07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 6, landsk. þm. vil ég taka þetta fram í fyrsta lagi: Frá árinu 1969 hefur Fiskveiðasjóður veitt bráðabirgðalán vegna innlendrar nýsmiði fiskiskipa. Þau lán hafa verið greidd út í áföngum eftir því sem framkvæmdum miðaði. Þessi lán eru tryggð með 1. veðrétti í nýsmíðinni og greiðast upp af andvirði stofnláns þegar nýsmíðinni er lokið.

Samkv. 9. gr. laga frá 1976 um Fiskveiðasjóð Íslands er sjóðnum heimilt að geyma fé í viðskiptareikningum við aðra banka eða sparisjóði ef svo stendur á að sú lánastofnun, sem hlut á að máli, hefur veitt bráðabirgðalán til framkvæmda sem stjórn Fiskveiðasjóðs hefur samþykkt að veita lán til, enda sé innistæðunni haldið innan þess hundraðshluta útlagðs kostnaðar við verkið sem ætla má að lánið úr sjóðnum nemi.

Bráðabirgðalán eða greiðslur við áfangamat hafa því farið fram eftir báðum þessum leiðum, sem hér var lýst, á því tímabili sem fsp. nær til. þ.e. 1974–1976.

Greiðslur bráðabirgðalána hafa ráðist af fjárhagsgetu sjóðsins. Samkv. upplýsingum Fiskveiðasjóðs hafa bráðabirgðalán vegna nýsmíða fiskiskipa innanlands verið þessar: 1974 71% af hverju áfangamati, 1. jan. til 20. nóv. 1975 71%, 20. nóv. til 31. des. 1975 35.5% af hverju áfangamati, en það, sem á vantaði 71%, var síðan greitt á fyrstu vikum ársins 1976, 1. jan. til 31. mars 1976 46% af hverju áfangamati, en það, sem á vantaði 71%, var síðan greitt í aprílbyrjun, 1. apríl til 31. júlí 1976 51%, það, sem á vantaði 71%, var greitt á næstu vikum, 1. ágúst 1976 til þessa dags 51% af hverju áfangamati.

Vegna lenginga og yfirbygginga hefur að öllum jafnaði ekki verið gert formlegt áfangamat og bráðabirgðafyrirgreiðsla til slíkra framkvæmda ráðist enn meir af fjárhagsgetu sjóðsins hverju sinni. Þó munu flestar eða allar framkvæmdir við lengingar og yfirbyggingar, sem hófust á árunum 1974 og 1975, hafa notið verulegrar bráðabirgðafyrirgreiðslu. Það eru 6–8 skip. Vegna lenginga og yfirbygginga, sem hafnar hafa verið á þessu ári, hefur sjóðurinn ekki getað veitt bráðabirgðafyrirgreiðslu, Bráðabirgðafyrirgreiðsla vegna lenginga og yfirbygginga hefur á þessu ári verið veitt af viðskiptabönkum, þar til verki hefur verið lokið og lánveiting Fiskveiðasjóðs kemur til greina.

Þá er 2. fsp. — Framkvæmd þessara mála á yfirstandandi ári og í lok síðasta árs hefur ekki verið viðunandi vegna fjárskorts Fiskveiðasjóðs, og því hefur framkvæmd verka tafist.

Ég vil taka það fram að lokum, að þegar innlendar skipasmiðastöðvar framleiða með fullum afköstum geta þær framleitt um helming af þeirri árlegu endurnýjun fiskiskipaflotans sem þörf er fyrir. Er gert ráð fyrir að árleg endurnýjun flotans þurfi að vera um 4000 brúttórúmlestir til þess að hann geti haldist í óbreyttri stærð, en framleiðslugeta stöðvanna mun vera nú liðlega 2000 lestir. Fjórar stöðvar geta smíðað skuttogara af stærðinni 400–500 tonn, en það er sú gerð skipa sem mest er spurt eftir nú.

Um þessi mál hef ég átt viðræður við forráðamenn Félags dráttarbrauta og skipasmiðja og fór þess á leit að félagið léti rn. í té áætlanir um innlendar skipasmíðar næstu 5 ár. Niðurstöður og stefnumörkun ættu því bráðlega að liggja fyrir. En að því verður að vinna að efla afkastagetu stöðvanna og auka hlutdeild innlendrar skipasmíði í endurnýjun skipaflotans.