07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svör hans. Hann skýrði þá töf sem orðið hefði á síðasta ári, sem raunar er ekki eina töfin. Töfin er nú orðin meiri og hefði verið hægt að framkvæma meira og veita meira fé, ef samþ. hefði verið, á næsta úri þar á undan. En að því er varðaði þennan einkennilega gang á útboðsgerð og láni frá Háskóla Íslands, þá verð ég að segja og kemst ekki hjá því að geta þess hér, að þessar upplýsingar komu mér einkennilega fyrir sjónir. Sannleikurinn er sá, að þetta mál hefur veikst á milli aðila.

Hæstv. ráðh. sagði að byggingarnefnd eða framkvæmdanefndum byggingar á landsspítalalóð hefði sótt um þetta lán frá Háskólanum. Það veit ég að vísu ekki eða vissi ég ekki fyrr en nú. Hæstv. ráðh. sagði að Háskólinn hefði samþ. þetta lán. Það vissi ég ekki heldur fyrr en nú. Og hæstv. ráðh. sagði að það hefði verið hafist handa við útboðslýsinguna í maí s.l. Það vissi ég ekki heldur fyrr en nú. Það, sem ég hafði fengið upplýsingar um, var að útboðið hefði ekki veríð undirbúið nægilega snemma vegna þess að það lægi ekki ljóst fyrir að peningarnir fengjust frá Háskólanum. Peningarnir fengust hins vegar ekki frá Háskólanum vegna þess að ekki lægi ljóst fyrir um útboðið. Þetta fannst mér í meira lagi óljóst og þess vegna var gott að fá þessar upplýsingar frá hæstv. ráðh. nú, að svona hefði málið verið, en það vekur út af fyrir sig til alvarlegrar umhugsunar.

Hæstv. ráðh. talaði um afgreiðslu Alþ. á fjárveitingu til þessa máls á s.l. ári og gat þess, að hann hefði ekki orðið var við það að neinn tæki undir mótmæli heilbrrn. gegn því að þessar fjárveitingar væru lægri en þær ættu að vera. Ef hæstv. ráðh. hefur ekki orðið var við þetta í fyrra, þá skal hann verða var við það nú.

Hæstv. ráðh. sagði að hann stæði að því að farið hefði verið fram á hækkun til fjvn. sem næmi 55 millj. kr. til þess að hægt væri að ljúka við að ganga frá 3/5 byggingarinnar undir tréverk og ljúka við göngudeild. Þetta er myndarlegur áfangi, rétt er það. En hafa menn hugleitt að hve miklu leyti þessi áfangi kemur geðsjúku fólki að gagni? Leysir fullbúin göngudeild vanda bráðsjúks geðveiks fólks í Reykjavík? Leysir fullbúin göngudeild vanda nokkurs geðveiks manns utan af landi, nema þá í báðum þessum tilvikum að sjúkrarúm fylgi? Það er nefnilega svo, að þótt fólk utan af landi eigi aðstandendur í Reykjavík, þá þýðir ekki að benda því á að geðveikur sjúklingur geti fengið inni hjá aðstandendum sínum á meðan hann fær meðferð á göngudeild í Reykjavík. Það taka engir aðstandendur geðveikt fólk inn á sig meðan þeir eru til læknismeðferðar. Þeir verða að fá sjúkrarúm. Mönnum dettur kannske í hug að það sé til ein stofnun hér í Reykjavík sem tekur veikt fólk utan af landi til gistingar á meðan það fær meðferð á göngudeildum. Það er sjúkrahótel Rauða kross Íslands. Sjúkrahótel Rauða kross Íslands tekur ekki geðsjúkt fólk. Þess vegna þarf sjúkrarúm. Göngudeildir þjóna ekki aðeins fyrirbyggjandi tilgangi. Þær þjóna ekki aðeins því hlutverki að veita meðferð svo þeir sem eru svo létt veikir að þeir geti verið heima hjá sér og fái e.t.v. heimahjúkrun. Göngudeildir þjóna líka þeim tilgangi að þeir, sem hafa verið veikir og þurft á sjúkrarúmum að halda, geti útskrifast fyrr og fengið eftirmeðferð á göngudeildinni. Til þess að fá eftirmeðferð þurfa menn að hafa fengið fyrirmeðferð, þ.e.a.s. menn þurfa að hafa fengið sjúkrarúm til afnota. Þess vegna er höfuðnauðsyn að sjúkradeild, þó lítil sé, svo sem eins og 15 rúm, sé opnuð um leið og göngudeild.

Það hefur verið gert samkomulag milli lækna um það, að sameiginleg afnot Landsspítalans almennt og geðdeildar skuli vera af ýmsu því rými í geðdeildinni sem kann að vera til ráðstöfunar þegar þess þarf ekki nauðsynlega með fyrir geðsjúka. Eins og málið horfir nú virðist göngudeild geðdeildar eiga fyrst og fremst að þjóna Landsspítalanum að öðru leyti. Það má vel vera að á því sé þörf. En þá verður að leysa bráðan vanda geðsjúks fólks. Og að því er varðar skýrslu hæstv. ráðh. um heilbrigðisframkvæmdir úti um land og vanda í heilbrigðismálum yfirleitt, þá afsakar það ekki drátt á þessu máli. Það er fyrir löngu búið að viðurkenna það af öllum stjórnmálaflokkum, að þessi vandi sé þess eðlis að það sé fullkomin hneisa að leysa hann ekki. Þetta er engan veginn pólitískt mál. Og kannske er vandinn ekki leystur vegna þess, að mönnum finnst fullkomin hneisa að tala um hann. Ef menn vilja ekki tala um hann er í sjálfu sér allt í góðu lagi, ef menn bara vilja hugsa um hann og skilja hann.

Til þess að ljúka geðdeild, sagði hæstv. ráðh., árið 1980 þyrfti um það bil 200 millj. á ári. Það var frétt í Morgnablaðinu í morgun þess efnis að horfur væru á því að geðdeild yrði ekki tilbúin, eins og þar sagði, fyrr en á árinu 1980. Mér kom þetta einkennilega fyrir sjónir, því að að betur athuguðu máli er þarna um misskilning að ræða. Það, sem verður tilbúið 1980, er helmingurinn af sjúkrarúmafjöldanum sem um er að ræða. Það eru 30 sjúkrarúm sem verða tilbúin 1980, önnur 30 og sjúkraþjálfunaraðstaða verður ekki tilbúin, ef svo heldur sem horfir, fyrr en 1982.

Ég hef ekki fleiri orð, hæstv. forseti, um þetta. Hæstv. heilbrrh. hefur þegar skírskotað til Alþ. um að standa að þessum fjárveitingum eins og þarf. Það skal ekki standa á mínum stuðningi, og það skal ekki standa á mínum mótmælum ef það verður ekki gert eins og hæstv. ráðh. hefur þegar kallað eftir.