07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

246. mál, raforkumál á Austurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, þá beindi hann til mín fsp. á síðasta þingi um svipað efni og nú er spurt og svaraði ég þeim fsp. allítarlega á Alþ. 9. mars. Að sumu leyti má vísa til þeirra svara.

Fyrsta spurningin er: „Hvenær verður hægt að taka ákvörðun um virkjun Bessastaðaár og hvaða stærð virkjunar mundi verða hagstæðust?“

Í svari mínu í marsmánuði var rætt um orkuvinnslugetu Bessastaðaárvirkjunar og er þar komist svo að orði m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurstaða þessara athugana er því sú, að með virkjun Bessastaðaár aukist verulega nýting þeirra rennslisvirkjana sem fyrir eru á Austurlandi, þ.e. Grímsár og Lagarfoss, og að æskilegt sé að uppsett afl í virkjuninni verði nokkru meira en upphaflega var ráð fyrir gert.

Jafnframt bendir þessi athugun til að virkjunin falli vel að samrekstri við aðrar virkjanir í landinu, þegar komist hefur á örugg tenging hennar við virkjanir á Norður- og Suðurlandi.“

Í lögum um Bessastaðaárvirkjun frá því í des. 1974 var gert ráð fyrir að afl hennar yrði allt að 32 mw. Þær athuganir, sem síðar hafa farið fram, hafa leitt í ljós að þar mætti byggja töluvert stærri virkjun, jafnvel með tvöföldu afli á við það sem gert var ráð fyrir haustið 1974. Er því bent á það af sérfræðingum sem undirbúið hafa þetta mál, að margt bendi til þess að hagkvæmust stærð virkjunar muni vera á bilinu 30–60 mw. og virkjunina megi byggja í tveimur eða fleiri áföngum og aðlaga þannig framkvæmdakostnað á hagkvæman hátt að aukinni afl- og orkueftirspurn. Síðan segir:

„Unnið er nú að áætlun um virkjunina og er ráðgert að sú áætlun verði tilbúin í þessum eða næsta mánuði“ — þ.e.a.s. mars eða apríl s.l. „Á grundvelli hennar verður væntanlega hægt að meta hvenær í virkjunina skuli ráðist og hvaða stærð endanlega verður valin.“

Nú liggja mál þannig fyrir að út af fyrir sig væri hægt nú eða á næstunni að taka ákvörðun um Bessastaðaárvirkjun sem slíka. Hins vegar hafa þeir sem fjallað hafa um þetta mál, bæði á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og enn fremur Orkustofnun, látið í ljós að æskilegra sé að taka ekki endanlega ákvörðun um virkjun Bessastaðaár, þ.e.a.s. tímaáætlun og stærð hennar, nema í beinu samhengi við áfangaskiptingu Fljótsdalsvirkjunar. En eins og margsinnis hefur verið tekið fram er hugsanleg Fljótsdalsvirkjun mjög stór virkjun, talað hefur verið um 350 mw. eða nálægt þeirri stærð og þeir virkjunarmöguleikar hafa verið árum saman í athugun og undirbúningi. En eins og komið hefur fram frá byrjun er Bessastaðaárvirkjun hugsuð sem fyrsti áfangi eða frumáfangi í Fljótsdalsvirkjun. Það er sem sagt álit bæði Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins að æskilegt sé varðandi stærð Bessastaðaárvirkjunar og tímaáætlun að gerð sé nokkru nánari grein fyrir stærð og áfangaskiptingu Fljótsdalsvirkjunar vegna þess hve náið samhengi sé þar á milli.

Varðandi 2. spurningu hv. þm., hvort ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um lagningu háspennulinu frá Kröfluvirkjun til Austurlands, vil ég segja þetta:

Í tillögum Rafmagnsveitna ríkisins að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1977 er gert ráð fyrir lagningu 132 kw. línu frá Kröfluvirkjun að Eyrarteigi í Skriðdal og að þessum framkvæmdum sé skipt á tvö ár, þ.e.a.s. árin 1977 og 1978, og þá miðað við að lina og nauðsynleg aðveitustöð verði teknar í notkun haustið 1978. Rafmagnsveitur ríkisins áætla heildarkostnað við þessa framkvæmd 1376 millj. kr. sem mundu skiptast á þessi tvö ár. Rafmagnsveiturnar lögðu til að fé yrði veitt til þessara framkvæmda á þessum tveim árum, og var mælt með þeirri till. af hálfu iðnrn. Þessi fjárveiting eða réttara sagt lánsheimild er ekki í fjárlagafrv., en hefur nú að undanförnu verið rædd að nýju í sambandi við lánsfjáráætlun þá sem nú er í smíðum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé brýn nauðsyn að leggja þessa línu og hefja framkvæmdir við hana á næsta ári. Ég tel einnig að með þeirri framkvæmd sé verið að vinna verk sem er þjóðhagslega mjög hagkvæmt, því að þótt hér sé um stórar fjárfúlgur að ræða, þá er ljóst að þessi lína, þegar hún er fullgerð og tekin til starfa, mundi spara mjög mikið í erlendum gjaldeyri vegna þeirrar dísilkeyrslu sem ella er óhjákvæmileg á næstu árum á Austurlandi. Þetta mál stendur því svo, að það er ekki hægt að segja að ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um lagningu þessarar linu frá Kröfluvirkjun til Austurlands, en ég vil undirstrika að það er eindregin tillaga Rafmagnsveitna ríkisins, studd af iðnrn.

3. spurning: „Hvernig ætla Rafmagnsveitur ríkisins að tryggja Austurlandi nægjanlegt rafmagn í vetur?“

Samkv. upplýsingum Rafmagnsveitna ríkisins verður það ekki gert með öðru móti en aukinni raforkuframleiðslu með dísilvélum eins og nú er háttað rekstri vatnsaflsvirkjana á Austurlandi. Í þessu skyni verða fluttar til Austurlands þrjár dísilvélar og er mér tjáð að afl þeirra sé samtals 11/2 mw. Hv. fyrirspyrjandi minntist á að aflþörfin gæti orðið 2 mw. Er sjálfsagt að bera þær tölur saman og kanna hvort þessar fyrirætlanir Rafmagnsveitna ríkisins eru þá nægilegar eða hvort þarf hér einhverju að breyta eða við að auka.

4. liður fsp. er: „Hvað líður framkvæmd þál. um rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar?" Þá er því að svara, að Orkustofnun hefur þessar rannsóknir með höndum. Á þessu ári hefur lítið fé verið til ráðstöfunar í því efni, en till. Orkustofnunar eru þær, að á næsta ári, 1977, þyrfti að vinna að rannsóknum í Fljótsdal fyrir 135 millj. kr. Í fjárlagafrv, eru 36 millj. tiltækar í þessu skyni og vantar því 99 millj. annaðhvort í fjárl. eða á lánsfjáráætlun ef ætti að ná þessu marki Orkustofnunar sem hún telur mjög æskilegt að fáist til þess að vinna sómasamlega að framkvæmd þeirrar ályktunar sem Alþ. hefur samþykkt í þessu efni.

Lúðvík Jósepsson: Herra forseti. Það var aðallega í sambandi við 1. lið þeirrar fsp., sem hér var rætt um, sem ég kvaddi mér hljóðs, en það snertir ákvörðun varðandi virkjunarframkvæmdir á Austurlandi.

Eins og hér kom fram er búið að standa nokkuð lengi á því að ákvörðun sé tekin í þessum efnum. Lög voru sett um Bessastaðaárvirkjun í árslok 1974 og síðan var í rauninni alltaf gefið í skyn að ákvörðun yrði tekin innan skamms um virkjunarframkvæmdir. Talsverðu fé var varið í ýmiss konar rannsóknir á rannsóknir ofan, sem kom meira og meira í ljós að voru ekki bara bundnar við þær virkjunarhugmyndir sem lög höfðu verið sett um, heldur allt annað. En nú hafa um alllangan tíma legið fyrir endurskoðaðar áætlanir um Bessastaðaárvirkjun þar sem sérfræðingar telja 64 mw. virkjun á þessum stað væri sérstaklega hagstæð fyrir raforkukerfið sem heild, og reyndar er nú bent á að það sé aðeins um tvo möguleika að ræða til þess að hafa til upp úr 1980 viðbótarafl fyrir raforkukerfi landsmanna í heild: Að ráðast í Hrauneyjarfossvirkjun eða þá þessa virkjun í Bessastaðaá upp á 64 mw. Það er ekkert um það að villast að fyrir landskerfið væri þessi virkjun, sem gerð hefur verið allítarleg grein fyrir, mjög hagstæð vegna þess að þarna er um að ræða mikið afl sem hægt er að setja inn á kerfið. Er bent á að þessi virkjun sé sérstaklega hagstæð einmitt vegna Kröfluvirkjunar sem raunverulega er grunnaflsvirkjun og nýtist þá best að hægt sé að nota allt afl hennar stöðugt inn á kerfið, og þá þurfi einmitt á slíkri virkjun að halda eins og þeirri sem gerð hefur verið áætlun um í Bessastaðaá.

Nú heyri ég að hæstv. ráðh. segir eftir allan þann drátt sem orðið hefur á að taka ákvörðun í þessum efnum að enn vilji Orkustofnun bíða og kanna málið enn betur og athuga um það hvað Fljótsdalsvirkjun eigi að verða stór eða áfangar hennar eigi að verða stórir. En við höfum verið upplýstir um það, þm. af Austurlandi, að þessi virkjun upp á 64 mw. trufli ekki á einn eða neinn hátt síðari framkvæmdir í sambandi við Fljótsdalsvirkjun sem rætt hefur verið um, svo að ég get ekki séð að það sé nein ástæða til þess að bíða með ákvarðanir í þessum efnum af þessum ástæðum, hér sé bara um nýjan fyrirslátt raunverulega að ræða: bíða og bíða og taka enga ákvörðun.

Það er sýnilegt að það þarf hér á auknu afli að halda inn á raforkukerfið. Þarna er um hagstæða virkjun að ræða. Við erum allir sammála um það, þm. af Austurlandi, að sjálfsagt er að koma upp linunni frá Kröflu til Austurlands og tengja raforkukerfi Austurlands við meginraforkukerfi landsins. Það er algert undirstöðuatriði. En það þarf jafnhliða að taka ákvörðun um virkjunarframkvæmdir á Austurlandi, og ég vil nú vænta þess að hæstv. iðnrh., sem ég ætla að hafi fylgst allvel með þessum málum og iðulega hefur komið fram frá hans hálfu áhugi á því að reyna að greiða fram úr þessum vandræðamálum sem eru á Austurlandi varðandi raforkuframleiðsluna, skeri á þennan hnút, knýi það fram að fá ákvörðun um þessa virkjun, en þvæli þessu ekki lengur á undan sér eins og gert hefur verið.