07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel að það hafi verið mjög miður farið þegar stjórn Fiskveiðasjóðs ákvað á s.l. hausti að draga stórlega úr bráðabirgðaaðstoð við skipamiðar í landinu, þar sem þessi lán voru allt í einu lækkuð úr 71% niður í 351/2%, þó að nokkuð væri bætt úr síðar. Stjórn sjóðsins mun hafa talið sig til neydda vegna fjárskorts að taka þessa mjög svo alvarlegu ákvörðun sem, eins og ég tók fram áður, hefur orðið til skaða og tafið framkvæmd verka. Það verður að sjálfsögðu að reyna á næsta ári að tryggja Fiskveiðasjóði fjármagn sem nægi til að gera viðunandi skil að þessu leyti.

Ég tek mjög undir það sem fyrirspyrjandi og hv. 4. þm. Norðurl, e, sögðu áðan, að það getur auðvitað ekki gengið, það getur ekki staðist að menn leiti eftir smíði á skipum erlendis eða viðgerð á þeim erlendis vegna þess að þar fá menn goða fyrirgreiðslu til lána og engir erfiðleikar með það, en ef íslenskar skipasmiðastöðvar eða viðgerðarstöðvar eiga að annast málin, þá stendur oft á fjármagninu og þess vegna eru bæði nýsmiði og viðgerðir fluttar út. Þetta mál, sem hér er gerð fsp. um, nýsmíðin, er auðvitað nátengt viðgerðunum.

Ég gat þess áðan að ég hefði beðið Félag ísl. dráttarbrauta og skipasmiðja að gera 5 ára áætlun um nýsmiði skipa innanlands með það fyrir augum að fullnýta skipasmiðastöðvarnar, efla þær og auka og flytja sem mest, eftir því sem unnt væri, af skipasmíði til landsins. Viðgerðarstarfsemin er auðvitað ákaflega mikilvæg, og að tilhlutan iðnrn. hefur á undanförnum mánuðum verið gerð athugun á þörfum íslenska skipaflotans fyrir viðgerðarþjónustu og um leið athugun á getu innlendra viðgerðarstöðva til að anna þeim verkefnum, en þau munu fyrirsjáanlega aukast á næstu árum, Að þessari könnun vinna iðnþróunarstofnun Íslands, Landssamband iðnaðarmanna, Rannsóknastofnun iðnaðarins og Samband málm- og skipasmiðja.

Ég vil í þessu sambandi taka fram að heildarkostnaður við viðgerðir, viðhald og breytingar á skipaflotanum nam á s.l. ári 6370 millj, kr. Af því voru viðgerðir erlendis 1770 millj., en innanlands 4600 millj, Nú er því töluverður meiri hluti af viðgerðum framkvæmdur innanlands, en hér er um miklar fjárhæðir að ræða sem notaðar eru erlendis og er sjálfsagt að stefna að því að draga sem allra mest úr því.

Það eru ýmis atriði sem þarf að vinna og stefna að í sambandi við þessi mál. Fyrsta meginatriðið er auðvitað að tryggja jafna fjárhagslega fyrirgreiðslu við framkvæmd verkefna innanlands og unnt er að fá hjá hinum erlendu skipasmiðastöðvum, hvort sem um er að ræða nýsmiði eða viðgerðir skipa. Það þarf að gera ýmislegt fleira. Það þarf að ljúka þessari áætlunargerð, bæði um þörf fyrir skipaviðgerðir hér næstu árin og getu innlendra viðgerðarstöðva til að sinna þessum verkefnum, en að þeirri áætlun er unnið eins og ég gat um. Það þarf markvissar aðgerðir til að bæta aðstöðu stöðvanna. Það þarf aukið samstarf milli samtaka viðgerðarstöðva og útgerðar í þeim tilgangi m.a. að tryggja hagkvæma nýtingu stöðvanna með því að dreifa reglubundnu viðhaldi sem jafnast yfir árið. Og það þarf beinar aðgerðir hjá viðgerðarstöðvunum sjálfum til að auka framleiðni þeirra, en tækniaðstoð á því sviði er einmitt nú að hefjast að tilstuðlan opinberra aðila í framhaldi af mjög mikilvægri tækniaðstoð til skipasmíðastöðvanna varðandi nýsmíði.