07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

76. mál, greiðslufyrirkomulag úr Fiskveiðasjóði vegna smíða fiskiskipa

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ekki kemur mér það á óvart, svo svekktur sem ég veit að hv. þm. Páll Pétursson er undir núv. stjórnarfari. að hann reikni með því að í höndum hæstv. núv. ríkisstj. verði þær ágætu og vel rökstuddu till., sem við lögðum hér fram um stofnanaflutning, að hreinni lönguvitleysu. Það er víst mála sannast að svo muni verða.

Mér fannst á svörum hæstv. ráðh. fyrr við þessa umr. að þau væru nokkuð svipuð og í umr. í fyrra um þetta mái, þ.e.a.s. málefni fræðsluskrifstofanna mundu fá afgreiðslu innan tíðar. Þessi voru svör hans þá. Hæstv. ráðh. treysti á það. En það hefur ekkert gerst, og ég óttast að enn kunni svo að fara.

Ég vil aðeins koma hér inn á til undirstrikunar, hvers konar starf fræðsluskrifstofurnar annast, og leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt að fá slíkan anga af miklu valdi rn. heim í héruðin. En einmitt í sambandi við það hef ég þær spurnir af starfi fræðslustjórans á Austurlandi, að ég þori að fullyrða að meginhluti verkefnis hans er beint á því sviði sem áður var alfarið inni í rn. og unnið þar að svo miklu leyti sem starfskraftar þar leyfðu. Fræðslustjórar fá starfsáætlanir skóla á vorin og úrskurða þar um alfarið. Þetta var áður algerlega unnið af rn. Þeir fá vinnureikninga, þeir fá vinnuskýrslur unnar vegna greiðslna frá ríkinu út frá stundakennslu og yfirvinnu kennara og úrskurða þar um einnig. Það gerði rn. áður, að svo miklu leyti sem því var það fært vegna starfskrafta. Að öðru leyti er hér að mestu um að ræða starf áþekkt námsstjórastarfi sem að fullu var greitt af ríkinu áður. Allt er þetta starf eins og það er í dag, en á e.t.v. og vonandi eftir að vaxa mikið og verða á öðrum sviðum einnig, en í dag er þetta starf miklu fremur á hreinu ríkissviði — á ráðuneytisplani beinu — og ætti því að vera eðlilegast að ríkið kæmi hér inn í að fullu þrátt fyrir ákvæði laganna eða sæi beinlínis fyrir tekjustofnum til sveitarfélaganna. Enn er sem sagt allt í lausu lofti og enn hefur ekkert verið hér að gert.

Ég ítreka það að aukin þjónusta úti á landsbyggðinni, hvort sem hún er upp úr einhverri lönguvitleysu eða úr lögum um grunnskóla, á ekki að vera annað en sjálfsagt samfélagsverkefni, ekki síst í menntamálum einmitt. Fræðsluskrifstofurnar hafa við slæmar aðstæður nú þegar að mínu viti sannað gildi sitt, og nú held ég að sé kominn tími til að tryggja þeim eðlilegan grundvöll til að starfa á. Ég treysti á hæstv. ráðh. að fylgja nú máli sínu betur eftir en gert mun hafa verið á síðasta vetri og knýja á það af fullum krafti að fræðsluskrifstofum verði tryggður eðlilegur grundvöllur því að annars lamast þær og koðna niður — ég segi: til mikils tjóns fyrir skólastarfið, alveg sérstaklega úti á landsbyggðinni.