06.12.1976
Neðri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu að bæta af minni hálfu við það sem fram kom í framsöguræðu minni. Við höfum heyrt hér að nm. hafa tjáð sig annars vegar á þá leið, að þeir hefðu talið æskilegt að frv. hefði verið látið haldast óbreytt frá því sem það var lagt fram, og hins vegar, að miklu meira hefði þurft að breyta í frv. til þess að þeir hefðu verið fullkomlega sáttir við það. Þetta sýnir aðeins að hér togast á sjónarmið sem eiga sér rætur og eiga sér hljómgrunn víðar heldur en hér meðal alþm. Ég held þess vegna að eftir atvikum hafi allshn. fundið réttu leiðina, þannig að menn geti verið sæmilega sáttir með frv., eins og reyndar kemur fram í því að viðkomandi nm. skrifa undir nál. og mæla með samþykkt frv. eins og það nú lítur út með breytingum allshn.

Það er rétt hjá þeim sem hafa hér látið í ljós þær skoðanir að mörgu megi betur hagræða í þessum málum en verið hefur fram að þessu. En n. tók þá afstöðu að reyna að breyta sem allra minnstu, og var það gert með tilliti til þess að nauðsyn væri af réttarfarsástæðum og vegna ástands í rannsóknarmálum yfirleitt að hraða afgreiðslu þessa frv. (Gripið fram í.) Ég kem aðeins að því á eftir.

Hins vegar vil ég aðeins segja það vegna ummæla Páls Péturssonar, að jafnvel þótt n. hefði engu breytt, hefði samþ. frv. hingað inn í þingið eins og það var lagt fram upphaflega, þá er sá tími, sem n. hefur gefið sér til að athuga þetta mál, fullkomlega réttmætur, og það er ekki mælikvarði um það, hvort n. hefur unnið vel að máli eða ekki, hversu margar brtt. hún leggur fram við viðkomandi mál. Og ég hygg að meðnm. mínir geti verið mér sammála um það, að þetta mál hefur fengið gaumgæfilega skoðun í nefndinni og við erum miklu fróðari um þetta mál heldur en áður eftir yfirferð okkar.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir leggur hér fram tvær brtt.: Annars vegar við frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins varðandi 3. gr., að bætt skuli inn Keflavík og Keflavíkurflugvelli. Hér er ekki um mikinn efniságreining að ræða, þar sem n. sem slík hefur gert að till. sinni að þessi tvö umdæmi verði tekin inn, þótt síðar verði, samkv. ákvörðun ráðh. Þetta er spurning um aðferð og hvenær þessi ákvörðun verði tekin. N. lagði til að ráðh. væri gefinn meiri umþóttunartími vegna þessara tveggja umdæma, m.a. vegna þess að Keflavíkurflugvöllur heyrir ekki undir dómsmrn., heldur utanrrn., svo að af ýmsum tæknilegum ástæðum er hugsanlegt að meiri tíma þurfi til að laga þessa breyt, að nýju kerfi. Af þessum ástæðum er till. n. svo orðuð sem á þskj. sést.

Varðandi hina till., sem er breyt. á frv. til l. um breyt. á lögum um meðferð opinberra mála, sem þau hafa fjallað lítillega um, hv. þm. Svava Jakobsdóttir og Sighvatur Björgvinsson, þá skal ég ekki fara að fullyrða hér úr ræðustól hvaða meiningar voru settar fram af hálfu þeirra sem við töluðum við. Ég man það ekki mjög glöggt. Ég get hins vegar staðfest að Stefán Már Stefánsson og þeir fulltrúar lagadeildarinnar létu orð falla í þá átt, að út af fyrir sig væri mögulegt að breyta í þá átt sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir er að tala um. En þeir bentu í leiðinni á ýmsa vankanta við það líka, m.a. það sem Sighvatur Björgvinsson hefur talað hér um, að það séu vissir erfiðleikar stundum á því að skylda dómara beinlínis til þess að skipa réttargæslumann, og svo líka hitt, að með því að skipa réttargæslumann er það kostnaður sem greiddur er af ríkissjóði. Þeir vöktu athygli á því, sem í lögum er, að hver sakborningur, hver sá sem er tekinn til yfirheyrslu af rannsóknarlögreglu eða dómurum, hann hefur auðvitað rétt til þess að ráða sér sjálfur sinn verjanda. Undir öllum kringumstæðum geta því viðkomandi aðilar kallað til lögfróða menn sér til aðstoðar og ráðuneytis. Að því leyti vernda lögin þann rétt manna. Og ég er þeirrar skoðunar að það sé farsælla að hafa lögin eins og n. hefur lagt til.

Mér þótti ræða hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, sem hún flutti hér áðan, að mörgu leyti fróðleg og athyglisverð. Að vísu þurfti sérstaka lagni af hennar hálfu til þess að koma litasjónvarpi og varnarliði og deilu milli stjórnarflokka inn í þessar umr. Ég mun að gefnu tilefni forðast að tala um Bandaríkin, svo að mér verði ekki legið á hálsi fyrir að taka upp hanskann fyrir þau einu sinni enn. En auðvitað er nauðsynlegt að setja þessi mál í félagslegt samhengi, og ég vék að því áðan í minni framsöguræðu, að enda þótt við gerum úrbætur í dómsmálum, þá leysir það ekki þann vanda og þau vandamál sem uppi eru í þjóðfélaginu hvað snertir afbrot og siðferðisbrest hjá fólki. Þar þarf að leita orsaka og lausna annars staðar en endilega með því að breyta fyrirkomulagi í dómskerfinu sem slíku.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir vék hér að peningahyggju og taldi hana vera eina helstu orsök þeirrar upplausnar sem ríkir í þjóðfélaginu. Það er sjálfsagt nokkuð til í því. En hvað er þá peningahyggja? Er ekki peningahyggjan afleiðing af nútímaþjóðfélagi? Hún er velferðin í þjóðfélaginu, hin auknu þægindi. Fólk hefur meiri fjárráð. Og ég get ímyndað mér að hver einasti alþm., jafnvel Svava Jakobsdóttir líka, sé mér sammála um að við viljum ekki hverfa aftur til þess þjóðfélags sem áður ríkti, þegar velferðin og velmegunin var minni. Við lifum í velferðarþjóðfélagi, og það fylgja því bæði kostir og gallar, Gallarnir eru m.a. þeir, að fólk leggur meira upp úr veraldlegum verðmætum eins og peningum og þægindum í kringum sig, og við það verður í sjálfu sér ekki ráðið. Við sjáum einnig þegar hagsmunahópar í þessu þjóðf0iagi hittast og koma saman á þing, sbr. ASI-þingið, þá er ekki mikið talað um siðferðið og bætur á því, heldur beinist athyglin auðvitað fyrst og fremst að kjaramálum og hinum veraldlegu gæðum.

Í sambandi við félagslegar lausnir og félagslegt samhengi, þá vil ég aðeins segja það sem mína skoðun, að ég tel að við ættum að líta til heimilanna og hlutverks þeirra. Við ættum að skoða vel fræðslumálin, uppeldismálin, skólamálin, Við eigum að stuðla að réttlátu réttarfari. Við eigum ekki að egna stétt gegn stétt eða ímynda okkur óvini og vonda menn í hverju horni, heldur eigum við að reyna að sætta fólk og auka félagsþroska þess og koma þjóðfélaginu, sérstaklega unga fólkinu í skilning um það, að það er enginn sem vill öðrum illt þegar allt kemur til alls. Við erum hér í litlu þjóðfélagi sem okkur þykir vænt um og viljum lifa í, og það er æskilegast og farsælast að við reynum að efla bróðerni og jákvæðan hugsunarhátt hjá fólkinu.