03.12.1976
Sameinað þing: 28. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í beinu framhaldi af því, sem hæstv. forseti ræddi um hér úr forsetastól, vil ég taka það fram, að við alþfl.- menn skiljum ósköp vel hans vanda. Þegar lítið lifir af þingi fram að jólum og menn óska eftir að koma með fyrirspurnir eða mál utan dagskrár, þá er erfitt fyrir hann að verða við þeim óskum og eðlilegt að hann reyni að sníða slíkum umr. eins þröngan stakk og hann getur. Ég vil einnig benda á það, að undir slíkum tilvíkum höfum við alþfl.- menn ávallt virt forseta og höfum aldrei farið fram yfir þann tíma sem hæstv. forseti hefur heimilað okkur, og það gerði sá, sem hafði orð fyrir okkur í þessum umr., ekki heldur, heldur hélt sig við þær 5 mínútur sem honum voru úthlutaðar. En ég verð að benda hæstv. forseta á það, að sá sem einnig hafði óskað eftir umr. utan dagskrár þennan sama dag, hann fékk sömu beiðnina um takmörkun á ræðutíma og við. Sú beiðni var ekki virt, og við urðum ekki varir við það, alþfl.- menn, að hæstv. forseti hefði neitt við það að athuga. Og ég vil einnig taka það fram og kvaddi mér hljóðs sérstaklega til þess að geta þess, að þegar umr. voru hér fyrir tveimur dögum, þegar þingflokkur Alþfl. óskaði þess formlega við hæstv. forseta að Kröflumálið yrði tekið á dagskrá, þá leit ég ekki svo á að hér væri um að ræða beiðni um fyrirspurn til hæstv. ráðh., heldur beiðni um umr. um þetta mikilvæga mál.

Ég ætla ekki að fara í neinn meting um það, hvert málið er öðru stærra. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að hér er um að ræða mál sem er þannig vaxið að það hefur kostað hverja einustu meðalfjölskyldu í landinu 200 þús. kr. skuld við erlenda banka í erlendum gjaldeyri. Miðað við það að Kröfluvirkjun kosti uppkomin í kringum 10 milljarða, þá þýðir það einfaldlega að meðalstór íslensk fjölskylda er að taka á sig ábyrgð í erlendum bönkum á erlendu gjaldeyrisláni að upphæð 200 þús. kr. Og ef það er rétt, sem fram hefur komið í álíti ýmissa merkustu vísindamanna okkar, að þarna sé í hættu stefnt, þá er vissulega ástæða til þess af Alþ. að taka það til umr., og raunar er furðulegt að það skuli ekki hafa verið betur gert heldur en gert hefur verið á þessu þingi. En skýringin á því er e.t.v. sú, að þrír af fimm flokkum þingsins virðast hafa svarist í nokkurs konar fóstbræðralag þagnarinnar um þetta mál. Þeir vilja helst ekki ræða það, helst ekkert um það segja, helst þegja yfir því. Sú er e.t.v. skýringin á því hvernig stendur á því að erfitt er að fá þetta mál til umr. hér á hinu háa Alþ. Þó vil ég benda á það, að jafnvel helstu stuðningsblöð þessara þriggja flokka telja sig fara nærri um hvað þarna er að gerast, og þær alvarlegu og ískyggilegu fréttir, sem birst hafa um horfur á Kröflusvæðinu undanfarna mánuði, hafa ekki síður birst í þeim blöðum heldur en öðrum blöðum, og viðvörunarorð, sem gefin hafa verið, hafa ekki síður verið gefin í þeim blöðum heldur en öðrum. Minni ég í því sambandi á fjölmarga leiðara í dagblaðinu Vísi, fyrrv. stuðningsblaði hæstv, iðnrh., sem hefur e.t.v. blaða mest látið í ljós áhyggjur sínar yfir þróun þessara mála.

Ég kvaddi mér hér hljóðs fyrir tveimur dögum fyrst og fremst til þess að gera tvennt: Í fyrsta lagi til þess að lýsa óánægju minni með það, hvaða hátt ætti að hafa á þessum umr. Í öðru lagi til þess að óska eftir því bæði við hæstv. forseta og hæstv. iðnrh. að umr. yrði haldið áfram þegar betri tími gæfist, og sá tími gefst ekki enn því við verðum að hverfa hér af fundi eftir tæpa klukkustund, — umr. verði haldið áfram og þá í þeim dúr að hæstv. ráðh. flytji Alþ. skýrslu um ástandið við Kröflu, um horfurnar í sambandi við gerð þeirrar virkjunar og um þá valmöguleika sem enn eru fyrir hendi um að halda áfram — eða biða og sjá hvað úr ætli að verða. Og ég vil ítreka þessa ósk mína til hæstv. ráðh., að hann gefi Alþ. tæmandi skýrslu um þessi atriði. Hvort heldur menn vilja kalla það hvíta bók eða svarta skýrslu, það fer sjálfsagt eftir því hvaða skoðanir menn hafa á þessari virkjun, en ég óska eindregið eftir því við hæstv. ráðh. að hann flytji Alþ. slíka skýrslu byggða á nýjustu tiltækum upplýsingum þeirra sérfræðinga sem þarna hafa hagsmuna að gæta og vit og þekkingu á, og óska jafnframt eftir því við hæstv. forseta, að hann verði rýmilegur í tíma sínum við bæði hæstv. ráðh. og hv. alþm. þegar að því kemur að slík skýrsla verði flutt.

Hvort það væri rétt að ríkisstj. sjálf gæfi út þessa hvítu bók eða svörtu skýrslu eða iðnrh. sjálfur legg ég alveg á vald hæstv. ríkisstj. og ætla engin afskipti að hafa af þeirri ákvörðun hennar. Ég get þó ekki komist hjá því, fyrst ég er kominn í þennan ræðustól og væntanlega ekki ætlað að sæta 5 mínútna tímatakmörkun — eða er svo? (Forseti: Það hefur ekki verið tilkynnt.) — Þá ætla ég þó ekki að láta hjá liða að fara örfáum orðum um Kröfluvirkjun og málefni hennar, þó að ég ætli að láta frekari umr. biða af minni hálfu í þeirri von að hæstv. iðnrh. verði við þeirri áskorun minni að flytja Alþ. skýrslu um þetta mál og ekki aðeins þinginu, heldur þjóðinni líka, sem veit ekki lengur hvaðan á sig stendur veðrið.

Það hefur komið fram m.a. á ráðstefnu, sem haldin mun hafa verið í Kaliforníu fyrir tveim árum eða svo og forráðamenn Kröfluvirkjunar fóru til, að það teldist lágmark, áður en ráðist yrði í jarðgufuvirkjun, að þær tilraunaholur, sem boraðar væru, væru látnar blása í 6 mánuði áður en hægt yrði að byrja mælingar og athuganir á virkjunarmöguleikum. Þetta hef ég eftir þeim íslensku sérfræðingum sem þessa ráðstefnu sátu. Ég bendi aðeins á að þessi athugun hefur ekki farið fram hér á landi.

Nýlega skrifaði einn þekktasti vísindamaður þjóðarinnar á þessu sviði grein í eitt dagblaða borgarinnar þar sem hann lýsti svipuðum virkjunarframkvæmdum sem ráðist hafði verið í í landinu Kenýa í Afríku. Hjá þessum vísindamanni í þessari grein kom það fram, að undirbúningsathuganir og rannsóknirnar á þessu jarðgufuvirkjunarsvæði í Kenýa hefðu staðið í 6 ár áður en endanlega var afráðið hvernig ætti að virkja, með hverjum hætti og hversu mikið.

Ég bendi enn fremur á að það virðist ekki enn liggja fyrir hvaða aðili það raunverulega er sem tók þá ákvörðun að hefja virkjun við Kröflu án þeirra undirbúningsathugana sem flestir íslenskir sérfræðingar og að ég ætla allir erlendir sérfræðingar eru sammála um að séu nauðsynlegar áður en í svona framkvæmdir er ráðist. Og ég vil enn fremur benda á það, hvernig að þessum málum öllum er staðið. Það er Orkustofnun sem á að sjá um útvegun orku og rannsóknir hennar. Henni á ekki að koma neitt annað við heldur en aðeins gufuöflunin sjálf. Síðan kemur annar aðili, Kröflunefnd, sem á að reisa mannvirki þarna og panta vélar. Síðan kemur þriðji aðili, Rafmagnsveitur ríkisins, sem á að sjá um að koma orku þeirri, sem væntanlega verður framleidd á Kröflusvæðinu, á markað, Síðan kemur fjórði aðili, sem enn er ekki fundinn, sem á að reka þessa aflstöð. Og það virðist vera að þessi fjögur höfuð á sama líkama hafi raunverulega ekkert samband sín á milli og enginn þeirra, hvorki einn né annar, beri ábyrgð á því hvernig líkaminn starfar. Þetta minnir einna mest á ævintýri sem ég las sem strákur, þar sem líffærin í Jóni Jónssyni voru að rífast um hvert væri öðru mikilvægara, Heilinn taldi sig mikilvægari maganum, maginn taldi sig mikilvægari fótunum o.s.frv., o.s.frv. Þetta ævintýri endaði þó vel, því að líffærin í Jóni Jónssyni samþykktu eftir langan umræðufund að sennilega væru þau háð hvert öðru talsvert mikið og Jóni Jónssyni ekki góð framtíð búin ef þau ætluðu að fara að starfa hvert í sínu lagi. En í sambandi við málefni Kröflu virðast þau líffæri, sem þar eiga að taka til starfa og eiga að halda málunum uppí, ekki einu sinni vera á sama líkama, hvað þá í kallfæri hvert við annað. Hæstv. iðnrh. situr við sitt heygarðshorn, Orkustofnun í sínu horni, Kröflunefnd í sínu horni, Rafmagnsveitur ríkisins í sínu horni, og svo bætist fimmta hornið við þar sem rekstraraðilinn á að vera, en þar er enginn enn því hann hefur ekki fundist. Og þessi horn eru ekki einu sinni í sama herbergi, þau eru ekki einu sinni í sama húsi, það er varla að þau séu í sama landsfjórðungi.

Það er með þetta eins og flest annað, að ef þetta gengur, sem allir þm. og þjóðin öll vonar, þá sjálfsagt verður ekki langt að leita þess sem telur sig bera ábyrgðina á öllu saman. Ef vel gengur þarf ekki að leita að þeim sem á að ýta á hnappinn og setja vélarnar í gang, halda tækifærisræðu við það tilefni og fá myndir af sér í blöðum. Þá verður ekki neinn í vandræðum með að benda á hver ábyrgur er, hver eigi að fá þakkirnar. En ef illa fer, hver er það þá sem stendur ábyrgur fyrir þjóðinni? Er það hæstv. iðnrh.? Er það hæstv. ríkisstj.? Er það Alþingi? Er það Kröflunefnd? Er það Orkustofnun? Eða Rafmagnsveitur ríkisins? Er það Norðurlandsvirkjun sem enn er ekki til? Að þessu hefur verið spurt og að þessu hlýt ég að spyrja, og ég hlýt að vilja fá það hreinlega fram frá hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj., hver það er sem er ábyrgur fyrir þingi og þjóð fyrir framkvæmdunum við Kröflu. Hver á heiðurinn ef vel tekst og hver stendur ábyrgur ef illa tekst? Hver er það sem er ábyrgur fyrir því að hunsa eða taka ekki tillit til athugasemda og ummæla ýmissa helstu sérfræðinga okkar lands á þeim sviðum sem varða Kröfluvirkjun? Hver er það sem tekur þessar ákvarðanir? Hver er það sem axlar þá ábyrgð sem því fylgir? Um þetta viljum við fá skýr svör. Og ég fæ ekki séð annað en að íslenskir skattborgarar, sem standa ábyrgir fyrir þessum framkvæmdum og hafa axlað hver meðalfjölskylda um 200 þús. kr. í erlendum lántökum fyrir þessari framkvæmd eða mun axla það, að þeir vilji fá að vita hver það er sem leggur þessa byrði á þá, hver það er sem ábyrgðina ber.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, þessari stuttu ræðu sem hann flutti fyrir tveimur dögum, að það væri í raun réttri Alþingi sem ætti að axla þessa ábyrgð og þ. á m. væntanlega við fimm þm. Alþfl., vegna þess að Alþ. hefði samþ. heimildarlöggjöf um jarðgufuvirkjun við Kröflu. Eins og hv. 4. landsk. þm. benti á, þá er hér aðeins um heimildarlöggjöf að ræða, síðan tekur væntanlega ráðh, eða ríkisstj. öll ákvörðun um það, hvort og hvernig heimildinni skuli beitt. En ég vil benda hv. alþm. á annað í þessu sambandi, og það er að sú virkjun, sem verið er að byggja við Kröflu, á sér enga stoð í lögum vegna þess að heimildarlöggjöfin, sem Alþ. samþ., gerði ráð fyrir heimild til ríkisstj. eða annars aðila að reisa og reka jarðgufuaflsstöð við Kröflu eða austanvert. Námafjall með allt að 55 mw. afli. Sú virkjun, sem nú er verið að byggja við Kröflu, er ekki 55 mw. virkjun. Ástimplað afl hvorrar vélar um sig er 30 mw. Möguleg aflframleiðsla þeirra beggja er 70–72 mw. Mönnum finnst það kannske ekki stór keppur í sláturtíðinni þó það muni 15–20 mw. á þeirri virkjun, sem verið er að reisa, og þeirri virkjun, sem lög heimila að reist verði. En ég vil benda aðeins á að mismunurinn sem þarna er, hann er ekki minni en samanlagt virkjað vatnsafl í heilum landsfjórðungi. Ég er því ansi hræddur um að það þurfi að breyta þessum lögum talsvert enn til þess að geta varpað ábyrgðinni yfir á hið háa Alþingi.

Þá kom það einnig fram hér í fyrra, þegar umr, urðu um Kröfluvirkjun utan dagskrár, að ég lét í ljós talsverðan ótta um að verðlagið á rafmagni því, sem ætti að framleiða við Kröflu, yrði nokkru hærra en menn gengju út frá. Þessu mótmælti hæstv. iðnrh. mjög eindregið og var sífellt að klifa á því að verðið á raforkunni frá Kröflu yrði fyllilega samkeppnisfært við verð á innfluttum orkugjöfum eins og olíu. En nú ber svo við að nýlega hefur komið út á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins, áætlanadeildar, skýrsla um Norðurlandsvirkjun þar sem m.a. er spáð hvert heildsöluverð orku frá Kröfluvirkjun muni verða. Í þessari skýrslu, sem væntanlega er gefin út ekki aðeins með samþykki Framkvæmdastofnunarinnar, heldur einnig ríkisstjórnar Íslands, er gengið út frá því að heildsöluverð á raforku frá Kröflu geti numið talsvert á þrettándu krónu, og það er fjórum til sex sinnum meira en kostar að kynda hús eða kynda aflvélar með innfluttum orkugjöfum. Ef við erum að standa í því að virkja okkar ódýra vatnsafl, er þá ekki nokkuð hátt spenntur boginn ef niðurstaðan er sú að orkan, sem þessi raforkuver framleiða, sé fjórum til sex sinnum dýrari heldur en innflutt orka frá Arabalöndum? Hvar er þá allur auðurinn í íslensku vatnsföllunum og íslensku jarðgufunni, sem við höfum verið að státa af, ef við getum ekki staðið okkur betur en svo, að sú innlenda orka, sem við erum að reyna að framleiða í stað innfluttrar orku, sé fjórum til sex sinnum dýrari en innflutta orkan sem við erum að reyna að losa okkur við? Hvernig er eiginlega staðið að málum af íslenskum ráðamönnum ef þetta á að vera niðurstaðan, að það sé fjórum til sex sinnum dýrara að kaupa orkuna af okkur sjálfum heldur en að kaupa hana frá rússum eða arabískum olíufurstum? Er það þessi stefna sem á að ráða í sambandi við virkjunarmál á Íslandi, jarðgufu- og vatnsaflsvirkjanir, að við séum að reisa okkur hurðarás um öxl í erlendum skuldasöfnunum til þess að framleiða orku sem við gætum ekki selt nokkrum manni öðrum en okkur sjálfum nema á miklum undirboðum, þar eð hún er fjórum til sex sinnum dýrari heldur en innflutt orka í formi olíu og bensíns.

Sú gagnrýni, sem við alþfl.-menn höfum haldið uppi á Kröfluvirkjun, er ekki þannig til komin að við efumst um að norðlendingar og austfirðingar búi við raforkuskort og hafi lengi við raforkuskort búið. Okkur er fyllilega ljóst að það er og hefur verið mjög nauðsynlegt að auka orkuframleiðslu fyrir norðlendinga og austfirðinga. En fyrr má nú rota en dauðrota, vegna þess að hverju eru norðlendingar og austfirðingar bættari, hverju eru landsmenn allir bættari ef sú orkuöflun þýðir það í raun að raforkuverð á orkuveitusvæðinu þurfi að tvöfaldast frá því sem nú er til þess að hægt verði að standa undir kostnaði við framleiðsluna á þessari orku. Þetta er svipað læknisráð eins og ef maður, sem hefði lengi búið við hungur, væri tekinn inn á einhverja góðgerðarstofnun, settur við 12 manna matarborð, bornir fram réttir sem ætlaðir væru 12 manns, honum skipað að éta þá alla og síðan væri honum sendur reikningurinn á eftir. Þetta er læknisráðið sem verið er að beita núna til þess að lækna raforkuskortinn hjá norðlendingum og austfirðingum. Það er verið að færa þeim mjög dýrt rafmagn í miklu meira mæli heldur en þeir hafa þörf á og getu til þess að nota, og síðan eiga annaðhvort þeir eða landsmenn allir að borga brúsann. Vissulega mætti segja eftir 10–15 ár, þegar orkuþörfin á þessum landssvæðum hefur aukist mikið frá því sem hún er nú, þá geta kannske einhverjir staðið upp og sagt: já, sjáið þið nú til, núna er Kröfluorkan uppétin. Hvernig hefðum við staðið nú ef við hefðum ekki gert þetta eða hitt fyrir 10–15 árum? — En þetta mætti alveg eins segja um hungraða manninn sem ég var að taka dæmi af áðan. Hann er kannske settur niður við 12 manna matarborð í dag og skipað að éta fyrir 12 manns næstu árin. Eftir 15 ár, þegar maðurinn væri búinn að koma sér upp fjölskyldu og hrúga niður börnum, þá gæti einhver staðið upp og sagt: jæja, var ég nú ekki sannspár? Var nú ekki réttara að byrja að gefa manninum ríflega fyrst til þess að hann hefði nóg þegar hann var búinn að hlaða niður börnum? — En það er þetta, slíkar og þvílíkar röksemdir, sem beitt er þegar verið er að reyna að leysa úr orkuþörf norðlendinga og austfirðinga.

Til þess enn frekar að árétta þetta sjónarmið vil ég skýra frá því, að nú fyrir fáum dögum kom rafmagnsveitustjóri ríkisins á fund fjvn. og gaf henni ýmsar upplýsingar um raforkumál. Þar kom m.a. fram að því er spáð hjá Rafmagnsveitum ríkisins að byggðalínan ein muni nægja norðlendingum og austfirðingum til þess að fullnægja öllum þeirra raforkuskorti, núverandi raforkuskorti og fyrirsjáanlegum raforkuskorti til ársins 1982. Í fimm ár til viðbótar þurfa norðlendingar og austfirðingar því ekki á annarri viðbótarorku að halda heldur en þeirri sem fæst með byggðalínunni einni. Í heil fimm ár á því að reka Kröfluvirkjun sem nokkurs konar varaaflstöð án þess að nokkur markaður sé fyrir orkuna frá þessari virkjun.

Hvað skyldi nú fyrirtækið kosta þegar búið er ekki aðeins að reisa virkjunina og línur til þess að flytja raforkuna frá henni, heldur einnig þegar búið er að reka þessa virkjun í fimm ár án þess að nokkur hafi þörf til þess að kaupa það rafmagn sem hún framleiðir? Ætla rekstrarhallinn á virkjuninni yfir það tímabil muni ekki nema álíka upphæð og hún kostar fullsmíðuð, og skyldi þá ekki vera farið að nálgast, komið jafnvel yfir 20 þús. milljónir sem þjóðin þyrfti í einu eða öðru formi að borga fyrir að hafa virkjun Kröflu tilbúna áríð 1982 til þess að geta sinnt þeim markaði sem þá fyrst byrjar að skapast á Norðurlandi og Austurlandi fyrir þessa virkjun? Þarna er því ekki aðeins verið að ræða um kostnaðinn við að byggja þessa virkjun, heldur einnig kostnaðinn við að reka hana í heil fimm ár án þess að nokkur þörf sé fyrir þá raforku sem þessi virkjun á að framleiða. Það má vel vera að þetta komi ekki fram sem hreinn rekstrarhalli á virkjuninni sjálfri, þetta komi ekki fram þannig að virkjunin framleiði orku í fimm ár án þess að nokkur kaupandi fáist. En þá kemur þetta bara niður á öðrum virkjunum á Norðurlandssvæðin sem geta rá ekki selt þá orku sem þær framleiða.

Samkvæmt yfirlýsingu rafmagnsveitustjóra ríkisins er Krafla óþörf fram til 1982, engin not fyrir orkuna frá Kröflu fyrr, heldur eftir það ár, eftir árið 1982. Ef fram til þess tíma verður um einhverja rafmagnssölu að ræða frá Kröflu sem máli skiptir, þá bitnar það einfaldlega á raforkusölu annarra virkjana á Norðurlandi eða annarra virkjana á landinu sem gætu selt orku til Norðurlands, sem auðvitað mundu þá skila a.m.k. minni rekstrarafgangi eða rekstrararði út úr því dæmi, þannig að það skiptir engu máli hvort heldur Kröfluvirkjun er rekin án þess að selja orku næstu fimm ár eða það bitnar á einhverjum öðrum virkjunum sem ella gætu selt meiri raforku. Niðurstaðan er sú, að það er þjóðin sem þarf að borga, og ef marka má þessar upplýsingar, þá þarf hún að borga ekki einfalt verð Kröfluvirkjunar, heldur tvöfalt, ef ekki þrefalt, áður en hún getur fengið að njóta einhvers hags af þessari virkjun.

Ég vil enn og aftur benda á að fram til þessa hefur Kröflumálið verið slíkt feimnismál, bæði hér á Alþ. og í þeim stofnunum, ráðum og nefndum sem um þetta mál hafa fjallað, að það hefur varla verið hægt að fá nokkurn mann tengdan þessu fyrirtæki til þess að opna sig um það hvað þar er að gerast. En nú eru að verða miklar breytingar þar á. Nú eru sérfræðingarnir, sem mest hafa haft af þessu máli að segja, að opna sig meira með hverjum deginum sem líður. Þær fréttir, sem birst hafa af ástandinu við Kröflu undanfarna daga og víkur, hafa allar byggst á umsögnum sérfræðinga. Það eru sérfræðingarnir, en ekki stjórnmálamennirnir, sem nú gagnrýna framkvæmdirnar við Kröflu hvað harðast. Og hvers vegna? Vegna þess einfaldlega að þessir sérfræðingar eru orðnir hræddir við að stjórnmálamennirnir ætli að velta ábyrgðinni af Kröfluævintýrinu alfarið yfir á þá. Þess vegna þora þeir ekki að þegja lengur. Og hvað er það sem þeir hafa verið að segja við okkur t.d.? Forstöðumaður Jarðborana ríkisins, studdur áliti fundar Jarðfræðingafélagsins, hefur lýst því yfir að það sé skoðun jarðfræðinga að borsvæðið, dalurinn sem borað hefur verið í við Kröflu sé þannig kominn, að það sé eins gott að gefa hann upp á bátinn og byrja á nýjan leik á allt öðru svæði, bora fyrst tilraunaholur og síðan væntanlega virkjunarholur. Og hvað þýðir þetta? Þetta þýðir einfaldlega það, að einn fremsti sérfræðingur okkar íslendinga í þessum málum lýsir yfir að það sé skoðun sín að íslenska ríkisvaldið, eða hver sem ræður af þessum fimm eða sex höfðum á Kröflu, sé búið að henda 13–14 hundruð millj. kr. af fé þjóðarinnar ofan í botnlausa hít borholanna ellefu við Kröflu, þær muni aldrei koma að gagni og fyrr hefði verið betra að flytja sig af þessum borstað og yfir á annan. Þetta er það álit sem ýmsir helstu sérfræðingar þjóðarinnar, sem þagað hafa til þessa, eru nú farnir að láta í ljós.

Í þessum málum er ég að sjálfsögðu eins og flestir þm. aðeins leikmaður. Það er þess vegna sem ég kemst ekki hjá því að óska eftir því við hæstv. ráðh. að hann láti ekki langan tíma líða áður en hann flytur annaðhvort á eigin vegum eða í nafni ríkisstj. Alþingi nákvæma skýrslu um ástandið við Kröflu, horfurnar við Kröflu og þá möguleika og þá kosti sem í boði eru, hvort heldur til að taka málið að nýju til skoðunar, fresta framkvæmdum, flytja borstaði nú eða halda áfram þrátt fyrir viðvaranir bæði guðs og manna.