07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

72. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eitt af því, sem tilheyrir samgöngumálum, er að greiða fyrir því að menn nái saman, hvort sem það er á þjóðvegum eða á annan hátt, og það hefur því fallið í minn hlut að svara fsp. er til annarra ráðh, hefur verið beint. Ég mun því svara fsp. á þskj. 78 frá hv. 3. þm Norðurl. e., en fsp. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað hefur ríkisstj. gert til að framfylgja þál. er samþ. var 18. mars s.l. um að komið verði á fót stofnlánasjóði vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla?“

Svarið er á þessa leið:

Um svipað leyti og þáltill. sú, sem hér um ræðir, var samþ, á Alþ. var til athugunar í samgrn. erindi frá Landvara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, þess efnis að ráðuneytið beitti sér fyrir samþykkt frv. til l. um Stofnlánasjóð vörubifreiða á flutningaleiðum er félagið hafði samið. Ætlun rn. var þá að láta athuga málið fyrir haustið á þeim breiða grundvelli sem þál, markar, en vegna mikils áhuga stjórnar Landvara á framgangi síns máls var hv. samgn. Ed. sent frv. og hún beðin að standa að flutningi þess. N. lagði frv. fram sem þskj. 644 á 104. fundi hv. Ed. miðvikudaginn 12. maí s.l. og er óþarft að rekja fyrir þingheimi frekari gang málsins hér, enda gerði hv. fyrirspyrjandi það.

Í samræmi við ákvörðun rn., sem áður var lýst, skal hér upplýst að rn. hefur nýverið leitað eftir tilnefningu í n. sem semja skal frv. til l. um stofnlánasjóð í samræmi við þál., og er að því stefnt að frv. verði lagt fyrir Alþ. það sem nú situr.

Ég vona að þessi orð mín svari spurningu hv. fyrirspyrjanda og séu fullnægjandi að því öðru leyti en því, að fjármagnið hef ég ekki í höndunum frekar nú en áður, fyrr en leitað verður eftir því.