08.12.1976
Neðri deild: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

78. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Jóhann Hafstein:

Virðulegi forseti. Við sitjum nú á 98. löggjafarþingi og erum að ræða hér framhaldsumr. um mál sem flutt var á 94. löggjafarþingi, ef ég man rétt, þó með nokkuð öðrum hætti, eins og fram hefur komið í umr. áður. Mér datt í hug við þær umr, sem fram fóru, að það værri kannske ástæða til að rifja svolítið upp þá stefnu, sem höfð hefur verið í iðnaðarmálum, vegna þess að fram kom í máli hæstv. iðnrh. að hann hefði tekið til athugunar frekari aðgerðir í þessu máli. Ég ætla að leyfa mér vona að till. hans komi í kjölfarið á þessu frv. sem ég hef frá upphafi talið heldur lítilfjörlegt, en ég skal ekki frekar að því víkja, enda var ekkert að efni þess vikið í umr. um málið og það sérstaklega gert að umtalsefni, heldur meira um flm. sjálfan. En þegar til þess er hugsað að í þinginu sitja nú ýmsir nýir þm., sem ekki voru þm. áður, þá er rétt að rifja upp ýmsar stefnur sem fylgt hefur verið í iðnaðarmálunum. Þess vegna datt mér í hug — ja, því ekki að segja nokkur orð um stefnuna í iðnaðarmálunum á viðreisnartímabilinu. Það gæti orðið til ábendingar um þær till., sem kæmu síðar fram, og einnig fyrir þá n., sem kynni að fá þær till. til meðferðar.

Þegar að því er vikið, þá er fyrst og fremst ástæða til þess að víkja að gengismálunum og þeirri leiðréttingu sem gerð var á gengisskráningunni 1960–1961. Þetta hefur stundum verið kallað gengisfellingin 1960, þáv, viðreisnarstjórnar, en auðvitað var þar alls ekki um það að ræða, heldur var þetta leiðrétting á mjög langvarandi og rangsnúnu ranglæti í gengisskráningarmálunum. Það voru svo mörg gengi hér þá, að ég held að engan veginn sé það raunverulega ljóst hversu mörg þau voru. Það voru sérstök útflutningsgengi og sérstök innflutningsgengi á þessum vörum og öðrum vörum og gjaldeyrisstaðan var með þeim ósköpum að efnahagsmálaráðunautur ríkisstj. þá, Jónas Haralz, sagði m.a. eftirfarandi um þetta atriði:

„Gjaldeyrisstaða bankanna er svo slæm að þeir geta lent í alvarlegum vanskilum við erlenda banka, nema því aðeins að þeim sé gert mögulegt að minnka gjaldeyrisskuldir sínar að einhverju leyti. Það er því erfitt að sjá hvernig komist verður hjá því að verja einhverjum hluta af gjaldeyristekjum ársins eða einhverjum hluta hins erlenda lánsfjár til lækkunar gjaldeyrisskuldanna.“

Það tókst að breyta þessum málum og gjörsamlega snúa við blaði frá því sem áður var, og lífskjör hafa ekki í annan tíma verið betri en á liðnum áratug viðreisnartímabilsins, þegar þjóðartekjur á mann jukust um 60% og kaupmáttur almennra launa um 75%.

En hví ekki næst að víkja örfáum orðum að stóriðjumálunum sem mikið hafa nú verið rædd, en það var einmitt árið 1960 sem var farið að hugsa mikið um möguleika á framkvæmd stóriðju hér á landi? Hinn 5. maí 1961 skipaði þáv. iðnrh. dr. Bjarni Benediktsson, stóriðjunefnd til þess að rannsaka málið, og fjórum árum síðar, eða í ársbyrjun 1965, má segja að byrjað hafi undirbúningur þess að semja uppkast að samningi, hafnar- og lóðarsamningi og fleiri samn.- Alusuisse ásamt fylgisamningum: rafmagnssamningi, hafnar- og lóðarsamningi og fleiri samningum og fylgiskjölum. En hvers vegna vildu menn stóriðju á Íslandi? Mætti fara um það nokkrum orðum. Fullyrðingar um slíka stóriðju eru sprottnar af nauðsyn þess að tryggja nógu mikinn vöxt í þjóðarbúskap okkar. Aðrar vestrænar þjóðir stefndu á þessum árum að 50% vexti á næsta áratug eða svo, en það samsvaraði um 4% aukningu að meðaltali á ári. Í þessu sambandi er þess að gæta, að hjá okkur er meiri fólksfjölgun en hjá þessum þjóðum, og ef litið er á framleiðsluaukningu í aðalatvinnugreinum okkar íslendinga, landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði, á árunum 1955–1960, þá þóttu horfurnar ekki nógu efnilegar. Framleiðsluaukningin í landbúnaði hafði þá verið 4%, í sjávarútvegi um 4% og iðnaði til framleiðslu fyrir innlendan markað um 5% árlega. Þessar tölur taka miklum sveiflum, eins og ýmsum þm. er kunnugt um, vegna þess að sjávarútvegurinn er þess eðlis að það er erfitt að segja hvað verða vill á því sviði, og meðan síldarhlaupin voru hér, þá var náttúrlega miklu meiri aukning í sjávarútveginum. En svo kom að því að síldin hvarf og það var ekki alltaf blíða á þessum árum, því að framleiðsluverðmæti þjóðarinnar hröpuðu næstum því um helming vegna aflabrests, verðhruns og lokaðra markaða.

Stundum var á þessum tíma og hefur oft síðar verið kvartað um að það hafi ekki verið nógu skýr stefna í iðnaðarmálunum sérstaklega. En ég hef oft minnt á það áður og vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að fá að minna svolítið á þá stefnu sem ég gerði grein fyrir á fundi Félags ísl. iðnrekenda sem efnt var til 5. febr. 1966. Þar dró ég saman nokkuð þá stefnu sem fylgt hafði verið og fylgt var, og hún var í aðalatriðum þessi:

1. Stefnt er að því að ríkja megi jafnrétti milli aðalatvinnuvega landsmanna og jafnframt að því unnið að hagsmunir einstakrar atvinnugreinar séu ekki fyrir borð bornir ef það samrýmist hagsmunum almennings eða þjóðhagslegri framkvæmd.

2. Stefnt er að því að létta tollum af vélum og hráefnum iðnaðarins, samfara því að tollum sé almennt aflétt til þess að veita almenningi ódýrara og betra vöruval og draga með því úr dýrtíð í landinu. Séð verður til þess að iðnaðurinn í landinu njóti í þessu sambandi eðlilegs aðlögunartíma og ráðstafanir gerðar í lánamálum og á annan hátt til að gera honum auðveldara að tileinka sér ýmsa tækni og aukna hagræðingu og framleiðni til eflingar þessari atvinnugrein í frjálsari viðskiptum.

3. Haldið verði áfram að efla Iðnlánasjóð svo að iðnaðinum skapist viðunandi stofnlánaaðstaða, jafnframt því sem gert er ráð fyrir að aðstaða hans í bankakerfinu haldist til jafns við aðrar atvinnugreinar eins og þá var. Samtímis hefur verið sköpuð aðstaða til umbóta á sviði lánamála með lögum og reglugerð í samráði við bankana til að breyta lausaskuldum iðnaðarins í löng og hagkvæmari lán, en þess var þá mikil þörf.

4. Ríkisstj. hafði stuðlað að því að hefjast mættu í landinu nýjar atvinnugreinar á sviði iðnaðarins þar sem horfur væru á að verð og gæði stæðust erlenda samkeppni og þjóðhagslega mikilvægt að slíkar atvinnugreinar efldust, svo sem innlend stálskipasmiði, sem þá var til, samfara endurbyggingu gamalla og úreltra dráttarbrauta og eflingu fiskiðnaðar, m.a. með niðursuðu og niðurlagningu síldar til útflutnings.

5. Sett hafa verið lög á þessum tíma um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og þar með stórfelldar rannsóknir á sviði iðnaðarins á vegum tveggja stofnana: Í fyrsta lagi Rannsóknastofnunar iðnaðarins sem vinna á að rannsóknum til eflingar og hagsbóta fyrir iðnaðinn í landinu og rannsóknum vegna nýjunga á sviði iðnaðar og annarrar framleiðslu, rannsóknum á nýtingu náttúruauðlinda landsins í þágu iðnaðarins, veita nauðsynlega þjónustu og kynna niðurstöður rannsókna í vísinda- og fræðsluritum. Í öðru lagi Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins sem vinnur að endurbótum í byggingariðnaði og lækkun á kostnaði við mannvirkjagerð, hagnýtum jarðfræðirannsóknum og vatnsvirkjunarrannsóknum, kynnir niðurstöður rannsókna, veitir upplýsingar um byggingarfræðileg efni og aðstoð við eftirlít með byggingarefni og byggingaframkvæmdir. Báðar þessar rannsóknastofnanir — iðnaðarins og byggingariðnaðarins — eignuðust á þessu tímabili sérstakar og ágætar rannsóknastofur á Keldnaholti. Það er að vísu lagt til í þessu frv. að þeim verði báðum kálað, einsog ýmsu öðru sem gert var til framdráttar á þessu tímabili.

6. Stefnt sé að virkjun stórfljóta landsins, byggingu stórra orkuvera sem verði grundvöllur og orkugjafi fjölþættrar iðnvæðingar í landinu. Orkuver landsins séu eign íslendinga, en til þess að virkja megi í stórum stíl og undir lántökum verði risið á sem hagkvæmastan hátt, er tryggi ódýrari raforku, og til þess að styrkari stoðum sé rennt undir atvinnulíf landsmanna verði erlendu áhættufjármagni veitt aðild að stóriðju ef hagkvæmt þykir samkv. mati hverju sinni og landsmenn brestur fjárhagslegt bolmagn eða aðstöðu til framkvæmdanna.

7. Ríkisstj. hafði leitað og hún mundi leita samráðs og samvinnu við samtök iðnrekenda og iðnaðarmanna, félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, um hagsmunamál iðnaðarins og stefndi að því að efla samstarf þessara aðila við iðnrn. og þær stofnanir iðnaðarins sem undir það heyra, svo sem Rannsóknastofnun iðnaðarins og Iðnaðarmálastofnun Íslands.

Ég vil geta þess í framhaldi af þessari stefnuyfirlýsingu, sem gefin var fyrir hönd viðreisnarstjórnarinnar, að haldin var iðnþróunarráðstefna sjálfstæðismanna 2.–4. maí 1968 og þar voru m.a. samþykktar mjög athyglisverðar ályktanir sem ég vil mega leyfa mér að minnast á — með leyfi hæstv. forseta:

„1. Arðsemi og framleiðni verði ráðandi sjónarmið við fjárfestingu í atvinnuvegum og lagasetningu þeirra vegna, hvort heldur um eflingu eldri eða stofnun nýrra fyrirtækja eða atvinnugreina er að ræða.

2. Auka þarf skilning opinberra aðila og allrar þjóðarinnar á því að vel rekin og fjárhagslega sterk fyrirtæki eru forsendur bættra lífskjara og framfara. Stefnt verði að stækkun rekstrareininga í hvers konar atvinnurekstri þegar sýnt þykir að slíkt stuðli að aukinni rekstrarhagkvæmni og samkeppnishæfni.

3. Aukin áhersla verði lögð á rannsóknir á orkulindum og náttúruauðæfum landsins svo og hagnýtar rannsóknir í þágu iðnaðar og fjárframlög til rannsóknastarfsemi tryggð.

4. Skipulega verði unnið að því að hagnýta erlent fjármagn og sérþekkingu til uppbyggingar nýrra og eldri iðngreina, enda verði gengið tryggilega frá samningum hverju sinni svo að íslenskum hagsmunum verði aldrei tefit í tvísýnu.

5. Rutt verði úr vegi hindrunum og fundnar leiðir til að örva þátttöku almennings í arðbærum atvinnurekstri.

6. Þess verði gætt, að Ísland einangrist ekki frá mikilvægum mörkuðum, og lagt kapp á að efla leit að mörkuðum erlendis fyrir íslenska iðnaðarframleiðslu.“

Þannig hljóðaði þetta. Ég hygg að þessar tvær stefnuyfirlýsingar: ríkisstj. sjálfrar og svo ráðstefnu Sjálfstfl., hafi mjög fastlega mótað stefnu iðnaðarins á þessum tíma og þær mættu reyndar vel vera munaðar enn. Síðan voru ýmis atriði gerð í stjórnarframkvæmdum og löggjöf. M.a. var sett á stofn árin 1966 og 1967 hið svokallaða iðnþróunarráð, en það var bráðabirgðaráðstöfun, en hins vegar vann iðnþróunarráðið að margvíslegum umbótum á sviði iðnaðarins, eins og landsmönnum var þá kunnugt um.

4. febr. 1969 var gerð eftirfarandi samþykkt í ríkisstj., með leyfi hæstv, forseta:

„Stofnað sé samstarfsnefndar sem hafi það höfuðmarkmið að athuga möguleika til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði og sé að því stefnt að gera sem fyrst áætlun sem taki til 10–20 ára. Er þá aðeins við það miðað að gera sér lauslega grein fyrir hugsanlegum ramma framkvæmda sem hlyti að vera mjög sveigjanlegur. Gengið er út frá því að hinn eiginlegi kjarni iðnaðarmöguleika þjóðarinnar sé í sambandi við nýtingu vatnsafls landsins og varmaorku.“

Allt þetta stendur auðvitað í gildi enn í dag. Iðnlánasjóður var margefldur á þessu tímabili og margsinnis samþykkti Alþ. lög um að lausaskuldum iðnaðarins yrði breytt í löng og hagkvæm lán, eins og ég hef nokkuð vikið að. Svo má einnig í þessu sambandi minna á að á þessu tímabili varð til hinn norræni Iðnþróunarsjóður við inngöngu okkar í EFTA og hefur hann orðið iðnaðinum að mjög miklu líði. En þáltill. um aðild okkar að EFTA var samþ. 12, nóv. 1968. Þá var sett á stofn eða styrkt í fyrsta lagi útflutningsstarfsemi iðnaðarmannanna sjálfra og síðan sett á stofn Útflutningsmiðstöð iðnaðarins.

Ég vil einnig leyfa mér að minna hér á að Guðmundur Magnússon prófessor vann að því á vegum iðnrn. að rita grg. um iðnþróun, tvo bæklinga, annan sem náði aðallega frá 1960–1970 og hinn frá 1970–1980 með spám um iðnaðinn á þessu tímabili. Þessi sérkunnáttumaður á þessu sviði, sem leyst hafði verk sitt af höndum í mjög náinni samvinnu við iðnrekendur, mér er ekki kunnugt um að hann hafi verið neitt til kallaður til þess að undirbúa frv. um þessi mál. En ég vil sérstaklega taka það fram, sem fram kemur í síðari bæklingnum, um iðnþróunaráform, þar segi ég, sem þá var iðnrh., m.a.:

„Ég tel mjög mikils virði framlag þessa sérfræðings sem hér hefur lagt hönd á plóginn af áhuga, dugnaði og þekkingu. Ég óska þess, að mistúlkað verði ekkert sem fram kemur í riti dr. Guðmundar Magnússonar. Það stefnir ekki að flokkspólitískum áhrifum, en hlutlausum upplýsingum til þess að auðvelda stefnumörkun þeim sem um þessi mikilvægu vandamál eiga að fjalla á næstunni.“

Ég veit ekki hvort þeir menn, sem á næstunni tóku við, því að þessi bæklingur var gefinn út vorið 1971, hafa mikið kynnt sér hann eða farið eftir honum, en sjálfur sagði prófessor Guðmundur Magnússon í formála, með leyfi hæstv. forseta:

„Megintilgangur þessarar ritgerðar er að athuga hvaða áhrif framkvæmdir af tiltekinni stærðargráðu í iðnaði gætu haft á þjóðarbúskapinn, einkum útflutning, sveiflujöfnun og hagvöxt. Með þessu er ekki þar með sagt að þróunin kunni ekki að verða önnur í einstökum atriðum, því að ný tækifæri eru sífellt að skapast og innbyrðis afstaða valkosta að raskast a.m.k. í heimi mikilla breytinga og tækniframfara.“

Þar hlýtur endanleg ákvörðun að verða Alþingis og mótast af almennum viðhorfum á hverjum tíma. Það er t, d. að sjá í þessum síðari bæklingi, á bls. 77, eftirfarandi, sem mig langar til að vitna til, með leyfi hæstv. forseta:

„Á sviði stóriðju er vitað að stækkun álversins í Straumsvík úr 44 þús. tonnum í 77 þús. tonn verður væntanlega lokið 1972 og að ný orkufrek framleiðsla til útflutnings geti vart orðið fyrr en árið 1975. Ef gert er ráð fyrir að Sigölduvirkjun verði lokið á árinu 1975“ — sem ekki var nú — „og virkjun við Hrauneyjarfoss árið 1979, þá eru uppi þessar hugmyndir ásamt því að orkan yrði notuð til tiltekinnar framleiðslu með tiltekinni tímasetningu.“

Þá fæst sú niðurstaða sem greint er 1980 og er á þá leið að gert er ráð fyrir 50 þús. tonna málmbræðslu 70 þús. tonna álveri, 10 þús. tonna álsteypu, sjóefnaiðju; 250 þús. tonna saltverksmiðju, 24 þús. tonna magnesíumverksmiðju og fleira í þessu sambandi. Ég get ekki varist því, þó að margt hafi breyst á þessu tímabili í peningagildi, að minna á að heildarfjármunamyndunin árið 1970 var um 10 milljarða og áætlað var að Búrfeilsvirkjun og álverið í Straumsvík mundu kosta um 9 milljarða á þágildandi verðlagi, 1910.

Margt var það fleira í þessum ritlingum, sem hefði verið gott til leiðbeiningar og er gott til leiðbeiningar fyrir þá sem um þessi mál fjalla.

Mig langar svo aðeins til þess að nefna hér löggjöf frá viðreisnartímabilinu í sambandi við iðnaðinn sem sýnir hversu mikil þróun átti sér stað á þessu sviði einmitt á þessu tímabili.

1962 voru sett lög um Iðnaðarmálastofnun Íslands. 1962 eru sett lög um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán til þriggja skipasmiðastöðva sem þá var byrjað á.

1963 eru sett ný lög um Iðnlánasjóð að lokinni vandlegri endurskoðun og undirbúningi. Sú löggjöf markaði tímamót og varð upphaf að sterkum stofnlánasjóði. 1963 voru sett lög um Tækniskóla Íslands.

1964 voru sett lög um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og þeim síðan breytt í endanlegt horf árið 1966. Árið 1964 eru sett lög um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst, löng og hagkvæm lán.

1965 eru sett lög um Landsvirkjun og sama ár lög um Laxárvirkjun. 1965 eru sett lög um ráðstafanir til þess að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. 1965 eru aftur sett lög um heimild til handa ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán til byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva. 1965 eru einnig sett lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna sem ég hef áður vikið að, en með þeim eru mjög efldar tvær rannsóknastofnanir í iðnaðinum: Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins og Rannsóknastofnun iðnaðarins.

1966 voru sett ný lög nm iðnfræðslu. 1966 er enn breyting á iðnlánasjóðslögum sem felur í sér stofnun hagræðingarlánadeildar og stórauknar lánsheimildir. 1966, í árslok, er iðnlánasjóðslögunum enn breytt og þá heimilað skattfrelsi á skuldabréfum sem Iðnlánasjóður gefur út til fjáröflunar fyrir hagræðingarlánadeild. Lántökuheimildir sjóðsins eru jafnframt auknar, en ríkisstj. stóð að því að sjóðnum væri aflað lánsfjár frá Framkvæmdasjóði. 1966 eru sett lög um álbræðslu í Straumsvík og stóriðjan heldur innreið sína hér.

1967 eru sett ný orkulög. 1967 eru sett lög um breytingu á Iðnlánasjóði, stofnuð lánadeild veiðarfæraiðnaðar, en þá lá við að veiðarfæraiðnaður legðist með öllu niður hér á landi. því var við bjargað, og sjálfur lagði ég mikla áherslu á það þá að við stefndum að því að byggja íslensk veiðiskip sjálfir og veiðarfæragerð yrði efld í landinu.

1968 eru sett ný lög um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán til dráttarbrauta og skipasmíðastöðva, allt að 80% af kostnaðarverði þegar sérstaklega stendur á. Og 1968 eru sett lög um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð þar sem m.a. 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi skal varið til hagrannsókna í þágu iðnaðarins og aðgerða sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun. 1968 eru sett ný lög um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán.

1969 eru sett lög um aðgerðir í atvinnumálum, stofnaðar atvinnumálanefndir, en til iðnaðar var veittur verulegur hluti þess fjármagns sem atvinnumálanefnd ríkisins hafði ti1 ráðstöfunar til atvinnuaukningar í landinu. En þessi lög voru afleiðing af þeim miklu erfiðleikum sem við urðum fyrir 1967 og 1968 og ég hef áður lítillega minnst á. 1969 voru sett lög um viðauka við lög frá 1966 um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og ráðgerð tvöföldun á afköstum verksmiðjunnar. 1969 voru sett lög um Stjórnarráð Íslands, en þá var fyrst stofnað iðnrn. Iðnrh. hafði farið með þessi mál, en hins vegar ekkert iðnrn. verið til fram að þessum tíma. Svo var, eins og ég vék að, árið 1969 samþykkt þáltill. um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu.

1970 voru sett lög um norrænan Iðnþróunarsjóð sem er í tengslum við EFTA, og stofnframlag var 1230 millj. kr. sem þótti þá geysimikil upphæð, en við íslendingar þurftum aðeins að leggja smáræði fram. 1970 eru sett lög um breyt. á l. um iðju og iðnað, og 1970 eru sett lög um breyt. á l. um ráðstafanir til að bæta úr fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. Árið 1970 eru sett lög um lagagildi viðaukasamnings ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium, álverksmiðjan er stækkuð og framkvæmdahraði aukinn. 1970 eru sett lög um Útflutningslánasjóð og samkeppnislán, en hvort tveggja var iðnaðinum sérstaklega mikilvægt, bæði að til væri útflutningslánasjóður og samkeppnislánasjóður við innflutta iðn. 1970 eru sett lög um tryggingadeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð. Og 1970 eru sett lög um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt og þar voru heimilaðar auknar afskriftir sem iðnaðinum þóttu þá mjög mikils virði. 1970 eru sett lög um Lagarfossvirkjun.

1971 eru sett lög um Iðnþróunarstofnun sem með þessu frv. á að leggja niður. Og 1971 voru sett tvenn lög um tvær stórvirkjanir 150–160 mw. orkuver hvort, í Tungnaá: við Sigöldu og Hrauneyjarfoss. Hér er um stórvirkjanir að ræða með álíka framleiðslugetu og fyrir var hjá Landsvirkjun þegar Búrfellsvirkjun var fullnýtt árið 1972 ásamt Sogsvirkjunum og annarri orku sem Landsvirkjun hafði þá yfir að ráða, svo að hér var ekki um neitt smáræði að ræða.

Ég skal nú, hæstv. forseti, ekki tefja tímann lengur, en ég vil að lokum leggja á það áherslu, að af hálfu viðreisnarstjórnarinnar var ævinlega lögð á það mjög mikil áhersla að í sambandi við iðnþróun landsmanna mun framvindan velta á einstaklingunum fyrst og fremst, framtaki þeirra, áræði og manngildi. En hins geta menn svo krafist með réttu, að hið opinbera láti ekki sitt eftir liggja og mismuni ekki einstökum atvinnugreinum. Það er einnig að mínum dómi rétt að það liggi fyrir hverju sinni ákveðin stefnumótun sem til viðmiðunar geti verið í athöfnum og ákvörðunum einstaklinga og fyrirtækja í daglegum rekstri og áætlunargerð þeirra.

Ég freistaðist nú til þess að rifja þetta upp, af því að ég álít að það sé rétt að það sé í minnum haft af þm. sem iðnaðinum var gert þá til eflingar, og satt er það, sem fram hefur komið hér, að iðnaðurinn verður sú atvinnugrein sem tekur við langmestum hluta af vinnuaflinu á komandi árum.

Fleiri orð skal ég svo ekki um þetta hafa og lýk hér með máli mínu.