02.12.1976
Efri deild: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er ekkert að undra þó að menn ræði þetta frv. nokkuð. En furðulegra er að heyra það í röðum andstæðinga frv., að býsnast er yfir að efni þess hafi tekið breytingum, og það sé komið í frv.-form. Þetta er búið að vera þáltill. sem er búin að ganga hér á þingi í fjögur ár og ósköp eðlilegt að við tökum tillit til margra skoðana og umr. sem fram hafa farið um málið. Og það eru undarleg vinnubrögð þm. ef ekki á að hlusta á margvíslegar skoðanir og skoðanamyndun í landinu, heldur berja hausnum við steininn. Ja, þeir mega sitja lengi á þingi, sumir þm., ef þeir ætla að hafa þessa skoðun. Auðvitað taka menn afstöðu eftir sannfæringu sinni og móta hana. Hér er gerð ákveðin till. að setja þetta mál í frv.-form, og ég veit ekki betur en að frv. fari hér í n. til þess að verða rætt og taka breytingum eftir því sem til tekst. Og þetta frv. er auðvitað háð alveg sömu lögmálum og öll önnur frv. í því efni.

En ég ætla að byrja á því að svara síðasta ræðumanni, einfaldlega af því að hann hefur fengist við peningamál áratugum saman. En nokkrir hafa fengist við jarðir líka áratugum saman.

Ég vil segja það sem landlaus maður hver er munurinn á því fyrir mig að eiga jörð metna á milljón eða eiga milljón í banka, síðan eru gerðar opinberar framkvæmdir með tugmiljóna og hundraða milljóna styrk, jörðin tífaldast, en á sama tíma er verðbólga og mín milljón verður ónýt. Má ég taka einfalt dæmi af heimili foreldra minna sem reistu sér íbúðarhús fyrir 50 árum. Eftir ákveðinn árafjölda var útidyrahurð endurnýjuð sem kostaði nákvæmlega það sama og húsið kostaði í upphafi. Er þetta það sem hv. síðasti ræðumaður vill? En á sama tíma get ég nefnt jarðir í Þingeyjarsýslu sem hafa tugfaldast og eru taldar í millj. kr. og tugum millj. kr. Ein vísa í Þingeyjarsýslu gengur, þar er þessi síðasta hending: „Allt er þetta Reykjahlíð.“ Já, allt er þetta Reykjahlíð. Hvað á Reykjahlíð mikið? Það væri gaman að sjá þá pappíra. En að sögn viturra manna á hún jafnmikið land og Árnessýsla er. Já, allt er þetta Reykjahlíð — og eigum við að halda því áfram?

Í útvarpinu um daginn var fróðlegt erindi eins af bestu vísindamönnum okkar, og erindið fjallaði um vatnið. Já, hvað verður nú um blessað vatnið? Jú, það fellur niður í Vatnajökul, það fer svo sína leið, — og hvar haldið þið að það komi upp? Jú, það kemur upp í Húsavík þar sem ég er fæddur og sleit barnsskónum og var fram yfir þrítugt. Þá er það búið að vera nokkur hundruð ár á leiðinni. Hver á vatnið? Reykjahlíð, ekki Húsavík. Reykjahlíð getur gert skörð í jarðskorpuna og hirt það samkv. þessari kenningu sem við erum að reyna að berjast á móti.

Það má líka segja frá öðrum dæmum hér á Reykjanesinu. Í ákveðnum holum kemur þar upp sjór að meiri hluta, en hann kemur upp heitur. Hver á sjóinn? Já, hver á sjóinn? Ég ætla ekki að nefna neinn eiganda. Ég tel bara að ég eigi minn þátt í sjónum og allir hv. þm., þó að ríkisvaldið hafi borað niður og fái hann upp heitan.

Þetta er vandamál, þetta er vandamál sem snýr að þjóðinni í dag.

Það var alveg rétt staðhæfing sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hefur verið aðalsmerki íslenska bóndans að vera bjargálna og vera sjálfseignarbóndi. Það getur hann verið áfram. En má ég minna á annan útvarpsþátt í nafni Búnaðarfélags Íslands fyrir helgina, á mánudaginn var, ef ég man rétt? Ungur maður var þar í viðtali við fréttamenn og ég gat ekki heyrt betur en það væri honum gersamlega ofviða að kaupa jörð og búa á jörðinni. Ég gat ekki heyrt betur. Eru málin í lagi? Ég vil spyrja andmælendur frv. að því: Eru málin í lagi? Þarf engra breytinga við?

Ég held nú að hinir ágætustu talsmenn landbúnaðarins hér í þessari d. geri sér grein fyrir því að málin séu ekki almennt í lagi. Er þetta mikið vandamál. Við flytjendur frv. gerum okkur grein fyrir að hér er mikið vandamál, og það er ósköp eðlilegt að menn skiptist á skoðunum um hvernig á að leysa þessi vandamál. En ég held að allir hljóti að viðurkenna þá staðreynd, að þróun þessara mála varðandi landbúnað, kaup og sölu á jörðum og verðmæti þeirra er ekki á réttri leið, ég segi: er ekki á réttri leið.

Má ég nefna annað dæmi, sem tengist heimabyggð síðasta ræðumanns, af jörð í Þingeyjarsýslu. Við jörðinni tóku tveir bræður, og þeir ákváðu að annar færi í burtu og það skyldi fara fram sala á jörðinni. Hún var 1200 þús. kr. Svo líða fram þrjú ár, þá kvænist sá sem eftir er. Konan er þar um nokkra stund, en þá verður hún óróleg og vill flytja burt. Þetta fréttir laxveiðifélag á Akureyri. Hvert var þá verð jarðarinnar skyndilega? Ekki 1200 þús., nei, þá fór það að tugfaldast. Ekki ætlaði laxveiðifélagið að fara að búa. Jörðin átti að fara í eyði, en það var möguleiki á laxveiðihlunnindum sem þeir væntu sér svo góðs af að þeir settu jörðina upp fyrir alla möguleika nokkurs manns að nýta hana. Er þetta sú þróun sem menn vilja? Ég segi bara: Þetta er hættuleg þróun. Þarna er ungur maður sem vill nýta jörðina og búa á jörðinni og reyndar tókst að búa á jörðinni í dag. En það er alger óvissa hver framvindan verður. Hinir tveir eigendurnir, sem voru, hafa skipt um. Nú er jörðin í eigu eins manns, og hann er í miklum vanda staddur hvernig hann á að fara með jörðina, því að ef hann selur jörðina fyrir þetta geipiháa verð; þá fer meiri hlutinn í skatta. Þess vegna var það mikið nauðsynjamál fyrir hann að fá mann til að búa á jörðinni, og málið leystist í bili, en ekki er séð hvernig framvindan verður. En þetta er ágæt búskaparjörð, og væri leitt til þess að vita í miðri Þingeyjarsýslu ef hún færi í eyði út af þessari ágætu hugsun út af fyrir sig að skapa sér sem besta laxveiði. Það er gott að eiga kost á góðri laxveiði, en ekki með þessari forsendu. Hafi menn betri lausn á þessum málum, þá komi þeir fram með hana, þá komi þeir fram með till. um það. Þessi þróun mála, eins og við flm. höfum verið að reyna að skýra og hefur oft komið fram á Alþ., er ekki á réttri leið. Ég vil þá a.m.k. heyra nákvæma og góða útskýringu á því að menn telji það rétt eins og stefnt hefur verið undanfarin ár.

Ég vil spyrja að öðru: Hvers vegna eru fleiri jarðir í eyði nú en verið hefur jafnvel nokkurn tíma á Íslandi eða a.m.k. um mjög langt tímabil? Það er komið svo í sveit hins margumrædda þm., 2. þm. Vestf., að visst byggðarlag þar á við stórkostleg vandræði að etja vegna þess bve margar jarðir hafa farið í auðn og ekki er í raun og veru hægt að gera þar ítölu. Sumir þessara manna hafa, eins og hann gat réttilega, orðið að yfirgefa jarðir sinar án þess að fá nokkuð í staðinn eða fá sáralítið í staðinn. Væri nú þetta frv. eða andi þess frv. í gildi, kæmu þessir menn ekki slyppir og snauðir eftir áratugabaráttu og það góða baráttu, það vil ég taka fram, margir hverjir örugglega. Þá kæmu þeir ekki slyppir og snauðir. Er slæmt að tryggja mönnum þetta eftir áratuga baráttu á erfiðum stað á landinu? Ég held varla. (Gripið fram í.) Ég trúi ekki að menn telji það slæmt. Það kostar almenning eitthvert framlag skipulega á ári hverju. En það er útilokað annað en horfast í augu við þann vanda, sem hér er við að etja, og reyna að finna lausn á vandanum. Ég leita eftir betri till. en hér er gerð. Það er eðli frv. að fá mótun og rökstuðning með og móti — og gerið þið svo vel og komið með betri till. Það þýðir ekki að binda fyrir augun og kasta boltanum upp í loftið. Hann fellur fyrr eða síðar til jarðar. Það er staðreynd sem menn skulu muna. Það er staðreynd, eins og vatnsdropinn fellur til jarðar uppi í Vatnajökli og kemur upp u öðrum stað, þá í heitu formi.

Það hefur verið mikið rætt um veiðiréttinn hér og hversu viðkvæmur hann er, og það er rétt. En skynsamir voru fornmenn í gamla daga. Þeir voru ekkert blávatn, ef svo má til orða taka, vegna þess að í Grágás segir að lax skuli hafa möguleika á því að ganga upp. Og á einu umdeildasta svæði þessa lands, sem er í Árnessýslu, — og hefur verið sagt að öll veiðimál á Íslandi væru í lagi ef við gætum tekið Árnessýslu undan, — þá var réttur tryggður til þess að lax færi alllangt upp í land og er svo enn og blessunarlega vel. Sjávarbændur og bændur neðar við stóru fljótin auðvitað telja sig missa nokkuð af sínum eignarrétti. En hvers vegna? Vegna hagsmuna þeirra bænda, er ofar búa, og núna allra veiðimanna. Sama mætti segja um Laxamýrarbændur. Raunverulega gætu Laxamýrarbændur hirt svo til allan lax, sem kæmi í Laxá, með réttu móti. Hvert yrði þá verðmæti Laxár og alls þess mikla vatnasvæðis sem ofar er? Hvert yrði verðmætið? Þá hefði margt öðruvísi farið á Íslandi ef það hefði verið frjálst, svo að ég nefni nú engin sérstök dæmi sem snerta suma nokkuð. Nei, hér hafa menn orðið að viðurkenna staðreyndir, og það var þegar gert í Grágás. Það er svo gamalt. Menn hafa orðið að viðurkenna staðreyndir til þess að geta búið hér á Íslandi, en ekki berja hausnum við steininn. Það er t.d. skemmtileg hugarfarsbreyting hjá veiðiréttareigendum, að þegar ég ásamt nokkrum fleiri fyrir nokkrum árum taldi það rétta þróun að sala veiðileyfa færi fram í höndum Búnaðarfélags Íslands eða í sameiginlegri skrifstofu, svo að þessi markaður væri ekki braskmarkaður hingað og þangað, þá var það talið guðlasti næst að setja fram þessa skoðun. En það var á s.l. ári eða ári fyrr sem sömu menn eða menn í nafni sömu samtaka töldu þetta einu réttu þróunina úr því sem komið væri.

Hann minntist hér á það, hv. 5. þm. Norðurl. e., að þeir, er næst byggju ám, ættu að hafa hag af því að fara sem best með þær. Þetta er rétt svo langt sem það nær. En hvað skeður hér varðandi einn hóp útlendinga sem kom í ákveðna á úti á landi? Þeir komu með rækju sem beitu og þeir hirtu um 11/2 tonn af laxi á stuttum tíma rétt framan við nefið á ábúendum, af því að þeir voru búnir að kaupa veiðiréttinn. Þeir sögðu: Þetta höfum við keypt, gerið þið svo vel, þetta eru okkar vinnubrögð. Þetta er ekki hægt. Áin hefur ekki jafnað sig enn þá. Mönnum getur því líka skjátlast þó að skarpir séu og búi rétt við hlunnindin. Sem betur fer eru flestir hændur svo vakandi að þeir gera sér grein fyrir því, að það er hollt og skynsamlegt að fara varlega með þennan mikla og dýrmæta rétt og gá að því að oftekin veiðibráð og veiðigræðgi hefnir sín síðar meir.

En það er athyglisvert, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. drap á, að jafnvel í Bandaríkjunum er veiðiréttur og eignarréttur yfir vötnum og ám í hendi ríkisins. En hann hefði mátt telja upp 10 önnur nálæg ríki með þessu sama, nákvæmlega þessu sama, sem næst okkur eru hér á jarðskorpunni. En það var ekki alveg rétt sem hann sagði um Bandaríkin, þó að sumt væri rétt, að vegna iðnvæðingarþróunar hafi sum veiðivötn og veiðiár skemmst. Það vill nefnilega svo til að ég sá í vor klukkutíma þátt um þróun veiðimála í Bandaríkjunum og þar var aðalmaðurinn oft nefndur Bing Crosby, söngvarinn frægi og veiðimaður. Það eru hvorki meira né minna en 21 millj. manna þar sem fást við veiðar og eru í þeirra veiðisamtökum, — 21 millj. manna. Þetta var frábært upplýsingastarf um veiðar í Bandaríkjunum og meðferð á ám og vötnum, og það skal viðurkennt og það er rétt, að m.a. vegna þrýstings frá veiðimannasamtökunum hefur hið opinbera gert gífurlegt átak til að vernda vötn og ár. Þetta gildir einnig í Kanada, að það er komið svo að gífurlega strangar reglur gilda þar um allt affall frá orkustöðvum og borgum svo að það renni ekki út í ár og vötn til spillingar. (StJ: Það veiddust 35 laxar í Bandaríkjunum í fyrra.) Veiddust 35, já, það þarf nú að segja öðrum en mér það eftir að vera búinn að sjá aðalskrárnar og upplýsingarnar þarna, að það hafi veiðst 35 laxar. (StJ: Ég var að tala um Atlantshafslaxinn.) Já, það þarf nú ekki að segja mér þetta, ég var í Kanada í vikuferð — (StJ: Ég sagði í Bandaríkjunum, það veiddust 35 Atlantshafslaxar þar.) Það þarf að segja öðrum en mér það, — ég endurtek: það þarf að segja öðrum en mér það. En það eru til mörg tímarit, stór og falleg, sem skýra frá veiði manna og möguleikum. Hins vegar voru Bandaríkjamenn svo skynsamir að þeir gerðu það fyrir áratugum, að þeir bönnuðu veiði með þeim hætti, bæði í netalagnir og stöng, að þeir settu ákveðið magn á hverri viku. Þetta var frjálst fyrir nokkrum tugum ára, en gekk út í öfgar, og síðan þetta skref var tekið hefur laxveiði almennt verið í mjög örum vexti. En viss vatnasvæði hafa tekið á sig stóran skaða, þar var einnig með Winnipegvatn. Við fengum upplýsingar um það, að það varð að stöðva alla veiði í Winnipegvatni fyrir nokkrum árum og 5000 fiskimenn misstu atvinnu með einni tilskipun vegna mengunar, — hvorki meira né minna en 5000 fiskimenn. Síðan var vatnagæði Winnipegvatns, sem er nærri 500 km frá vestur-fjöllunum, Klettafjöllunum, allt tekið til endurskoðunar eða yfirvegunar og settar í það gífurlegar upphæðir að varðveita vatnasvæðið og að bjarga því við aftur af hálfu ríkisins. Þetta er að takast, það er komin talsvert góð veiði aftur af margs konar fiski. Hér er mikið vandamál á ferðinni. En veiðirétturinn er á hendi ríkisins og það var farið illa með hann mjög víða. Menn áttuðu sig ekki á því að jafnvel mengun vatns í svo gífurlegri fjarlægð kom fram í vatninu sjálfu á þessu mikla vatnasvæði sem Winnipegvatn myndast af, svo að hér er um mikið og stórt vandamál að ræða.

Hvernig á að leysa vandamál landbúnaðarins?

Það verða sjálfsagt margar skoðanir uppi nm það. Við gerum hér ákveðna till. Menn geta valið á milli með hvaða hætti menn vilja búa, og það er mjög eðlilegt og rökrétt. En hitt vil ég undirstrika, að sú þróun, sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi, er í þá átt að hún á eftir að enda með gífurlegu vandamáli fyrir þá sem vilja taka við í sinni fjölskyldu — og séu ættingjar margir enn meira vandamál. Þetta viðurkenna raunar allir. En ágreiningur er um að leysa þetta vandamál. Við teljum, flm. og Alþfl., að það sé ekki hægt að komast hjá því að ríkisvaldið komi til liðs við það fólk sem vill búa vegna breyttra aðstæðna og þeirrar þróunar, sem hefur átt sér stað undanfarið, og tilfærslu í þjóðfélaginu, eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. réttilega drap oft á í ræðu sinni. Hinn mikli fjöldi, sem er kominn hér á mölina, hlýtur að eiga, eins og hann orðaði það, einhvern rétt og jafnvel svo mikinn rétt að hann geti notið þessa ágæta lands. Annað er ekki sæmandi. Og það eru auðvitað breyttar aðstæður og breyttar forsendur fyrir þessari kröfu — fullkomlega réttmætu kröfu.

Hvað um þjóðargjöfina sem Alþingi ályktaði sameiginlega um á Alþingi 1974? Hvað um þjóðargjöfina? Á annan milljarð er sett til að græða upp landið, auðvitað að mestu leyti frá þéttbýlisfólkinu, hinu réttlausa og landlausa þéttbýlisfólki sem má hvergi stiga fæti á jörð. Ef við eigum að taka sumar tilkynningar alvarlega sem koma í útvarpi og blöðum, þá má maður ekki einu sinni ganga sér til hressingar jafnvel hér í nágrenni Reykjavíkur vegna ofríkistilkynninga sumra manna. Sem betur fer hlusta engir á þessar tilkynningar og menn fara út í fjallaloftið sér til heilsubótar og hressingar og ánægju. En samt sem áður telja menn sér sæmandi að gefa út svona tilskipanir.

Það er eitt dæmi sem ég vil nefna hér. Menn gerðu það að gamni sínu fyrir 6 árum að setja fisk í vatn uppi á fjöllum austan við Húsavík sem heitir Höskuldsvatn. Húsvíkingar höfðu haft ítölu í kringum þetta vatn svo langt sem nokkur maður vissi og bæði ég og 5. þm. Norðurl. e. leikið sér í kringum þetta vatn og vissum ekki að það væri nokkuð sérstakt í því til lífs í dag. Svo s.l. sumar fara menn að gá að hvort fiskurinn hafi gengið vel fram. Þá er þetta afbragðs fiskur og vatnið fullt af fiski. En þá kemur upp vandamál. Þá voru nefnilega ungir bændasynir þarna með áhuga á grúski sem fóru að leita í gömlum doðröntum. Hver skyldi nú eiga umhverfið kringum vatnið? Og nú eru hin hörðustu átök á milli húsvíkinga og tveggja annarra jarða og þykjast allir eiga landið og fiskinn sem í það var látinn, sem var fluttur þangað vegna áhuga ákveðinna einstaklinga, sérstaklega tveggja manna, til reynslu. Fram undan eru hörð átök í því efni. Þurfum við nú ekki löggjöf til að leysa svona mál fyrst einstaklingarnir bera ekki þroska til þess að leysa þau sjálfir? Ekki veit ég hvernig sýslumaður ætlar að úrskurða eignarrétt á þessum fiskum sem verða svona skyndilega eftirsóttir. En menn hafa sést þarna læðast kringum vatnið þegar lítið bar á og reyna að finna út í hvaða stefnu frá síðasta staur jarða sinna vatnið lægi, og verður fróðlegt að sjá hvernig lýkur er endanleg niðurstaða fæst, ef hún þá kemur öðruvísi en Alþ. grípi hér í taumana.

Sennilega eiga eftir að koma upp ýmiss konar svona vandamál, og okkur er ekki sæmandi annað en finna flöt á þessu vandamáli og fara um það réttum höndum og með réttum ákvörðunum.

Menn hafa sagt hér að eitt aðalatriðið í mótleik á móti þessu frv. væri það, að við tækjum ekki tillit til eignarréttar í stjórnarskránni. Ef svo er, þá má laga það í frv. Ég segi bara: ef svo er, þá má laga það og koma með ákvæði er tekur af allan vafa í því efni. En ég tel að svo sé ekki, alveg eins og ég held því fram að það hafi engin ríkisstj. og því síður Alþ. nokkurt val um það að rýra sparifé landsmanna á þessu ári um því sem næst 10 milljarða vegna stjórnleysis og heigulsháttar, — um hvorki meira né minna en 10 milljarða kr. Það er eignaupptaka sem á sér stað þegjandi og hljóðalaust, þó að í öðru formi sé.

Það getur vel verið að sumum finnist það óviðunandi að kalla þá menn, er vilja hafa ágóða af jörðum fyrir litið starf og fyrst og fremst vegna atbeina hins opinbera, kalla þá menn braskara, eins og hér var orðað, og mangara. Mér er alveg sama hvað þessir menn eru kallaðir. Þeir ætla að fá stórar upphæðir án eigin tilverknaðar sérstaklega, fyrst og fremst vegna opinberra aðgerða og fjármagns úr ríkissjóði og fjármagns úr vasa almennings. Og móti þessu viljum við koma. Við viljum hefta þetta og við viljum hafa hér í lögum skýr ákvæði um að þetta eigi sér ekki stað. Mér er kunnugt um að viss bæjarfélög hér í nágrenni höfuðborgarinnar eru í gífurlegum vanda út af verðhækkunum á landi vegna opinberra aðgerða. Sú verðhækkun nemur mörg hundruð milljónum á tiltölulega takmörkuðu svæði. Kannske eru einhverjir menn svo efnaðir að þeir geti borgað næstum því hvaða verð sem vera skal fyrir að fá húslóð eða eitthvert afdrep. En almenningur í landinu er ekki svo efnaður. En það er fé almennings sem gerir lóðirnar svona verðmætar. Og á hann svo engan rétt? Á hann svo engan rétt, nema bara ánægjuna af að borga? Ég samþykki ekki að þetta geti verið rétt stefna. Hvað sem líður öllum átökum um heildarstefnur í landinu, þá er þessi stefna alröng og óverjandi með öllu á þessu herrans ári, hvað þá ef hún heldur áfram óbreytt, — gersamlega óverjandi með öllu, enda veit ég að fyrr eða síðar mun megintúlkun þessa frv. sigra. Spurningin er aðeins um það, hvaða ár það verður. Og ég er viss um að það á ekki langt í land að megintilgangur þessa frv. fái hljómgrunn hjá íslensku þjóðinni. Ég er alveg viss um það, af því að menn gera sér grein fyri því að málin eru ekki í lagi og þróunin er á þann hátt og í þá átt að hún getur ekki haldið áfram öðruvísi en Alþ. gripi hér inn í til úrlausnar. Ég aðeins skora á andmælendur þessa frv. að koma með betri lausn á málinu. Auðvitað skulum við flm. hlusta á það vel og ræða það í bróðerni. En ég held að allir hljóti að verða sammála um það, að hér er vandi á ferðinni sem verður að leysa fyrr eða síðar með löggjöf frá Alþingi. Annað er ekki viðunandi. Þetta er svo gífurlegt vandamál.