07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að ég er nokkuð undrandi á þeim furðulegu umr, sem hér hafa orðið, og þeim árásum, sem hæstv. núv. heilbrrh. hefur orðið fyrir og það m. a, af fyrrv. hæstv. ráðh, þessara mála, vegna þess að hann er í nákvæmlega sömu sók og núv. ráðh. ef hann verður sakfelldur. Það hafa verið byggðar byggingar hér í Reykjavík og nágrenni sem gilda og þýða það sama fyrir allt land, og hann veit vel við hvað ég á þar. Þýðing þeirra er ekki minni þótt ég hins vegar taki heils hugar undir með hv, þm., frænku minni af Engeyjarætt sem við sáum hér í ræðustól áðan, frú Ragnhildi, sem hefur mikinn og verðugan áhuga á þessu mikla og þýðingarmikla máli. En er þetta ekki hjá okkur öllum að deila um keisarans skegg, ef við getum ekki komið okkur saman um að útvega peninga til þessara nauðsynlegu framkvæmda sem við öll hér erum sammála um að þurfi að framkvæma? Hver vill sleppa sínu? Hver vill benda á að taka af þessu til þess að gera hitt? Við getum staðið hér hvert framan í öðru heila daga og sagt: Þetta er nauðsynlegt. Þetta er nauðsynlegt. Og við skulum taka undir það, sem hv. þm., frú Ragnhildur, var að segja hér áðan, að þetta er með hinum nauðsynlegustu málum hér á Alþ. að mínu mati í sambandi við heilsuvernd og heilsugæslu. Við skulum þó a.m.k. reyna, — ég held mig fast við þessi orð, — við skulum þá reyna að ráða bót á þessu eftir þessar síðustu umr. Og ég beini til fyrrv. ráðh. þessara mála, hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, að hann var ekki kominn með nema bara grunninn og sökklana þegar hann skildi við. (Gripið fram í.) Áætlun, ætlarðu að koma þeim þar fyrir?