07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í sambandi við þessa fyrirspurn, sem einskorðast við málefni geðdeildar Landsspítalans, vil ég minna á að óskað hefur verið eftir skýrslu um framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu með tilvitnun til 31. gr. þingskapa. Gert er ráð fyrir að þegar sú skýrsla liggur fyrir og hefur verið útbýtt, þá verði umr. um hana. Málefni geðdeildar verða að sjálfsögðu einn þáttur þeirra upplýsinga sem fram koma í þessari skýrslu sem nú er verið vinna á vegum rn., en tekur að sjálfsögðu verulegan tíma þar sem um svo fjölþætt verkefni er að ræða.

Hvað líður byggingu geðdeildar Landsspítalans sérstaklega, þá er því til að svara, að frá því að byggingarframkvæmdir hófust á árinu 1974 hefur byggingin gengið fram með eðlilegum hætti fram á mitt ár 1976 og í samræmi við framkvæmdasamninga þar að lútandi.

Till. heilbr.- og trmrn. um fjárveitingar til geðdeildar á fjárlögum yfirstandandi árs voru lækkaðar í meðferð Alþ. úr 188 millj. kr. í 78 millj. kr., og olli þessi lækkun því að ekki var hægt í byrjun þessa árs að gera ráð fyrir öðru en að byggingarframkvæmdir við geðdeild mundu stöðvast þegar lokið var þáv. samningsáfanga, en það var að gera húsíð fokhelt og glerja það.

Þegar í ljós kom á s.l. vori að aðrar framkvæmdir sem byggingarstjórn á lóð Landsspítala hafði með höndum, mundu tefjast vegna seinkunar í sambandi við nýtt skipulag Reykjavíkurborgar og færslu Hringbrautar, þá óskaði byggingarstjórn eftir því við Háskóla Íslands að heimilt yrði að nota hluta af fé því, sem gert var ráð fyrir að færi til bygginga vegna Háskólans á landsspítalalóð á þessu ári, til þess að halda áfram framkvæmdum við geðdeild Landsspítalans, og var gert ráð fyrir að fá að láni um 50 millj. kr, í þessu skyni. Samþykki fékkst til þessarar ráðstöfunar fjárins með því skilyrði að það yrði endurgreitt af fjárveitingu ársins 1977, og var hafist handa á s.l. vori um að gera útboðslýsingar að áframhaldandi vinnu við geðdeild. En það verður að upplýsa, að þessi aðferð við fjárveitingar hefur gert það að verkum að það hönnunarstarf, sem upphaflega var gert vegna geðdeildar, hefur hvergi nærri komið að þeim notum, sem upphaflega var gert ráð fyrir, vegna þess að bjóða hefur orðið út miklu minni byggingaráfanga en fyrirhugað var. Vinna við gerð þessara útboðsgagna fór fram á s.l. sumri og var lokið, þannig að útboð fór fram nú í haust og voru tilboð opnuð 15. nóv.

Það er ekki hægt að svara því á þessu stigi máls hvenær byggingu geðdeildar verður lokið. Eins og fyrr sagði, þá voru till. rn. um fjárveitingar til geðdeildar skornar mjög verulega niður í meðförum Alþ. á síðasta ári, og ég varð ekki var við það að neinn taki það upp með heilbrrn. að mótmæla þeim niðurskurði við afgreiðslu fjárlaga.

Í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþ., eru fjárframlög til byggingar geðdeildar skorin niður úr 185 millj. í 125 millj. kr. eða um 60 millj. Samkv. þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að búa undir tréverk 3/5 byggingarinnar og var upprunalega reiknað með að það mundi kosta 80 millj. kr., en nú þegar tilboð hafa verið opnuð hefur komið í ljós að lægsta tilboðið er 100 millj. kr. Það mun þýða að nálægt sanni muni vera að með verðbótum nemi það nálægt 125 millj. kr. þegar verkinu á að vera lokið á næsta ári, þannig að það, sem nú er í fjárlagafrv., nægir ekki lengra en þetta.

Ég hef lagt á það mikla áherslu, bæði við fjmrh., formann fjvn. og aðra þá sem fjalla um meðferð fjárlagafrv., að taka hér inn upphæð til viðbótar, allt að 55 millj. kr., til þess að undirbúa það að lokinni þessari vinnu að göngudeild geti tekið til starfa frá geðdeildinni í lok ársins 1977 og jafnframt 10 millj. kr. til þess að ganga frá lóð við geðdeildina.

Þm. geta reynt að gera sér grein fyrir því sjálfir hve það lengir byggingartíma geðdeildar ef till. rn. um fé til framkvæmda verða áfram lækkaðar á sama hátt og gert hefur verið.

Það skal upplýst að í lok okt. s.l. höfðu verið greiddar til geðdeildar rúmlega 260 millj. kr. Nákvæmar endanlegar áætlanir um hvað kosta: á verðlagi dagsins í dag að ljúka geðdeildinni liggja ekki fyrir, en ætla má að sá kostnaður muni vera nálægt 750–800 millj. kr. Til þess að geðdeildin geti öll verið komin í not í árslok 1980 þyrfti að veita til hennar um 200 millj. kr. á ári næstu 4 ár. Auðvelt er að taka deildina í not í áföngum ef nægilegt fé er veitt til hennar, þannig að göngudeild hennar geti tekið til starfa í lok næsta árs og tvær sjúkradeildir á árinu 1978. Verði hins vegar haldið áfram þeirri stefnu, sem mörkuð var með fjárveitingum ársins í ár, koma sjúkradeildir ekki í gagnið fyrr en á árinu 1979 eða jafnvel á árinu 1980.

Fyrirspyrjandi spyr hve mörg sjúkrarúm vanti fyrir geðsjúka á Íslandi. Áður en bygging geðdeildar hófst fóru fram miklar umræður um þörf á sjúkrarými fyrir geðsjúka, og leyfi ég mér í því sambandi að vitna til greinar sem Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri ritaði í Morgunblaðið í nóv. 1972, þar sem ítarlega var gerð grein fyrir stefnumörkun heilbrrn. í sambandi við vistunarrýmisþörf almennt m.a. fyrir geðsjúka. Þar var gert ráð fyrir því að 210 sjúkrarúm þyrfti fyrir 100 þús. íbúa vegna geðlækninga, 125 rúm á 100 þús. íbúa á hjúkrunarheimilum fyrir geðsjúka og 100 rúm fyrir 100 þús. íbúa á sérstökum geðveikistofnunum og drykkjumannahælum.

Um þessar tölur má að sjálfsögðu deila. Sumum finnst þær of lágar, öðrum of háar, og kemur þar margt til álita og einkum það, hve göngudeildarþjónusta er öflug og hve heimahjúhrun, heimilishjálp og stuðningur sveitarfélaga á sviði félagsmála er öflug.

Síðan hefur bæst við sérstök deild fyrir áfengissjúklinga í Vífilsstaðaspítala og verið gerðar skipulagsbreytingar í sambandi við áfengissjúklinga á Kleppsspítala. Þá hefur og fjölgað nokkuð því rými sem hefur verið til ráðstöfunar fyrir geðsjúklinga á Reykjalundi og í Ási í Hveragerði, og sérfræðingur í geðlækningum hefur tekið til starfa við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þessar aðgerðir hafa þó varla gert meir en að halda í horfinu frá því er var á árinu 1972, og geri ég ráð fyrir að meginniðurstaða í riti heilbr.- og trmrn. nr. 3 1973 sé nokkurn veginn óbreytt, en þar var gert ráð fyrir að skorti um 200 vistunarrými á geðsjúkrahúsum, um 140 vistunarrými á geðhjúkrunarheimilum og um 140 vistunarrými á sérstökum stofnunum fyrir geðveila og drykkjumenn. Enginn skyldi þó skilja orð mín svo að þessir sjúklingahópar fái enga þjónustu í dag. Áhrif þessa skorts fyrir þennan sérstaka hóp sjúklinga koma að sjálfsögðu fram í öllu sjúkrahúsakerfinu, og vil ég fyrst og fremst nefna þar slysadeild Borgarspítalans, lyflæknisdeildir sjúkrahúsanna í Reykjavík sem annast bráðar inntökuvaktir svo og allar langdvalarstofnanir, bæði hjúkrunardeildir og dvalarheimili fyrir aldraða. Með tilkomu hjúkrunardeildarinnar að Hátúni 10 var nokkuð bætt úr fyrir suma þessara sjúklinga.

Ég ætla að láta þessa umr. um geðdeild Landsspítalans nægja að sinni og vísa aftur til þess, að gera verður ráð fyrir því að almenn umr. um heilbrigðismál og framkvæmdir á sviði heilbrigðismála verði í Sþ. þegar skýrsla sú, er ég minntist á í byrjun máls míns, liggur fyrir.