03.12.1976
Sameinað þing: 28. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umr. sem hér hafa farið fram um meðferð fsp. minnar á þriðjudaginn var um Kröflu. Það verða þeir reyndari hér í þinginu að fjalla um, um fordæmin og hvort hér hafi verið staðið að á venjulegan máta eða óvenjulegan. Ég ætla ekki að meta það. Hins vegar kom mér nokkuð á óvart þegar þetta var ákveðið hvað skamman tíma ég fékk til þess að fjalla um þetta mál, því að eins og komið hefur fram í umr. í dag og reyndar áður, þá er Krafla það mikilvægt mál að þingið þarf að fjalla um það við og við og ekki síst nú þegar komið er að þeim tíma sem virkjunin átti að vera til og við sjáum hvernig ástandið er á þeim stað sem Kröfluvirkjun á að starfa á.

Í umr. utan dagskrár s.l. þriðjudag um ástandið við Kröfluvirkjun sagði ég frá því, að ég teldi nú orðið ljóst að ekki hefðu farið fram nægar undirbúningsrannsóknir á Kröflusvæðinu áður en framkvæmdir við virkjunina hófust. Hæstv. iðnrrh. svaraði þessari fullyrðingu minni með því að lesa upp úr skýrslu Orkustofnunar er gefin var út í ársbyrjun 1975. Kom fram í þeirri skýrslu m.a. að rannsóknir hafi farið fram á árunum 1970–1973 og á árinu 1974 og hafi verið boraðar tvær tilraunaholur, niðurstaða þessara borana og annarra rannsókna hafi leitt í ljós að Kröflusvæðið mundi standa undir 50–60 mw. gufuvirkjun og hugsanlegri stækkun síðar. Ég leyfi mér að halda því fram, og hef fyrir mér fullyrðingar vísindamanna um það, að hvergi í heiminum, þar sem gufuaflsvirkjanir hafa verið reistar, hafi farið fram jafntakmarkaðar rannsóknir áður en virkjunarframkvæmdir hófust. Það eitt að segja að rannsóknir hafi farið fram á þriggja ára tímabili segir ekkert um það hversu ítarlegar þær rannsóknir hafi verið. Ég hef hvergi getað fengið það staðfest af neinum vísindamanni að þessar rannsóknir hafi verið nægar. Ég held að ekki fáist betri staðfesting á því, hversu illa hefur hér verið staðið að undirbúningsrannsóknum, en með því að vitna til þess hvernig ástandið er á virkjunarsvæðinu þegar samkvæmt áætlunum átti að fara að sjást fyrir endann á fyrstu áætlunum um raforkuframleiðslu.

Til samanburðar við undirbúning Kröfluvirkjunar ætla ég að segja í nokkrum orðum frá undirbúningi að gufuaflsvirkjun í Kenýa, sem nokkrir aðilar hafa minnst á. Í Kenýa er jarðhitasvæði. Á þessu svæði voru boraðar tvær tilraunaborholur einhvern tíma á árunum fyrir 1960. Þessar holur voru um 900 m djúpar og bentu þær til þess að þarna undir væri jarðhiti yfir 200°C. Árið 1968 komst Þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna í spilið, en sjóðurinn styrkir þær jarðhitarannsóknir, og næstu 5 árin voru í Kenýa framkvæmdar yfirborðsrannsóknir með öllum þekktum jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum. Þessar rannsóknir leiddu síðan til þess, að hafist var handa um boranir á árinu 1973, og voru á næstu tveim árum boraðar 4 borholur, samtals um 4800 m djúpar, en dýpsta holan er 1600 m. Við þessar boranir starfaði íslenskur verkfræðingur, Ísleifur Jónsson forstöðumaður jarðboranadeildar Orkustofnunar, sem eftirlitsmaður fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Þegar leið að lokum borananna voru tveir jarðeðlisfræðingar, Stefán Arnórsson í Orkustofnun og Sveinbjörn Björnsson í Raunvísindastofnun Háskólans, kallaðir til Kenýa til að meta árangur og gera till. um frekari framkvæmdir. Á grundvelli þeirra athugana réðu Sameinuðu þjóðirnar til ráðuneytis verkfræðistofuna Virki í Reykjavík og sænska verktakafyrirtækið Sveko til að gera till. um framhaldið. Skýrsla þessara ráðunauta mun nú í þann veginn að koma út, og verður þá væntanlega tekin ákvörðun um 10 mw. aflstöð sem fullnægja mun aflþörf nálægra byggðarlaga. Næg gufa til þessarar virkjunar er fyrir hendi í boruðum borholum, en fyrr var ekki talíð rétt að taka ákvörðun um virkjun og hefja hönnun.

Gangur málsins þar er því þessi: 1) Forrannsóknir, athugað hvort jarðhiti sé fyrir hendi. 2) Nákvæmar jarðeðlisfræðilegar rannsóknir. 3) Boranir og öflun gufu. 4) Ákvörðun um virkjun.

Það er stundum talað um Kenýa sem vanþróað land, en við teljumst vera: öðrum klassa en þeir á þeim vettvangi. Það er líka mjög athyglisvert að íslenskir verkfræðingar hafa mjög verið hafðir í ráðum við framangreindar rannsóknir í Kenýa. Hv. alþm. taka sínar ákvarðanir oft að því er virðist án ráðlegginga sérfræðinga og stundum þvert ofan í ráðleggingar þeirra, og ríkir þá sú stefna, eins og haft er eftir einum þingmanni, að aldrei hafi verið byggð svo vitlaus virkjun á Íslandi að hún borgaði sig ekki.

Hinn mikli hraði, sem hafður hefur verið á framkvæmdum við Kröfluvirkjun, hefur alltaf verið afsakaður með því að í árslok 1976 yrði framkvæmdum við virkjunina að vera lokið því þá yrði Orkustofnun tilbúin með orkuna. Síðar tók Orkustofnun þá áætlun sína til endurskoðunar og taldi enga tryggingu fyrir því að orka fyrir 30 mw. raforkuframleiðslu yrði tilbúin fyrir árslok 1976, En lýsingin á því ástandi, sem nú ríkir við Kröflu, ástandi borholanna, verður varla betur rakin en í Morgunblaðinu nú fyrir nokkrum dögum. Fyrirsögn þessarar greinar er svolítið merkileg því hún hljóðar á þessa leið: „Horft vonaraugum á holu 9.“ Undirfyrirsögn: „Hræðsluvíti hvarf þegar hola 3 var kæfð.“ Þarna er í stuttu máli sagt raunverulega frá því ástandi sem ríkir á þessu svæði. En það kemur meiri og ítarlegri frásögn í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Guðmundur Pálmason hjá Orkustofnun sagði,“ segir í Morgunblaðinu, „að segja mætti að það gæti vissrar bjartsýni með holu 10, en hins vegar væri varasamt að segja nokkuð ákveðið í þessu efni fyrr en holan hefði verið mæld. Væri stefnt að því að mæla holuna eins fljótt og auðið væri eða strax upp úr helginni,“ — það er um síðustu helgi, — „en þegar væri kominn hár þrýstingur í holuna. Guðmundur kvað hins vegar einnig of snemmt að segja nokkuð um það í hvaða formi sú orka væri sem úr holunni fengist ef til kæmi. Hola 10 er skammt frá holu 4 eða Sjálfskaparvíti, eins og hún var nefnd eftir að hún reif allar lokur af sér, en áður en til þess kom hafði hún gefið af sér rennsli.

Þá hefur Morgunblaðið fregnað, að verulegar vonir séu bundnar við holu 11, en af hálfu Orkustofnunar er því svarað að of snemmt sé að spá nokkuð um árangurinn af þeirri holu. Ekkert verður átt við holu 5 að sinni, en eins og komið hefur fram hefur komið í ljós hlykkur á þeirri holu sem hefur í för með sér að ekki er hægt að koma borstöngum niður í hana. Fyrirstaða hefur einnig komið fram í holu 7, en hún blæs þó eftir sem áður og er ekki unnt að gera við holu í blæstri. Þarf því að kæfa holuna með því að dæla í hana köldu vatni, en því eru ýmis vandkvæði samfara og verður ekki gert nema að vel athuguðu máli, að því er Jakob Björnsson orkumálastjóri tjáði Morgunblaðinu. Líkur eru taldar á að einhver þan efnasambönd séu í holunum á þessu svæði er valda tæringu í fóðringum holanna.

Komið hefur gat á fóðringar í holu 3, sem að líkindum má rekja til framangreindrar ástæðu, en hola þessi var kæfð í fyrradag og er nú verið að kanna hvað gera megi til að gera við hana.“

Þetta er sagt í Morgunblaðinu og meiri sorgarsaga af þessum framkvæmdum við Kröflu verður varla sögð hér á Alþ. En það er svolítið athyglisvert að íhaldspressan er mér besti bandamaðurinn þegar ég fer að rifja upp hvernig ástandið er við Kröfluvirkjun, og bendir þá margt til þess að farið sé að hitna í kolunum á stjórnarheimilinu þegar rætt er um Kröflu og að ástandið sé alvarlegra en hér er látið í veðri vaka í ræðum iðnrh. og fleiri.

Þannig stöndum við nú í árslok 1976, að virkjun með möguleika á 30 mw. framleiðslu er að verða tilbúin norður við Kröflu, vafalaust vel byggð af slíkum stöðvarhúsum að vera með japönskum túrbínum, keyptum án útboða til að hraða framkvæmdum, en enga orku til að færa langbreyttum norðlendingum.

Í öllum umr. um ástand Kröfluvirkjunarframkvæmdanna vitnar iðnrh. ætið til Orkustofnunar um gang framkvæmda og segist ætíð hafa haft upplýsingar hennar að sínu leiðarljósi. Ekki skal ég draga það í efa að rétt sé.

Í svarræðu hæstv. iðnrh. s.l. þriðjudag segir m.a. um ástand innan Orkustofnunar þessa dagana. Um skýringu Ísleifs Jónssonar forstöðumanns jarðboranadeildar á orsökum lítils gufumagns við Kröflu segir orðrétt í ræðu hæstv. iðnrh.:

,.Það er rétt að það komi nú fram, að jarðfræðingar jarðhitadeildar í Orkustofnun eru í veigamiklum atriðum ósammála þeirri skoðun sem Ísleifur Jónsson forstöðumaður jarðboranadeildar setur fram. Þetta er ekki nýtt. Við höfum reynt það oft fyrr hversu ágætum sérfræðingum ber ekki saman um margt varðandi Kröflu. En ég vil taka það skýrt fram, eins og ég hef margsinnis gert áður, að varðandi framkvæmdir við Kröfluvirkjun hef ég talið eðlilegt að byggja fyrst og fremst á þeim skoðunum sem Orkustofnun sem slík lætur í ljós um þessi efni, og þegar ég tala um Orkustofnun, þá á ég við það sem yfirmenn hennar, er ábyrgð bera á umsögnum frá stofnuninni, láta frá sér fara, en það eru fyrst og fremst orkumálastjóri, sem er yfirmaður stofnunarinnar, og dr. Guðmundur Pálmason, sem er yfirmaður jarðhítadeildar.“

Þarna er um að ræða tvo aðila: Í fyrsta lagi yfirmann jarðboranadeildar. Í ræðu iðnrh., er bent á sérstaklega að þessir menn séu ekki sammála um niðurstöðu eða skýringar hans á því ástandi sem er norður við Kröflu og þess vegna sé rétt að minnast á það að aðrir starfsmenn þessarar deildar hafi annað um málið að segja. En þegar kemur að yfirmönnum Orkustofnunar, þá er aðeins vitnað til yfirmannanna, en gefið fyllilega í skyn að þeir, sem undir þeim eru, séu ekki aldeilis sammála um allt það sem frá Orkustofnun kemur, sem sagt staðfestingu á því að innan Orkustofnunar eru vísindamenn ekki lengur sammála um — ef þeir hafa nokkurn tíma verið það — hvernig ástandið er og hvernig við því á að bregðast eða hvað er fram undan um framleiðslu raforku á Kröflusvæðinu í náinni framtíð.

Hæstv. iðnrh. vitnaði m.a. til forráðamanna Orkustofnunar. Hann sagði eftir þeim að varast bæri ótímabæra svartsýni og ótímabæra bjartsýni. Skv. þessum orðum er ástandið við Kröflu vægast sagt alvarlegt. Forstöðumenn Orkustofnunar, sem skv. orðum hæstv. iðnrh. sáu um ítarlegar rannsóknir á Kröflusvæðinu á árunum 1970–1973, láta það nú frá sér fara, þegar virkjunin á að vera fullbúin, að varast skuli ótímabæra bjartsýni. Ef ég skil orðin „ítarlegar rannsóknir“ rétt, þá lít ég svo á að þegar niðurstöður þessara rannsókna lágu fyrir hafi það ekki verið neinum vafa undirorpið að við Kröflu væri heppilegast að reisa þessa virkjun því þar væri næg orka og þar mundi staðsetningu hennar vera best borgið. Var kannske ákvörðun staðsetningar þessarar virkjunar ákveðin af bjartsýni, en ekki nægum rannsóknum? Var kannske mikill þrýstingur stjórnmálamanna orsök þess að vísindamenn Orkustofnunar gáfu út tilkynningu um að Krafla væri heppilegur virkjunarstaður? Slíkar spurningar sækja á þegar velt er fyrir sér þeim orðum forstöðumanna Orkustofnunar að ekki skuli hafa ótímabæra bjartsýni þegar komið er að þeim tíma er virkjunin átti að vera tilbúin til orkuframleiðslu.

Hvað veldur því að staðan er orðin slík, að Orkustofnun lætur fara frá sér slíkar yfirlýsingar? Jú, þetta er staðfesting á því, að eftir margmill.jarða fjárfestingu í Kröfluvirkjun á mjög skömmum tíma úr mjög aðþrengdum ríkissjóði er hún orkulaus og ekki ljóst hvenær eða hvernig sú orka fæst sem þarf til þess að raforkuframleiðsla geti hafist.

Ég á bágt með að trúa því, að þeir 53 þm., sem á þingi sitja og eru þm. þeirra þriggja flokka er fulltrúa eiga í Kröflunefnd og hafa hingað til lagt blessun sína yfir þróun mála við Kröfluvirkjun með allt of langri þögn sinni, hafi ekkert um þessi mál að segja eins og nú er komið með þessar virkjunarframkvæmdir. Það er stundum talað um samtryggingu flokka. Ég hef ekki viljað samþykkja að slíkt væri algengt. En í þessu máli, í þeirri þögn sem um þetta mál ríkir á Alþ., verður ekki fram hjá því lítið að um er að ræða samtryggingu þriggja flokka sem er óverjandi fyrir þjóðinni. Það er þó kafli út af fyrir sig að Alþb. með formann flokksins í Kröflunefnd hefur ekkert um það að segja þegar milljarðaframkvæmdir til raforkuframleiðslu fyrir hinar norðlensku byggðir eru að komast í strand vegna lélegs undirbúnings í upphafi, — flokkurinn sem þykist verja þá lægst launuðu í þessu landi sem eiga að bera skattbyrðarnar sem af þessu hljótast á næstu árum. Hvernig á að verja nýjar skattbyrðar á þrautpíndar láglaunastéttir þessa lands í framhaldi af illa undirbúnum virkjunarframkvæmdum við Kröflu?

Alþingi þarf að staldra við, þrátt fyrir að þrír stjórnmálaflokkar með 53 þm. að baki hafi lagt blessun sina yfir þessar framkvæmdir. Alþingi og þjóðin öll verður að fá vitneskju um það nú þegar hvort hægt er að halda þessum framkvæmdum áfram og hvað af þeim muni leiða.