07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er synd að segja að þessi fsp. veki ekki menn til umhugsunar, og ég fagna því hvað hún hefur fengið jákvæðar undirtektir því að þarna er hreyft merkilegu máli. Það er búið að rekja það glögglega, að það er búið að skipa í öll fræðslustjóraembættin. Það er orðin staðreynd að þessar stofnanir eru orðnar til og reynslan af þeim hefur verið góð. Það er ánægja yfirleitt, held ég, úti á landi með þessa nýskipan mála sem leiðir af nýlega settum grunnskólalögum. Þarna er verið að flytja verkefni út úr rn. í Reykjavík og heim til fólksins sem að flestu leyti á að hafa nærtækari þekkingu á þeim vandamálum sem við er að stríða á hverjum stað, og þess vegna eru þessi verkefni betur komin heima fyrir.

Það er ekki óeðlilegt, að það var ætlast til í lögunum að greiða þennan kostnað að hluta úr ríkissjóði, sem væntanlega hefur átt að vera eins og mótframlag á móti því sem rn. gæti létt á sér við að færa þessa starfsemi út í skrifstofurnar, og ég fagna því svari ráðh. að kostnaðurinn verði allur greiddur 1976. En það er þó ekki alveg nóg, Það er skipanin í framtíðinni sem máli skiptir, og ég vonast eftir því að hæstv. ríkisstj. og sá þingmeirihl., sem að henni stendur, láti nú hendur standa fram úr ermum og tryggi framtíð þessara stofnana, því að eins og hefur komið fram í þessum umr., þá er annar fóturinn á fræðsluskrifstofunum, þ.e.a.s. sá fóturinn sem vissi að landshlutasamtökunum, ekki enn þá fullskapaður og staða hans nokkuð í lausu lofti, a.m.k. enn þá. Ég vil ekki spá um hve lengi það stendur.

Ég held að þetta mál sé byggðastefna og þarna hefur verið farið að ýmsu leyti skynsamlega í byggðastefnu. Þetta má ekki verða til útþenslu. Þessar skrifstofur mega ekki verða nein óskapleg bákn. En þetta geta verið hentug, mátulega stór stjórnsýsluapparöt sem verka vel á sínum vettvangi. Þetta er því byggðastefna í raun og nærtæk og auðveld byggðastefna og heppilegri en t.d. sá stofnanaflutningur sem stungið var upp á í mjög þykkri bók sem lá á borðunum hjá okkur hér í fyrravetur og sumir kölluðu Lönguvitleysu.