07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka svar ráðh. sem hann gaf við fsp. minni þegar hún var hér fram borin. Það fullnægir lausn hluta vandamálsins sem ég spurði um, þ.e.a.s. því sem tekur til ársins í ár. Hins vegar gaf það ekki til kynna hvað við tekur eftir 31. des., og eins og hér hefur verið minnst á, þá verður að finnast lausn á vandanum til frambúðar. Fræðsluskrifstofurnar hafa á skömmum tíma og ég vil segja við ófullkomnar aðstæður sannað ágæti sitt og það væri mikið spor aftur á bak ef yrði að leggja þær niður. En það er, eins og hér hefur verið tekið fram, ekki hægt fyrir landshlutasamtökin að standa undir þeim kostnaði, sem af þessu hlýst, án þess að fá á móti tekjustofn. Þess vegna er málið leyst á þann hátt sem gert er í ár, að ríkissjóður tekur að sér greiðslurnar. Hér hefur verið minnst á aðrar leiðir til þess að leysa þennan vanda, þ.e.a.s. að skapa landshlutasamtökunum tekjustofn til að geta að sínu leyti staðið undir þessum kostnaði.

Ég vil svo, herra forseti, ljúka máli mínu með því að vænta þess að fyrir afgreiðslu fjárlaga liggi ljóst fyrir hvaða leið ríkisstj. hyggst fara til að leysa þennan vanda. Ef ekkert liggur fyrir í því efni, þá get ég ekki látið fjárlagaafgreiðslu hjá líða án þess að láta reyna á það hver sé vilji þingsins í því efni að tryggja framtíð og rekstur fræðsluskrifstofanna á komandi árum.