07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

246. mál, raforkumál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 63 fsp. til hæstv. iðnrh. um raforkumál á Austurlandi, en því er ekki að leyna að við austfirðingar höfum miklar áhyggjur af ástandi orkumála í fjórðungnum. Fsp. eru svo hljóðandi:

„1. Hvenær verður hægt að taka ákvörðun um virkjun Bessastaðaár og hvaða stærð virkjunar mundi verða hagstæðust?

2. Hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um lagningu háspennulinu frá Kröfluvirkjun til Austurlands?

3. Hvernig ætla Rafmagnsveitur ríkisins að tryggja Austurlandi nægjanlegt rafmagn í vetur? 4. Hvað liður framkvæmd þál. um rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar?“

Varðandi 1. lið fsp. vil ég vísa til þess, að á fundi í Sþ. 9. mars s.l. svaraði hæstv. iðnrh. fsp. frá mér um virkjun Bessastaðaár og rannsóknir á Fljótsdalsvirkjun. Með hliðsjón af svari hæstv. ráðh. þá þykir mér nú tímabært að endurtaka fsp. mína og þá sérstaklega varðandi ákvörðunartöku um Bessastaðaárvirkjun. Ég hef fengið í hendur álitsgerð frá fyrirtækinu Hönnun hf., sem er verkfræðiskrifstofa hér í Reykjavík, sem heitir: Afl og orka, hugleiðingar um þróun orkumála á Íslandi næstu árin. Í þessari álitsgerð kemur fram á bls. 8 orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. mynd 1 þarf ný virkjun að taka til starfa í landinu síðla árs 1981 vegna hættu á aflskorti. Ef athugað er hvaða meiri háttar virkjanir gætu hafið orkuframleiðslu um þetta leyti er ljóst að aðeins tveir virkjunarvalkostir eru á því undirbúningsstigi að slíkt sé mögulegt. Hrauneyjarfossvirkjun er nú tilbúin til útboðs og gæti hafið orkuframleiðslu í árslok 1980. Fyrir liggur hönnunaráætlun um Bessastaðaárvirkjun og er áætlað að hún geti hafið vinnslu með fyrri 32 mw. aflvél og öðru miðlunarlóninu í árslok 1980. Í áætluninni er lagt til að virkjunin verði fullbúin í árslok 1983, og ef þörf krefur getur vinnsla seinni áfanga auðveldlega hafist mun fyrr.“

Ég leyfi mér að vísa til þessarar álitsgerðar sem er, eins og ég gat um áðan, hugleiðingar um þróun orkumála á Íslandi næstu árin.

2. líður fsp. fjallar um háspennulínu frá Kröfluvirkjun til Austurlands. Ég hef leitt hjá mér umr. um Kröfluvirkjun, en vonast til þess að virkjunin skili frá sér raforku eins og til er ætlast. Verði svo er ljóst að nokkur afgangsorka verður þar, a.m.k. um sinn. Við austfirðingar komum ekki auga á annan kost betri til að auka og tryggja Austurlandi raforku sem allra fyrst. Þess vegna höfum við þm. Austurlands allir verið fylgjandi því að háspennulína verði lögð frá Kröflu austur yfir hálendið og þetta verði gert sem fyrst. Að okkar dómi er nauðsynlegt að hefja línulögnina sumarið 1977 og ljúka henni árið 1978. Þess er vert að geta, að ef eitthvað færi úrskeiðis varðandi Kröfluvirkjunina sjálfa, þá er hér um að ræða raunverulega tengingu allar götur frá Suðvesturlandinu norður yfir heiðar, eftir Norðurlandi og til Austurlands, þannig að þar opnast möguleiki til raforkuflutnings til Austurlands ef Krafla skilar ekki þeim árangri sem vonir standa til.

Þriðji liður fsp. fjallar um það, hvernig eigi að tryggja Austurlandi næga raforku nú í vetur. Í stórum dráttum er ástandið þannig á Austurlandi að lágmarksafköst Lagarfossvirkjunar eru um 3 mw. og Grímsár um 1 mw. Dísil- og gasstöðvar á Austurlandi geta framleitt um það bil 8.6 mw. af afli. Þetta eru samtals 12.6 mw, Þörfin er hins vegar talin vera um 14.5 mw. Er því ljóst að á skortir um það bil 2 mw. til að fullnægja þörfinni í vetur. Hér er mikið í húfi, því að ljóst er að sjávariðnaðurinn, bæði rekstur fiskiðjuveranna og síldarverksmiðjanna, er í hættu ef ekki verður nægilegt rafmagn. Þá er og þess að geta, að talsvert mörg hús víðs vegar á Austfjörðum eru í byggingu og verða að fá rafmagn. Flest þeirra eru byggð án miðstöðvar og treysta alfarið á rafmagnið.

4. liðurinn í fsp. fjallar um framkvæmd þál. um rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Þar er endurtekin fsp. frá því á síðasta Alþ. Þá gerði hæstv. ráðh. grein fyrir því hvað gerst hafði í þeim málum frá því að ályktunin var samþykkt og þar til í fyrravetur, og nú er ég að leyfa mér að gera fsp. um framhaldið.