetta vægi er. Það má ekki vera of mikil mismunun, en mismunun verður samt sem áður að eiga sér stað til þess að tryggja hin almennu lýðréttindi þeirra sem í mestu dreifbýli búa.