07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

72. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. eða samgrh. fyrir svar hans, þó að ég beindi ekki fsp. til hans af þeirri ástæðu að það voru aðrir sem hindruðu framgang málsins í fyrra. En þar sem hann hefur tekið að sér að svara þeim fsp. sem aðrir vilja ekki svara, þá er ég þakklátur þó fyrir svarið.

Þetta mál er mjög brýnt, og það er alveg rétt sem hv. þm. Helgi Seljan sagði, það eru fleiri sem búa við slík vandamál. En ég vil þó segja það, að þeir sem flytja inn stórvirkar vinnuvélar, hafa þó í mörgum tilvikum haft aðgang að lánasjóði sem bifreiðastjórarnir hafa ekki, og þarf ekki að hafa fleiri orð um það.

En þetta mál er af ýmsum ástæðum orðið það brýnt að ekki má svo líða þessi vetur að það verði ekki leyst Ég hef verið að athuga ýmislegt í sambandi við þessi mál, vegna þess að við, sem erum fulltrúar landsbyggðarinnar, höfum oft verið að ræða um að það þyrfti að reyna að jafna lífsaðstöðu fólksins í landinu. En einmitt á þessar bifreiðar leggur ríkið í innkaupi yfir 72%. Mér er kunnugt um að margir af þessum bifreiðastjórum eru nú að gefast upp. Á þremur árum hafa hinar venjulegu vörubifreiðar, sem vinna t.d. hér í Reykjavík eða í bæjunum, fengið langtum meiri taxtahækkun heldur en þessir langferðabílar, þó að gjöldin af langferðabilunum vegna mælagjaldsins séu miklu hærri en þeirra sem eru í slíkri vinnu. Þeir hafa fengið 102% gjaldahækkun á þremur árum, þessir venjulegu, en hinir, langferðabílarnir, hafa fengið 176% hækkun. Ef ekki verður eitthvað liðkað um fyrir þessum mönnum nú, þá fullyrði ég að þeir gefast upp sumir á næstu mánuðum. Ég held að þar sem yfirleitt þungaflutningar út á land hafa færst yfir á bifreiðarnar og þetta er orðið lífsnauðsynlegt bæði fyrir atvinnurekstur úti um land og eins til þess að fá vörur héðan, þá væri mjög illa komið ef það yrði ekki fundin leið til að leysa þennan vanda. En ég vonast fastlega og treysti hæstv. samgrh. nú til að reka á eftir þessu máli þannig að þetta geti orðið að veruleika á þessu þingi.