07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

246. mál, raforkumál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég sagði áðan að við austfirðingar gerðum ekki kröfur í raforkumálum umfram það sem gefur svigrúm til þess að ljúka eðlilegum rannsóknum og undirbúningi virkjana. En ég vil leyfa mér í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði áðan um þessi mál, að óska eftir því að sá valkostur, sem Verkfræðistofan Hönnun gerir ráð fyrir í þeirri álitsgerð sem ég vitnaði til áðan í mínu máli, verði tekinn til athugunar af þar til bærum réttum aðilum og rannsókn fari fram á því, hvort sá kostur geti veríð heppilegur þegar allar aðstæður eru athugaðar.