07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

246. mál, raforkumál á Austurlandi

Sverrir Hermansson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess sérstaklega að fagna öllu því, sem kom fram í svari hæstv. orkumálaráðh. við fsp. hv. þm. Tómasar Árnasonar. Í fyrsta lagi, að nú er á döfinni að taka ákvörðun um að leggja línu austur norðan frá Kröflu. Það er fyrsti kosturinn sem austfirðingar eygja til þess að tryggja orku í landsfjórðungnum. Ef, sem við væntum nú ekki, einhver misbrestur verður á um orkuvinnslu í Kröflu, þá er að því gætandi að byggðalína nær nú brátt og um þessi áramót austur að Kröflu og innan tveggja ára hefur verið lokið við að leggja háspennulínu frá Geithálsi og upp í Hvalfjörð og er þá hægt að flytja allmikla orku þar norður og þá austur ef svo vill verkast. Á meðan virðist verða að una við þann vélakost sem fluttur hefur verið austur, og úr brýnasta vanda hefur verið ráðið með því dísilafli sem nú hefur verið sett upp á einum þrem stöðum fyrir austan.

Enn fremur varðandi það sem fram kom um rannsóknir á Fljótsdalshéraði, það er ekki rétt, sem fram kom í máli hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, að það lægi beint við nú að taka ákvörðun um virkjun Bessastaðaár, af því að hún ein út af fyrir sig, án tengsla við framhaldsvirkjun á Fljótsdalshéraði, er ekki hagkvæm. Hagkvæmni hennar byggist á framhaldsvirkjunum á Fljótsdalsheiði, og eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., þá yrði þar um að tefla frumáfanga Fljótsdalsvirkjunar. En öllu því, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., sé ég ástæðu til þess að lýsa ánægju minni yfir.