07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

46. mál, Styrktarsjóður vangefinna

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta það koma fram. að ég hef mikinn áhuga á því að sú leið verði valin að flytja frv. um áframhaldandi starfsemi Styrktarsjóðs vangefinna og hann verði efldur a.m.k. að því er svarar til verðrýrnunar peninga. Mér er vel ljóst að það urðu umskipti í málefnum þroskaheftra þegar Styrktarsjóður vangefinna tók til starfa, og þótt, eins og fram hefur komið hér fyrir nokkrum dögum, enn þá séu geysimörg verkefni óunnin og margt eigi eftir að gera, þá var þarna gert stórátak meðan þessi sjóður var við lýði. Og þar sem við höfum nú í dag eins ort oft áður heyrt um það hve mörg verkefni á sviði heilbrigðismála liggja fyrir og hve erfitt er að sinna þörfum allra. há held ég að framgangur þessa málefnis yrði best tryggður með því að Styrktarsjóður vangefinna fengi að starfa áfram og að landssamtök þroskaheftra fengju aðild að stjórn hans þannig að þau mundu nokkru mega ráða um það hvernig fjármunum hans yrði varið. Það hefur orðið, eins og sagt var hér nýlega, allmikil breyting á möguleikum þroskaheftra nú undanfarið, og ég lít svo á að með samþykkt grunnskólalaganna hafi í raun og verið brotið blað í framtíðarmöguleikum þessa fólks. Þegar þau lög koma til framkvæmda að fullu, þá verður það stór hópur af þessu fólki sem á að geta fengið þá sérkennslu, ýmist í sérdeildum eða við sérstakar aðstæður í venjulegum deildum sem þeim er mest þörf á. En þrátt fyrir að svo verði, þá verða enn þá margar þarfir, bæði á félagslegu og læknisfræðilegu sviði, sem þarf að uppfylla, og það held ég að verði best tryggt með því að þetta fólk hafi sérstakan sjóð sér til stuðnings vegna þess að svo margir verða um hinar almennu fjárveitingar á fjárlögum að keppa.