06.12.1976
Neðri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið rætt og reifað það ítarlega að það er ekki ástæða til að fara um það mörgum fleiri orðum. Þó vil ég vitna til þess sem ég hef áður sagt í þessu máli.

Ég undrast tvennt við þessa 2. umr. málsins: Í fyrsta lagi að hæstv. dómsmrh. skuli vera fjarverandi. Mér hefði fundist eðlilegt að hann hefði annaðhvort fylgst með umr. hér í sölum Alþ. eða þá að umr. hefði verið frestað ef hann getur ekki verið viðstaddur. Í öðru lagi undrast ég nokkuð ræðu hv. 5. landsk. þm. sem hún flutti hér áðan, frú Svövu Jakobsdóttur. Í allshn. verð ég að segja að hún hefur verið eins og ljós að því leyti, að hún hefur fylgst með málinu og reynt að kryfja það til mergjar og afla sér upplýsinga um þessa hluti. En þegar hún kemur hér í ræðustól við 2. umr. málsins setur allt í einu að henni hroll mikinn sem hún verður að veita útrás í pólitískum umr. á heldur lágu plani. En látum þetta lönd og leið.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið, en vil geta þess þó, að ég er ekki að öllu leyti ánægður með þetta frv., eins og ég hef gert grein fyrir áður. Það er sérstaklega að því er varðar samband hinnar almennu lögreglu og rannsóknarlögreglu. Ég vil taka það fram enn einu sinni, að í sjálfu sér er enginn eðlismunur á starfi hins almenna einkennisklædda lögreglumanns og rannsóknarlögreglumanns. Það er því rétt og eðlilegt, sem fram kemur í umsögn Landssambands lögreglumanna, að þeir eru nokkuð uggandi yfir þessari skiptingu lögreglu í tvo aðskilda starfshópa sem virðist eiga að halda áfram, þar sem hvor lýtur sinni yfirstjórn. Tel ég það síst til þess fallið að auka samstarfið innan löggæslunnar sem er þó svo afskaplega mikilvægt í þessum málum. Í raun og veru er lögreglan ein heild. Hitt er svo annað mál, að þar sem fólki fjölgar, þéttbýli myndast og þenst út og verkefni vaxa kemur eðlileg starfsskipting af sjálfu sér. Lögreglumaður, hvort heldur hann ber einkennisbúning eða klæðist borgaralegum fötum, sem kann skil á sínu hlutverki, þekkir umhverfi sitt, íbúa þess og aðstæður allar, er oft og einatt hinn ákjósanlegasti rannsóknarlögreglumaður. Þetta hafa mörg dæmi sýnt og sannað.

En þó að ég hafi gert nokkrar athugasemdir við þetta frv. og hafi eitt og annað við það að athuga, tel ég það þó horfa til þeirra endurbóta að rétt sé að veita því stuðning.