07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hv. síðasti ræðumaður hefur fengið til liðs við sig tvo þm. sem stendur nú ekki á að koma til liðs við hann. En e.t.v. stendur á þeim þegar á að fara að afla tekna til þeirra útgjalda, sem samþ. eru, að standa þá með viðkomandi þm. Það getur vel verið að þm. varði ekkert um það þó að vanti tekjur, það eigi að borga það tekjulaust. (Gripið fram í: Var ekki hæstv. ráðh. að biðja um þessar úttektartillögur?) Ég hef orðið, hv. þm., en ekki þú. Það er þannig með sumt fólk, að það er svo einskorðað ef það sér eitthvert ákveðið verkefni. Þetta eru þeir dæmigerðu þrýstihópar sem sjá aðeins eitt verkefni í einu og allt eigi að snúast um það sem sá þrýstihópur leggur til.

Alþingi hefur sjálft samþ. og gengið frá löggjöf um heilbrigðisþjónustu. Þar segir að ákveðnir landshlutar, sem njóta ekki neinna sjúkrahúsa og mjög takmarkaðrar lækningaþjónustu, eigi að sitja fyrir um fjárveitingar. Ég veit ekki til þess að þessi hv. þm. hafi barist gegn þessu. Samt segir hann að þessa einu framkvæmd skuli taka fram fyrir allt: bara af því að ég er með henni. Þetta er skemmtilegur hugsunarháttur! Svo er ráðist hér að mönnum á jafnskemmtilegan hátt og þessi hv. þm. gerði áðan ! Ég ætla að láta hv, þm. vita að á meðan ég er heilbrrh., þá ætla ég ekki að taka þessa einu deild fram yfir allt annað og segja öllu öðru að eiga sig, þvert ofan í þau lög sem Alþ. hefur samþ.