07.12.1976
Sameinað þing: 30. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

48. mál, litasjónvarp

Stefán Jónsson:

Herra forseti: Nú er raunar sá farinn héðan af þingi sem ég hafði ætlað mér að beina til máli mínu fyrst og fremst er ég kvaddi mér hljóðs hér öðru sinni um þáltill. þessa, þar sem var hv. þm. Halldór Blöndal sem lauk máli sínu með því, eftir að skorið hafði verið á umr., að lýsa yfir þeirra sannfæringu sinni, að ástæðan fyrir því, að við hv. þm. Jónas Árnason og ég værum andvígir þessari till. um litasjónvarp á Íslandi, væri hin sama eða samkynja og ástæðan fyrir því að við styddum skoðanakúgun í Austur-Evrópu. (Gripið fram i.) Aths. mínum við þessar hugrenningar þm. verð ég sennilega að fresta þangað til ég hitti hann á öðrum vettvangi en þessum. En athugasemd hans er að því leyti svaraverð hér nú í fjarveru Halldórs, að þessi aths. var að sumu leyti álíka vel grunduð og ýmislegt annað það sem sagt hefur verið í þessum umr. um litasjónvarp á Íslandi.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. ýmsar velviljaðar, skynsamlegar aths. hans í sambandi við þessa till. þegar hann ræddi um málefni Ríkisútvarpsins yfirleitt. Ég get tekið undir þá skoðun hans, að tímabært sé nú að marka stefnuna fyrir fram, eins og hann orðaði það, í þessum málum, en vil aðeins undirstrika að það er þá mjög mikils um vert að sú stefna, sem mörkuð verður, sé rétt. Ef hæstv. ráðh. ætlar að byggja gagngert á þeim upplýsingum, sem hann hefur fengið hjá forstöðumönnum sjónvarpsins sjálfs, eða upplýsingunum, sem hann hefur fengið frá tæknimönnum þeim sem á vegum þess hafa starfað, þá vildi ég gjarnan að leitað yrði nú álits annars aðila um sumar af þessum upplýsingum, svo sem hina sígildu staðhæfingu, sem hver étur upp eftir öðrum, að nú sé komið að því að endurnýja þurfi svo til öll sjónvarpstæki landsmanna af því að þau séu flest orðin 10 ára gömul. Ég hef spurt ágæta útvarpsvirkjameistara að þessu, hvort þetta sé virkilega svo, að endurnýja þurfi þessi tæki, þau séu að verða ónýt. Svarið hefur hljóðað á þá lund, að því sé víðs fjarri að þessi tæki séu að verða ónýt. Eftir u.þ.b. 10 ára skeið dofni flúor í svonefndri túbu í tækjunum og sé þá æskilegt að skipta um hana, en túbu þessa sé hægt að fá í tækin fyrir verð sem nemur tæplega fimmtungi af verði tækisins eða innan við 20 þús. kr. þegar verð á nýju sjónvarpstæki svarthvítu er í kringum 100 þús. kr. Og enn fleiri rök af þessu tagi, sem notuð hafa verið af hálfu þeirra, sem mest hvetja til þess að nú verði tekið upp litasjónvarp, munu vera álíka ábyggileg. Þar á meðal er staðhæfingin um það, að ógerlegt muni reynast að fá varahluti í þessi tæki. Einn af háttsettum starfsmönnum sjónvarpsins lét þau ummæli falla í sjónvarpinu sjálfu, en vel að merkja: sjónvarpið sjálft hefur verið notað fyrst og fremst til þess að róa fyrir því, að hin nýja tækni verði tekin upp, — hann lét þau orð falla í sjónvarpinu, að nú væri svo komið að það væri, eins og hann orðaði það, einhver verksmiðja austur í Indlandi sem þeim væri vísað á að mundi halda áfram að framleiða varahluti í svarthvítu sjónvarpstækin. Það má vel vera að þeim hafi verið vísað á einhverja ónefnda verksmiðju í ónefndu fylki í Indlandi í þessu sambandi. Mér er aftur á móti kunnugt um það að verksmiðjur í Póllandi, í Rúmeníu og Tékkóslóvakíu halda áfram að framleiða eftir ítölskum og breskum patentum varahluti í þessi svarthvítu sjónvarpstæki og talíð er að þessar verksmiðjar muni halda því áfram enn um sinn.

Það er róið ákaflega fast fyrir litasjónvarpi á Íslandi, og kostnaðaráætlanir, sem lagðar hafa verið fram, hafa borið keim af þessu kappi allmikið. Það er ljóst mál að miðað er að því að flytja inn, þó ekki sé miðað við fjölgun sjónvarpsnotenda á Íslandi, 52 þús. sjónvarpstæki —– litsjónvarpstæki — um það er lýkur. Þessi tæki kosta nú, eftir því sem ég veit best, u.þ.b. 100 þús. kr. í gjaldeyri, þannig að hér yrði þá um að ræða í þann mund er lyki 5.2 milljarða í gjaldeyri. Þá eru eftir 2/3 hlutar af verði þessara tækja ógoldnir enn, þannig að þetta færi þá hátt í 16 milljarða, sú fjárfesting sem hér er um að ræða.

Ég átta mig ekki almennilega á því hvernig hæstv. ráðh. kemst að þeirri niðurstöðu að ætla megi að þorrinn allur af íslenskum fjölskyldum, sem situr nú uppi með svarthvít sjónvarpstæki, mundi leggja 250–300 þús. kr. í kaup á einhverjum öðrum gjaldeyrisvarningi ef ekki verða tiltæk litsjónvarpstæki í landinu til þess að skipta á gömlu tækjunum og þeim nýju. Ég hef grun um að í bili a.m.k. muni þessi kvartmiljón eða rúmlega það ekki liggja á lausu í skúffum íslendinga, heldur mætti ætla að sótt yrði þá á um það að fá peninga að láni til þessara kaupa og ekki sé rétt að reikna með því að þessir peningar færu rakleitt til kaupa á öðrum gjaldeyrisvarningi.

Okkur er ljóst hvernig ástatt er um gjaldeyrisstöðu þessarar þjóðar. Meðan hafðar eru uppi háværar raddir um það, að við getum ekki keypt inn til landsins ýmis gjaldeyrisframleiðslutæki vegna þess að okkur skorti gjaldeyri til þess, þá finnst mér fráleitt að taka nú ákvörðun um að byrja innflutning á litsjónvarpstækjum eins og horfir.

Ég innti ráðh. sérstaklega eftir því í ræðu hans, hverjir það væru sem komið hefðu fram með ýmsar athyglisverðar till., sem hann drap á í ræðu sinni, um almennilegt sjónvarpsefni, gott sjónvarpsefni, efni sem til þess væri fallið að auka gildi íslenska sjónvarpsins. Í stuttri ræðu minni við umr. um þessa þáltill. fyrr sagði ég frá því, sem ég veit að rannsókn, sem framkvæmd hefur verið bæði í Svíþjóð og Noregi, bendir til, að gildi — fræðslugildi, menntagildi — sjónvarpsdagskránna hefði ekki aukist við tilkomu litasjónvarps nema síður væri. Og ég er hæstv. ráðh. mjög svo samdóma í því, að meira sé upp úr því leggjandi að reynt verði að bæta dagskrárefni sjónvarpsins í svarthvítu heldur en hitt, að fara að gefa e.t.v. enn lélegri dagskrá sérstakan lit.

Á meðan við ræðum núna um möguleika á stórkostlegri fjárfestingu, meira en fimm milljörðum, í erlendum gjaldeyri og allt að því 16 milljörðum króna í heildarfjárfestingu í litasjónvarpi, þá búum við enn við þær aðstæður að útvarpið okkar gamla, hljóðvarpið, heyrist ekki á stórum landssvæðum og allra verst í kjördæmi hæstv. menntmrh. Ekki þarf ég að lýsa þessu fyrir honum, þetta þekkir hann allra manna best og hefur, ef mig minnir rétt, kvartað svo oft undan því að ég er alveg víss um að enginn annar þm. hefur gert það oftar en hann.

Við vorum á sínum tíma til neyddir, fyrst og fremst af utanaðkomandi aðilum og þar næst af eigin þegnum, mönnum lítilla sanda, að fara út í sjónvarpsrekstur á Íslandi fyrr en við vorum raunverulega í stakk til þess búnir. Ég hef grun um að flestir hefðu í hjarta sínu talið eðlilegt að við kæmum upp sæmilegu dreifikerfi fyrir útvarp áður en lagt væri út í sjónvarpsreksturinn. Síðan hefur verið drepið lauslega á dreifingarvandamál útvarps hér á landi. Það hefur verið drepið lauslega á þetta vandamál, en aldrei verið gert átak að ráði til þess að bæta úr þeim vandkvæðum. Enn síður má segja að það hafi verið tekið að gagni til þess að bæta aðstöðu starfsmanna útvarpsins. Ég man eftir því á afmælishátíð Ríkisútvarpsins 1970, sem haldin var á vegum starfsmannafélagsins, að þar kom þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, og sagði okkur þau gleðitíðindi að nú loksins ætti að byrja á því að reisa útvarpshús. Það hafði verið teiknað aldarfimmtungi áður útvarpshús, tvisvar hafði útvarpshús fengið úthlutað lóð í Reykjavík. Nú var það búið að fá úthlutað lóð í þriðja sinn í tilefni af afmælinu og nú var, að því er manni skildist, á döfinni að fá til mann að brýna skófluna fyrir fyrstu stunguna fyrir þessu útvarpshúsi. Þessari frétt fögnuðum við starfsmenn útvarpsins innilega. Því er ekki að neita að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hætti skömmu síðar að vera menntmrh. og tveir hafa gegnt því embætti síðan, en skóflustungan hefur ekki verið stungin enn. Og ég bið þm. að kynna sér lauslega þá aðstöðu sem starfsmenn útvarpsins mega búa við í starfi sínu á Skúlagötu 4, þar við sundin, og hugleiða lítils háttar hvernig búið er að gamla Gufuradíóinu, bæði hvað snertir fjárhag og tækni, áður en þeir taka nú ákvörðun um að greiða atkv. með þáltill. sem hér liggur fyrir.

Ég vildi líka gjarnan að þeir athuguðu með hæfilegri gagnrýni þær upplýsingar sem fyrir liggja um nauðsyn þess að koma á litasjónvarpi, leggja í þennan kostnað. Og svo vildi ég að þeir hugleiddu vendilega hvernig komið er efnahag sjónvarpsdeildar Ríkisútvarpsins að öðru leyti til hins almenna rekstrar.

Ég minnist þess nú fyrir nokkrum dögum, svo ég nefni dæmi um fjárhag sjónvarpsins og þá sæmd sem stofnunin á bundna við fjárhaginn slíkan sem hann er, en ég las í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum smáklausu á forsíðu þar sem frá því er sagt, að dagskrárstjóri sjónvarpsins hefði farið ásamt tæknimanni til Sovétríkjanna til þess að skoða þar sjónvarpsefni. Fyrirsögn þessarar greinar var eitthvað á þá lund, að enn sem fyrr færist rússum ekki stórmannlega. Efni greinarinnar var á þá lund, að þeir hefðu verið sendir í þessa ferð peningalausir í því trausti að rússar mundu halda þeim uppi með dagpeninga og hótelkostnað og fæði á meðan þeir dveldust í Moskvu, en rússar hefðu bara hreint ekki vitað af þessu og það hefði ekki verið fyrr en á síðasta degi, eftir mjög miklar þrengingar, að því er manni skildist, allt að því sult, að þeir hefðu komist að því að sendimenn íslenska sjónvarpsins væru svona snauðir og hefðu farið í þessu góða trausti til Sovétríkjanna, að þeim yrði haldið þarna uppi ókeypis, og þá hefðu þeir haft þjón á hverjum fingri. En þá var það bara orðið of seint. Það var síðasta daginn. Það er kannske fullkomin ástæða til þess að spyrja að hve miklu leyti Ríkisútvarpið, sjónvarpsdeild, þurfi að treysta á bónbjargir í starfsemi sinni. Sé svo að einhverju verulegu leyti, þá óska ég nú þess vegna almennrar sæmdar að það verði þá ríkisstj., sem verði kennt um, eða Alþ., en ekki rússum.