03.12.1976
Sameinað þing: 28. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Út af því, sem hv. 4. landsk. þm. sagði, að ég hefði beitt valdi mínu gegn því að þetta mál, sem hér er til umr. utan dagskrár, hefði hlotið eðlilega meðferð á síðasta fundi, þá andmæli ég því algjörlega. Í fyrsta lagi er það á valdi forseta hvort hann leyfir umr. utan dagskrár eða ekki, og í öðru lagi er það á valdi forseta hvað hann leyfir mönnum að tala lengi utan dagskrár. En þannig stóð á á þriðjudaginn, þegar þetta mál var til umr., að ég gat komið því að, þannig að fyrirspyrjandi gat komið meginmáli sínu á framfæri í sinni ágætu ræðu og hæstv. ráðh. tókst líka í stuttu máli að svara því sem svara þurfti. Ástæðan fyrir því, að það var barið í borðið þegar frummælandi, hv. 9. þm. Reykv., var búinn að tala í 5 mínútur, var eingöngu sú, að ég takmarkaði ræðutímann og tilkynnti þegar hann var búinn, en ráðh. var innan við 10 mínútur, þannig að hann þurfti ekki aðvörunar með þar af leiðandi. En það er venja í fyrirspurnum, sem bornar eru fram samkv. þingsköpum, að þá hefur fyrirspyrjandi 5 mínútur og hlutaðeigandi ráðh. 10 mínútur. Þannig ætla ég að þarna hafi ekki verið neinn óvenjulegur háttur á hafður, og ef hv. 4. landsk. þm. vill kynna sér þessi mál, þá bíð ég hann að blaða í þingtíðindum tvö síðustu árin, því ég minnist þess að hv. 2. þm. Austurl. vítti mig einnig fyrir tveim árum fyrir sama hátt á í umr. utan dagskrár og hv. 4. landsk. þm. gerði nú, þannig að þarna er ekki um neitt einsdæmi að ræða.

Svo finnst mér það líka, að úr því að umr. var ekki lokið og nú fer fram framhaldsumr., þá sé hægt að koma þeim öðrum sjónarmiðum fram í þessu máli sem ekki komu fram á þeim stutta tíma sem þetta mál var til umr. á þriðjudag. Og enn fremur hefur hv, 4. landsk. þm. borið fram í fjöldamörgum liðum fyrirspurnir um Kröfluvirkjun og allt þar að lútandi, þannig að ég ætla að þessu máli verði gerð eigi minni skil en mörgum öðrum hér á hv. Alþ. Og á það vil ég minna, að margsinnis í fyrravetur var Kröfluvirkjun til umr. utan dagskrár, og ég held að því máli hafi ekki verið gerð lakari skil á Alþ. en ýmsum öðrum. En það vil ég taka fram í þessu sambandi einnig, að ég met landhelgismálið nokkuð á annan hátt en Kröfluvirkjun og hingað til hef ég ekki takmarkað umræðutíma þegar fjallað hefur verið um utanríkis- eða landhelgismál, og ég mun láta þá reglu áfram gilda.