08.12.1976
Efri deild: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til laga um virkjun Hvítár í Borgarfirði, sem ég hef ásamt hv. 1. þm. Vesturl. leyft mér að flytja á þskj. 113, er flutt að beiðni stjórnar Andakílsvirkjunar og er nú frv flutt öðru sinni. Hliðstætt frv. var flutt hér á Alþ. í maímánuði 1975 og náði af eðlilegum ástæðum ekki að verða útrætt á því þingi og hlaut því ekki afgreiðslu.

Eigendur Andakílsárvirkjunar eru nú Akraneskaupstaður og Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. Eins og ég mun síðar víkja að er fyrir hendi mikill áhugi fyrir því á Vesturlandi að Andakílsárvirkinu færi út starfssvið sitt þannig að það nái yfir allt Vesturlandskjördæmi og verði þá einnig Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla og Dalasýsla hér aðilar að. Fyrir þessu veit ég að er vilji hjá þeim eignaraðilum. sem nú eiga Andakílsárvirkjun, svo og öðrum á Vesturlandi.

Það hefur oft verið um það rætt að í framtíðarskipan orkumála hér í landinu beri að stefna að því að komið verði á landshlutaveitum, ýmist á vegum byggðarlaganna sjálfra með aðstoð ríkisins eða þá með sameign ríkis og sveitarfélaga. Þó hefur alltaf verið gengið út frá því, a.m.k. af flestum, að meiri hl. stjórnar slíkra orkuvera væri í höndum heimamanna. Segja má að nú sé að nokkru búið að marka þessa stefnu með samþykkt Alþ. á s.l. þingi þar sem um er að ræða heildarheimildarlög til að stofnsetja Orkubú Vestfjarða.

Undirbúningur að virkjun Kláfsness í Hvítá má segja að hafi átt sér alllangan aðdraganda. Hann var hafinn á árunum 1963–1964 og þá gefið út virkjunarmat sem samið var af þeim Rögnvaldi Þorlákssyni verkfræðingi og Ásgeiri Sæmundssyni tæknifræðingi. Umræddar virkjunarrannsóknir, sem unnar voru af þessum mönnum, svo og allar aðrar virkjunarrannsóknir, sem síðar hafa verið gerðar varðandi þessa væntanlegu virkjun, hafa verið unnar að frumkvæði Andakílsárvirkjunar og á hennar kostnað. Virkjunarmat það, sem út var gefið 1964, bar það með sér að virkjun Hvítár við Kljáfoss væri hagstæð virkjun borin saman við aðra valkosti og með tilliti til þess öryggis sem raforkuverið mundi veita Vesturlandi.

Það er skoðun margra að enda þótt stórvirkjanir séu með tilliti til þess, að þær verði þegar í stað svo til fullnýttar, það ódýrasta sem við eigum völ á í orkuöflun, þá eigi aðrar virkjanir, þó minni séu, fullan rétt á sér með tilliti til aukins öryggis og þó sérstaklega þegar um jafnhagstæða virkjun er að ræða og væntanlega Kljáfossvirkjun.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að vatnsaflsstöðin verði allt að 13.5 mw. Er sú stærð ákveðin með tilliti til þess að þá fer minna land undir vatn vegna stíflugerðar en ella, ef raforkuverið væri miðað við t.d. 15 mw, eins og möguleikar eru fyrir hendi með aukinni stíflugerð.

Einn af aðalkostum Hvítár í Borgarfirði til raforkuvinnslu er talinn vera sá, hvað vatnsstreymið í ánni er mikið og jafnt. Eftir 24 ára rannsóknir hvað þetta snertir er orkuvinnslugetan talin vera um 88 gwst. í meðalári. Lægsta framstreymi á þessu 24 ára tímabili var árið 1963 og hefði orkuvinnslan það ár verið um 72 gwst. mælt við stöðvarvegg. Forgangsorka er hins vegar talin vera um 75 gwst.

Nýtt virkjunarmat hefur nú verið gert og þá miðað við verðlag og skráð gengi eins og þ.ð var í síðasta mánuði. Kemur þá í ljós, að í stað þess að það átti áður að kosta 1156 millj. kr., í marsmánuði 1975, þarf upphæðin nú að vera 1722 millj. kr. Er þá ekki frekar en áður talinn með kostnaður við tengingu orkuversins við orkuflutningskerfið í Borgarfirði, ekki greiðslu fyrir vatnsréttindi og vexti á byggingartíma. Að þessu meðtöldu verður heildarkostnaður virkjunarinnar 2 milljarðar 172 millj. kr. Sé reiknað með þessum kostnaði og orkuverið greiðist upp á 49 árum með jafnaðargreiðslum afborgana og vaxta og miðað við 8% vexti og 0.75% stofnkostnaðar í rekstri verður kostnaðarverð forgangsorkunnar kr. 2.65 á kwst., og má best af því sjá hvað hér er um hagstæða virkjun að ræða.

Svo sem kunnugt er er nú búið að leggja stofnlinu frá Andakílsárvirkjun til Snæfellsness og um Dali, þannig að í dag er allt Vesturlandskjördæmi samtengt innbyrðis og auk þess er það svo tengt Landsvirkjunarkerfinu yfir Hvalfjörð. Í þessum landshluta munu nú vera tæplega 15 þús. manns og þar af um 2/3 hlutar í þéttbýli. Á Vesturlandi eru nú 2 vatnsaflsstöðvar. Það er Andakílsárvirkjun, sem framleiðir um 35.9 gwst. og Rjúkandavirkjun við Ólafsvík, sem framleiðir 7.2 gwst á ári. Auk þessa voru framleiddar með dísilaflsstöðvum 7.7 gwst. á s.l. ári og keypt orka frá Landsvirkjun 41.6 gwst., eða samtals orka á Vesturlandi 92.4 gwst. Að sjálfsögðu hefur nú sú breyting orðið á, eftir að stofnlinur hafa verið lagðar um allt Vesturland með samtengingu við Andakílsárvirkjun og Landsvirkjun, að raforka með dísilvélum má heita úr sögunni.

Svo sem kunnugt er standa nú yfir athuganir á hagnýtingu jarðvarma til hitaveituframkvæmda fyrir meiri hluta af þéttbýlisstöðum í Vesturlandskjördæmi. Í Borgarfirði sérstaklega er um verulegt magn af jarðvarma að ræða og fyrr eða síðar hlýtur til þess að koma að hann verði virkjaður fyrir byggðarlögin á Vesturlandi. Hvenær það verður er ekki unnt að segja um í dag. Kemur þar til m.a. mikil fjarlægð milli staða og þess vegna kostnaðarsamar leiðslur og framkvæmdir. En allt fyrir það er vist að þörfin fyrir aukna raforku er fyrir hendi og nú þegar á sér stað veruleg rafhitun til íbúðarhúsnæðis eða um 15 gwst.

Heildarraforkuöflun fyrir Vesturland var á árinu 1974 80.5 gwst., en 92 4 gwst. ári seinna eða 1975, eða 14.78% aukning aðeins á milli ára. Af þessu má glöggt sjá hvað eftirspurnin eftir raforku eykst ört hér á landi, og þessar tölur, sem ég hef nú nefnt, segja alls ekki alla söguna vegna þess að í fjölmörgum tilfellum, þar sem um það hefur verið að ræða að menn hafa óskað eftir raforku til húshitunar, hefur ekki verið unnt að verða við beiðninni vegna þess að ekki hefur verið fyrir hendi nauðsynlegur spennuútbúnaður eða raflínulagnir.

Það er svo annað mál, að eftir því sem almenningur verður háðari raforkunotkuninni aukast kröfurnar um aukið öryggi varðandi orkuafhendinguna. Þar gildir einu hvort um jarðvarma er að ræða eða ekki, vegna þess að í flestum tilfellum er jarðvarminn háður dælustöðvum sem ganga fyrir raforku. Það skiptir því meginmáli fyrir heildaröryggið að vatnsaflsstöðvarnar verði staðsettar sem viðast um landið eða á þeim stöðum þar sem nm hagkvæmar virkjanir getur verið að ræða.

Með tilkomu Kljáfossvirkjunar þrefaldast vatnsorkuvinnslan á Vesturlandi, og með tilliti til þess að orkuverið er í miðju Borgarfjarðarhéraði eykur það mikið öryggi rafmagnsnotenda á svæðinu og minnkar orkutap í flutningi, en þar er einnig um mikil verðmæti að ræða.

Eins og ég hef áður vikið að, þá eru eigendur Andakílsárvirkjunar Akraneskaupstaður, Mýra- og Borgarfjarðarsýsla. En ég vil taka það sérstaklega fram að meðal eigenda Andakílsárvirkjunar er algjör samstaða um það, að eignaraðild að væntanlegri Kljáfossvirkjun verði aukin þannig. að Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla auk Dalasýslu verði meðeigendur orkuversins og þannig að því stefnt að öll grunnorkuvinnsla á Vesturlandi verði sameign íbúanna sem sjálfstæð Vesturlandsveita.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni, en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn. og 2. umr.