08.12.1976
Neðri deild: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

78. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Flm. (Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Mér þótti dálítið undarlegt að hlýða á þessi eftirmæli um viðreisnarstjórnina. Þau eru nokkuð siðbúin, en hún andaðist fyrir 6 árum. Ég held að það sé ekki siður að gagnrýna eftirmæli og ég mun ekki gera það neitt sem heitir. En ég vil minna á að viðreisnarstefnan svokallaða leiddi yfir íslendinga mjög alvarlegt atvinnuleysi á árunum 1967—1968, svo alvarlegt atvinnuleysi að þúsundir manna urðu að flýja land. Sá atvinnuvegur, sem mest varð fyrir barðinu á þessari stefnu, var einmitt iðnaðurinn. Framleiðsla íslensks iðnaðar minnkaði á þessu tímabili sem bein afleiðing af verkum viðreisnarstjórnarinnar. Þetta varð til þess að menn voru mjög uggandi um aðild Íslands að EFTA, vegna þessarar reynslu, að sú aðild kynni að verða til þess að iðnaður okkar stæðist hreinlega ekki, heldur yrði að engu ef hann yrði að heyja samkeppni við innfluttan iðnvarning á eðlilegum grundveili. Ég held að þetta atriði sé í hugum ákaflega margra eftirmæli viðreisnarstjórnarinnar.

En það, sem ég ætlaði að ræða hér, voru ummæli hæstv. iðnrh. sem hann viðhafði þegar ég flutti framsögu fyrir frv. mínu um Iðntæknistofnun Íslands. Hæstv. ráðh. tók til máls á eftir framsöguræðu minni. Ég reyndi þar að tengja hugmyndir um Iðntæknistofnun við heildarþróun iðnaðarins og rifjaði upp ýmsa þætti, sem að var unnið, í samhengi við það mál og benti á að einmitt slík iðntæknistofnun, sem kæmi í stað þeirra þriggja stofnana sem hv. þm. Jóhann Hafstein minntist á áðan, væri alger forsenda þess að hér gæti orðið skynsamleg iðnþróun. Hv. þm. talaði um að ég vildi leggja þessar þrjár stofnanir niður. Ég held að það sé algert öfugmæli. Ég vil sameina þær í stofnun sem yrði miklu sterkari og virkari.

En hæstv. iðnrh. hóf mál sitt á því hér að tala um að ég hefði farið með níð um sig í framsöguræðu minni. (Gripið fram í: Níð?) Níð. (Gripið fram í.) Nei, í ræðu, sem hæstv. iðnrh. flutti þegar þetta má1 var fyrst hér á dagskrá, sagði hann að ég hefði farið með nið um sig og mér komu þessi ummæli dálítið á óvart. Það fljúga að vísu oft undarleg orð á milli þm. hér, en hæstv. iðnrh. á að vita öðrum mönnum betur skil á níði, háði og öðru slíku því að hann samdi á sínum tíma doktorsritgerð um fjölmæli. Fjölmæli á sem kunnugt er við um orðalag af slíku tagi, níð og háð og skop og spott og hvað þetta nú heitir allt saman. Til þess að semja um það doktorsritgerð þurfti hann ekki aðeins að vita deili á lögfræðilegri hlið þessara orða, heldur einnig að hafa eðlilegan skilning á íslensku máli. Ég kannast ekki við að ég hafi farið með neitt níð um hæstv. ráðh. í ræðu minni, ég las hana yfir á eftir, þegar ég hafði hlýtt á þessi ummæli, og sannreyndi að þar var ekki að finna nokkurt orð sem hægt er að kalla níð. Hins vegar má segja að í ræðunni hafi komið fram háð, því að ég fór þar að þingsköpum og kallaði hæstv. iðnrh. jafnan hæstv., og ég notaði það orð oft í setningum sem í var gagnrýni. Ég er ansi hræddur um að það orð hafi þá verkað eins og Snorri Sturluson lýsti í Snorra-Eddu á sinni tíð, sem oflof er jafngilti háði. Ég segi fyrir mig: ég hef dálítið meira gaman af að nota orð á þann hátt að nota háð, en ekki níð. En það er erfitt fyrir hæstv. iðnrh. að gagnrýna þetta því að okkur þm. er fyrirlagt í þingsköpum að nefna iðnrh. og aðra ráðh. jafnan hæstv., þó við séum að gagnrýna þá, og það orð verkar þá einatt sem háð, en ekki sem hól. En til þess að leiðrétta þetta þarf hæstv. ráðh. að fá breytingu á þingsköpunum, en ekki kenna mér um þótt ég nýti þarna orð eins og fyrir er mælt í þingsköpum og þótt það verki þá eins og spott og spé.

Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðh. væri hér viðstaddur, herra forseti. (Forseti: Það skal kannað hvert hæstv. ráðh. er staddur í húsinu. — Hæstv. ráðh. er staddur í húsinu og honum hafa verið send boð um að ræðumaður óski viðveru hans.) (Gripið fram í.) Jahá, en ég ætla nú að tala við hæstv. iðnrh., en ekki við þig. (Forseti: Hæstv. ráðh. hefur fengið þessi boð. Hefur hv. ræðumaður eitthvað fram að færa sem komið gæti að gagni án þess að ráðh. hlýði á, ef einhver bið verður á komu hans?) Ég ætlaði nú að gera aths. við ræðu hæstv. ráðh. og hefði gjarnan viljað að hann væri hér viðstaddur. En í eftirmælum sínum um viðreisnarstjórnina minntist hv. þm. Jóhann Hafstein m.a. á álbræðsluna í Straumsvík. Ég held að það sé orðið almennt viðurkennt af þjóðinni allri að þeir samningar, sem þar voru gerðir, hafi verið vanhugsaðir. Þar var samið um raforkuverð sem var mjög verulega undir framleiðslukostnaðarverði, og auðhringurinn hefur getað haldið þannig á málum sínum að hann hefur látið álbræðsluna sýna tap á hverju einasta ári til þess að þurfa ekki að standa skil á opinberum sköttum, nema eitt ár, þegar álbræðslan þurfti á því að halda að fá alþjóðlegt lán til starfsemi sinnar, þá var hún látin sýna ágóða.

Samningum við erlenda aðila er þannig varið, að það er algerlega nauðsynlegt fyrir okkur íslendinga að hafa vald á iðnframleiðslunni, bæði upphafi hennar og endi, en hringar eins og álhringurinn ern þannig skipulagðir að þeir ráða yfir framleiðsluferlínum öllum. Þeir eiga báxitnámurnar, þeir framleiða súrálið, síðan kemur álbræðslan og að lokum fullvinnsla. Það er á valdi hins erlenda auðhrings að ákveða hvar gróðinn kemur fram, og þetta hefur verið hagnýtt skipulega af Alusuisse. Við höfum orðið fyrir þessari reynslu, sem ég held að þjóðin öll viðurkenni. Þetta er víti til varnaðar fyrst og fremst, mjög stórt mál, mjög annarlegt mál, og ég reyndi að leggja áherslu á það meðan ég gegndi störfum iðnrh. að sanna í verki að hægt væri að halda öðruvísi á þróun orkufreks iðnaðar á Íslandi og að það skipti öllu máli að við hefðum völdin í okkar eigin höndum, ekki aðeins að því er varðaði það fyrirtæki sem starfar á Íslandi, heldur einnig að því er varðar aðföng til slíkrar verksmiðju og sölu framleiðslu frá henni. Þetta er algert undirstöðuatriði að því er varðar orkufrekan iðnað og álbræðslan er okkur þar mikið víti til varnaðar. Samning af því tagi má aldrei framar gera, því að með því erum við að leggja okkur undir erlenda aðila og láta þá ráða yfir málum á þann hátt að við getum ekki haft á það nein teljandi áhrif. Þannig megum við ekki starfa að því að koma upp orkufrekum iðnaði á Íslandi, heldur verða það að vera íslensk fyrirtæki sem styrkja efnahagslegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði okkar, sem álbræðslan gerir ekki.

Ég fagna því að hæstv. iðnrh. er kominn inn í þetta herbergi. Ég minntist á það í upphafi ræðu minnar, hæstv. iðnrh., að ég hefði átt erfitt með að skilja að iðnrh. notaði orðið níð um framsöguræðu mína, vegna þess að hæstv. iðnrh. er æðsti sérfræðingur íslendinga í fjölmæli og hefur doktorsnafnbót sem viðurkenningu um að hann viti meiri deili á þeim orðum og þeirri orðanotkun en aðrir íslenskir menn. Í ræðu minni var ekkert sem hægt er að kalla níð. Hins vegar benti ég á að ég hefði notað lýsingarorðið hæstvirtur í ýmsum gagnrýnum setningum og það verkaði, eins og Snorri Sturluson rakti á sínum tíma, eins og oflof sem jafngildir háði, og ég skal ekki skorast undan því. En þar fylgdi ég fyrirmælum þingskapa. Þetta var nú ekki mikils háttar atriði.

En í ræðu sinni vék hæstv. iðnrh. að býsna mörgu. Hann minntist m.a. á það, að ég hefði lagt hér fram á þingi á sínum tíma skýrslu um nýtingu innlendra orkugjafa þegar olíuverðlag hafði hækkað mjög í heiminum. Þessi olíuverðhækkun varð að sjálfsögðu mikið áfall fyrir efnahag okkar, en hún varð einnig sönnunargagn um það, að við gætum nýtt innlenda orkugjafa í miklu ríkara mæli en við höfðum gert, það væri orðinn efnahagslegur grundvöllur til þess að gera það. Og ég reyndi að móta þá stefnu að á sem allra stystum tíma yrði gerð áætlun um að nýta innlenda orkugjafa í stað olíu hvar sem hægt væri. Ég ræddi um þetta við Orkustofnun, og hún tjáði mér að hún væri sammála þessu sjónarmiði mínu, en hún hefði ekki mannafla til að vinna að þessu verkefni eins og gera þyrfti ef semja ætti fullgilda áætlun og láta framkvæma hana á stuttum tíma. Hún lagði því til að ég leitaði til verkfræðifyrirtækis, og ég gerði það. Ég leitaði til Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens og frumskýrsla þessarar verkfræðistofu var lögð fram hér á Alþ. En hæstv. ráðh. sagði að það hefði alveg vantað stefnumörkun í þessu sambandi. Þarna kemur til annaðhvort fáfræði hæstv. ráðh. eða ósannsögli, því að þessu plaggi fylgdi þáltill. frá fyrrv. ríkisstj., og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa hana. Hún var svona.

„Alþingi ályktar eftirfarandi:

Gerð skal ítarleg framkvæmdaáætlun um nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu til húshitunar og annarra þarfa. Skal áætlunin miðuð við árlega áfanga og sem mestan framkvæmdahraða og fela í sér eftirtalin atriði:

1. Hitaveituframkvæmdir hvarvetna þar sem jarðvarmi er tiltækur og nýting hans talin hagkvæm. Verði miðað við að hitaveituframkvæmdum verði í meginatriðum lokið á árinu 1977.

2. Samtenging allra orkuveitusvæða landsins og breyting á dreifingarkerfum, svo að landsmenn allir geti átt kost á nægri raforku. Ráðist verði í nýjar virkjanir, sem tryggi næga orkuframleiðslu, og auknar rannsóknir á nýtilegum virkjunarstöðum. Verði að því stefnt að sem flestir þeirra, sem ekki eiga kost á jarðvarmaveitum, meti nýtt raforku til húshitunar fyrir árslok 1981.

3. Fjármögnunarráðstafanir með innlendri fjáröflun og erlendum lántökum, svo að nægilegt fé verði jafnan tiltækt til þessara framkvæmda.

Framkvæmdaáætlun þessi skal lögð fyrir næsta þing.“

Þetta var ákaflega skýr stefnumörkun, og að þessu var unnið myndarlega af þessari verkfræðistofu sem ég bað um að vinna þetta verk. En það gerðist um leið og hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen tók við, að hann sagði þessari verkfræðistofu að hún skyldi hætta störfum sínum. Það hefur ekkert verið unnið að þessari áætlunargerð á þessu sviði síðan. (Iðnrh.: Það er ekki fótur fyrir þessu.) Ekki fótur fyrir þessu?

Þetta er staðreynd, þetta er einföld staðreynd, að þessi verkfræðistofa hefur ekki haldið þessu verkefni áfram vegna þess að hæstv. ráðh. óskaði ekki eftir því.

Hæstv. ráðh. sagði með fyrirlitningartón að í þessari skýrslu hefði verið talið að hægt væri að nýta hitaorku til þess að hita upp 61% húsa í landinu, en nú væri það mat manna að hægt væri að nýta 80%, og mér virtust felast í þessu einhver ámæli í minn garð, að ég hefði ekki vitað nægilega um þetta. Nú er það þannig með mig að mér er ekki gefinn neinn sagnarandi. Ég var að lýsa niðurstöðum íslenskra sérfræðinga, þeirra sem best þekktu til. og ég reyni ekki að efla einhverja spádómsgáfu hið innra með mér, heldur reyni ég að styðja mál mitt með staðreyndum. Það hefur komið í ljós síðar, sem betur fer, að það eru horfur á því að hægt sé að nýta varmaorku víðar en þá var talið og að sjálfsögðu ber að gera það. Ég veit ekki hvort það verður raunsætt að gera það að því marki að hægt verði að hita 80% húsa með hitaorku. Ég geri ráð fyrir að allmargir staðir verði álitamál vegna þess að það þarf býsna miklar og dýrar stofnframkvæmdir til þess að koma hitaveitu á laggirnar og það getur verið álitamál hvort ekki er skynsamlegra að nota þar raforku. En þetta er atriði sem fram hefur komið við auknar rannsóknir og varla hægt að gagnrýna mig fyrir það að ég var ekki að nota brjóstvit mitt, heldur niðurstöður sérfræðinga.

En í sambandi við nýtingu innlendra orkugjafa, þá er samtenging allra orkuveitusvæða á Íslandi ákaflega brýn nauðsyn. Það var mörkuð stefna í tíð fyrrv. ríkisstj. að tengja þannig saman. Þegar vinstri stjórnin hætti störfum var búið að undirbúa svokallaða byggðalínu frá Suðurlandi til Norðurlands fullkomlega. Það var búið að kaupa efnivið til að hefja framkvæmdir þá um haustið. Það var ein fyrsta ákvörðun hæstv. ráðh. Gunnars Thoroddsens að hætta við þessa framkvæmd, láta efniviðinn liggja ónotaðan og hætta við þessa framkvæmd. Það var ein fyrsta ákvörðun hans að gera þetta. Og af þessu hafa hlotist býsna alvarlegir atburðir.

Ég vil minna á það að í sambandi við Kröfluvirkjun, sem samþ. var í tíð fyrrv. ríkisstj., var ákveðið að fara að framkvæmdum með verulegri gát. Talað var um að Kröfluvirkjun ætti ekki að koma í gagnið fyrr en 1978 til þess að hægt væri að framkvæma þar undirstöðurannsóknir. Slíkar undirstöðurannsóknir eru ákaflega mikilvægar að því er varðar jarðvarmaveitur, því að það verður að hanna vélbúnaðinn í samræmi við hitastig og eðli gufunnar, og til þess að fá fulla vitneskju um hvernig því væri háttað á Kröflusvæðinu þurfti að framkvæma boranir áður en vélar væru pantaðar. En þegar hæstv. iðnrh. hætti við að láta hefja lagningu línu norður hófst mikill áhugi hjá Kröflunefnd og ýmsum aðilum að flýta framkvæmdum við Kröflu og það var ráðist í að panta vélar áður en þessi vitneskja lá fyrir sem ég var að tala um. Ég tel þetta vera algerlega ábyrgðarlaus vinnubrögð og gagnrýni þau hér. Þetta er ekki tengt þeim jarðhræringum og eldvirkni sem komin er upp á svæðinu. Þetta er tengt vinnubrögðum, og þessi vinnubrögð hæstv. ráðh. voru algerlega ábyrgðarlaus. Ég vona sannarlega að þau valdi ekki tjóni, en þannig á ekki að vinna að málum og allra síst þegar við vorum að ráðast í stærstu varmaaflsvirkjun, eða aðra varmaaflsvirkjunina á Íslandi og þá einu stóru, því að við verðum vissulega að afla okkur reynslu á því sviði. Varmaaflsvirkjanir hafa þann stóra kost að það er hægt að ákveða stærð þeirra fullkomlega í samræmi við þarfir landsmanna hverju sinni. Það er ekki eins og í sambandi við fossa þar sem menn fá mikið magn af raforku á sama tíma án þess kannske að markaður sé tiltækur fyrir hana. Það er hægt að haga varmaaflsvirkjunum þannig að þær séu af þeirri stærð sem þarf á að halda hverju sinni, þannig að ég tel þessi vinnubrögð í sambandi við Kröflu hafa verið ákaflega vitaverð og ákaflega hættuleg, og ábyrgðin á því hvílir einvörðungu á hæstv. iðnrh. sjálfum. Ég hef heyrt í fjölmiðlum að hann hefur verið að skjóta sér mjög á bak við Orkustofnun. En ástæðan fyrir þessum vandkvæðum er sú, að hann hætti við að leggja stofnlínuna norður í land og gerði það að sínu fyrsta verki.

Ég rakti nokkuð í ræðu minni, þegar ég mælti fyrir þessu frv., störf sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna sem hingað voru kallaðir til að aðstoða við gerð iðnþróunaráætlunar og rakti þá hvernig ég hefði haldið á þeim málum: að setja á laggirnar n., sem ég hugsaði að yrði varanlegur þáttur í iðnrn. Það voru tveir menn á fullu kaupi og áttu að leggja á ráðin um heildaráætlun um þróun iðnaðar á grundvelli þeirra athugana sem hinir erlendu sérfræðingar og innlendir sérfræðingar höfðu gert fyrir okkur. Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni að þessi n. hefði verið lögð niður þegar hún hefði lokið störfum. Þetta er, eins og ég sagði áðan, annaðhvort fáfræði eða vísvitandi ósannindi. Ég rakti í framsöguræðu minni hvaða verkefni ég fól þessari stofnun. Þau verkefni voru í 7 liðum og ég rakti þá alla í ræðu minni. Og því fer fjarri að þessi n. hafi verið búin að vinna þau verk.Hún var aðeins búin að vinna eina grundvallarskýrslu og annað ekki. En hæstv. ráðh. lagði hana niður. Ég sagði að hann hefði lagt hana á hillur í iðnrn. og látið hana rykfalla eins og æðimörg plögg sem hafa verið unnin á undanförnum árum. Hann gerði grein fyrir því að hann hefði látið Iðnþróunarstofnun fá hana til sín og sagði í því sambandi að é,a, hefði staðið mjög illa að fjáröflun til þeirrar stofnunar, Iðnþróunarstofnunar, hann hefði heyrt það á forstöðumanni hennar að ég hefði staðið mjög illa að því. Mér þótti þetta dálítið undarlegt, því að ég hygg að ég hafi frekar haft orð á mér fyrir að ýta á eftir fjárveitingum til stofnana, sem undir mig heyrðu, heldur en hitt, og ég verð að segja það eins og er, að þau þrjú ár, sem ég var ráðh., sagði forstöðumaður Iðnþróunarstofnunarinnar mér aldrei að hann væri óánægður með þær fjárveitingar sem ég hefði gert till. um og náð hefðu fram að ganga. Hann orðaði það aldrei við mig. Hitt má vel vera. að þessi ágæti maður, sem hefur verið vonbiðill á lista Sjálfstfl. hér í Reykjavík í æðimörg ár, hafi talið að núv. hæstv. iðnrh. hefði gaman af að heyra einhver slík ummæli um mig. En hann kom því aldrei í verk að segja þetta við mig, og ég kannast ekki við að þetta ámæli eigi við rök að styðjast. En ráðh. fól sem sé þessari stofnun, Iðnþróunarstofnun, að fjalla um þessa iðnþróunaráætlun áfram. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð, því að ef gera á iðnþróunaráætlun verða að vera þátttakendur í henni frá iðnaðinum sjálfum, og í þeirri n., sem ég skipaði, voru tveir slíkir fulltrúar, núv. formaður Félags ísl. iðnrekenda og annar frá iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga. Í n. voru einnig opinberir fulltrúar, annars vegar frá Framkvæmdastofnun og hins vegar frá Seðlabankanum. Þessir fulltrúar voru allir látnir hætta störfum. En það liggur í hlutarins eðli að ekki er hægt að búa til iðnþróunaráætlun í einhverri innilokaðri stofnun þar sem einvörðungu starfa sérfræðingar. Það verður að semja slíka áætlun í náinni samvinnu við iðnaðinn sjálfan og í samvinnu við þær stjórnarstofnanir sem fjalla um fjármál, því að þarna er um að ræða mjög veigamikla fjárfestingu, enda er mér kunnugt um að það hefur ekkert verið unnið að þessu verkefni í þessari stofnun, — ekki neitt.

Hæstv. ráðh. minntist á það frv. sem ég flyt hér um Iðntæknistofnun, að ég hafi upphaflega óskað eftir því að iðnn. Nd. flytti frv., og hann spurði hvers vegna ég hefði gert þetta. Mér er ánægja að rifja það upp. Þetta frv. var flutt í ársbyrjun 1974. Vinstri stjórnin studdist sem kunnugt er við nauman þingmeirihl., en það gerðist í ársbyrjun 1974 að einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar, Bjarni Guðnason, lýsti yfir því að hann væri orðinn andvígur ríkisstj. Þá var komin upp sú staða hér á Alþ. að það var ekki um að ræða meiri hl. ríkisstj. í báðum deildum, og viðbrögð stjórnarandstæðinga, Sjálfstfl. og Alþfl., urðu þau, að þeir lýstu opinberlega yfir því að þeir mundu snúast gegn hverju einasta máli sem ríkisstj. flytti, alveg án tillits ti1 þess hvort þeir væru sammála því eða ekki. (Gripið fram í: Þetta er slúður.) Þetta er rétt. Ég skal vitna í þingtíðindi ef hæstv. ráðh. óskar eftir því. Slík ummæli féllu hér í þinginu, að stjórnarandstaðan mundi fella öll mál, sem ríkisstj. flytti, hvort sem hún væri með þeim eða móti. (GÞG: Hver sagði þetta?) Þetta sögðu fulltrúar bæði Alþfl. eða Sjálfstfl. og gott ef hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði þetta ekki einu sinni sjálfur. (GÞG: Þetta eru hrein ósannindi.) Nei, ég skal fletta þessu upp í þingtíðindum og flytja það hér eins og það var sagt. Þetta er staðreynd, að þannig féllu orð hér á hinu háa Alþ., og einmitt þess vegna freistaði ég þess hvort þetta mál, sem ég vissi að var mikið áhugamál iðnaðarins á Íslandi, gæti fengið afgreiðslu ef það væri ekki flutt sem stjfrv., heldur af n. Ég var að reyna að kanna hvort alþm. væru fáanlegir til þess að fjalla málefnalega um slíkt mál, þó að hatrið á ríkisstj. sjálfri gerði það að verkum að þeir treystu sér ekki til þess að fjalla um stjfrv. á málefnalegan hátt. (Iðnrh. Var ekki ástæðan önnur, ágreiningur í ríkisstj.?) Ekki varð ég var við það. Ástæðan var þessi.

Það var, eins og menn muna, mikið rætt hér á Alþ. á sínum tíma, eins og ég minntist á áðan í þeim orðum sem ég beindi til hv. þm. Jóhanns Hafsteins, um álbræðsluna og um orkufrekan iðnað í því sambandi. Ég markaði þá stefnu að ef íslendingum þætti ráðlegt að ráðast í orkufrekan iðnað, þá ættu íslendingar að eiga meiri hl. í slíkum fyrirtækjum og það yrði að velja þá grein orkufreks iðnaðar sem væri þannig að samstarfsaðilinn réði hvorki yfir hráefnum eða öðrum aðföngum til framleiðslunnar né yfir markaðnum á eftir. Þetta væri grundvallaratriði og að þessu yrði að standa í einu og öllu. Sjálfstfl. var andvígur þessari stefnu, og hæstv. iðnrh. hefur sýnt það í verki aftur og aftur. Þegar bann tók við viðræðunum við bandaríska auðhringinn Union Carbide um kísiljárnverksmiðju í Ilvalfirði var það ein aðalósk hans að eignarhlutur íslendinga yrði lækkaður. Þetta hafði auðvitað þau áhrif á auðhringinn að hann gekk á lagið með að reyna að fá miklu hagstæðari kjör en hann hafði fallist á áður, og honum tókst að ná því fram vegna þess að hann fann þennan veikleika hjá hæstv. ráðh. Svo varð ekkert úr þessari framkvæmd, en hafnar viðræður í staðinn við norska auðhringinn Elkem. Mér er fullkunnugt um það að hæstv. ráðh. fór fram á það við Elkem í upphafi að Elkem ætti meiri hluta í þessu fyrirtæki. (Iðnrh.: Hver hefur sagt hv. þm. þetta?) Það hefur sagt maður sem veit deili á því. Ég skal ekki segja hver það var, því að ég veit að hæstv. ráðh. mundi þá beita hefndaraðgerðum gegn honum, en ég veit að þetta er staðreynd. (Gripið fram i.) Nei, þetta er staðreynd, þetta veit ég ákaflega vel um, að hæstv. ráðh. fór fram á þetta. En það strandaði á því að norðmenn hafa þá meginreglu að eiga sjálfir meiri hluta í öllum orkufrekum iðnfyrirtækjum í sínu landi og hafa lagt fyrir fyrirtæki norsk, sem eru starfandi á þessu sviði, að þau verði að hegða sér þannig í samvinnu við aðra, þannig að það var Elkem sem neitaði þessari ósk ráðh. Það var Elkem sem neitaði því. En að sjálfsögðu er samningsstaða af þessu tagi algerlega fráleit.

Hæstv. ráðh. er þeirrar skoðunar að hér eigi að risa erlend iðnfyrirtæki í vaxandi mæli. Nú fyrir skömmu voru hér sendimenn frá svissneska auðhringnum Alusuisse, en við höfum þá reynslu af samstarfi við hann sem ég var að rekja áðan. Þessum viðræðum lauk með því að það var undirrituð stefnuyfirlýsing af hæstv. iðnrh. og aðalforustumanni Alusuisse um sameiginlega stefnumörkun á næstu árum. Þessi stefnumörkun var í fjórum liðum.

Hún var um að stefna að því að bæta við nýjum kerskála í Straumsvík. Þetta hefur ekki verið lagt fyrir Alþ., en þetta er stefna. hæstv. ráðh., enda þótt fyrir liggi sú reynsla sem ég var að lýsa áðan, að þarna er um að ræða iðnað af því tagi sem við getum ekki ráðið yfir vegna þess að samstarfsaðilinn ræður yfir öllu, bæði fyrir og eftir framleiðsluna á Íslandi.

Það var einnig undirritað að hæstv. ráðh. mundi standa að sameiginlegri könnun á orkuöflun og iðnframleiðslu á Austurlandi í sambandi við Alusuisse. Og það er sérstök ástæða til að vekja athygli á að þarna er rætt um könnun á orkuöflun. Það var þó meginregla þegar samið var við auðhringinn í upphafi að íslendingar ættu að ráða yfir orkuöfluninni gersamlega. En nú hefur núv. hæstv. iðnrh. fallið frá þessari stefnu. Hann hefur gert það í verki. Hann bauð fulltrúum frá auðhringnum að ferðast um Austfirði á síðasta ári til þess að sjá þessa staði með eigin augum og hann hefur látið þá fá hvers konar gögn um þessar framkvæmdir. Hann ætlast til þess að auðhringurinn standi að orkuöflunarfyrirtækjum einnig. Þetta er í samræmi við hugmyndir sem upp komu hjá auðhringnum fyrir allmörgum árum um að Alusuisse og íslendingar stofnuðu nýjan, alþjóðlegan auðhring. Þar áttu íslendingar að leggja fram vatnsorku sína, Alusuisse ætlaði að leggja fram námur sem auðhringurinn ræður yfir víða um heim, báxitnámur, og svo átti að koma til þriðji aðili eða fleiri aðilar og leggja til fjármagn. Þetta átti að verða nýr alþjóðlegur auðhringur. Og ég sé ekki betur af þessari undirskrift hæstv. ráðh. en hann sé inni á þessari fáránlegu hugmynd.

Í þessari yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. skrifaði undir, var einnig rætt m súrálsverksmiðju, að haldið yrði áfram könnun á því að koma upp súrálsverksmiðju á Íslandi. Og þar er um að ræða þetta sama. Það er hlekkur í keðju sem auðhringurinn ræður gersamlega yfir og við ráðum á engan hátt yfir, þannig að ef slíkum fyrirtækjum væri komið upp hér, þá yrðu það erlend fyrirtæki og þau mundu vafalaust gæta þess að þau yrðu látin sýna reikningslegt tap hér á Íslandi, svo að ekki þyrfti að borga eðlilega skatta og skyldur af.

Fjórða atriðið í þessari yfirlýsingu var mildileg ósk íslensku ríkisstj. eða hæstv. iðnrh. um að Alusuisse stæði við loforð sitt, sem þeir voru knúnir til að gefa í tíð fyrrv. stjórnar, að setja upp hreinsibúnað á álverið í Straumsvík, en það loforð hefur verið svikið og ástandið vegna þess er að verða hættulegra og hættulegra.

Undir þetta skrifaði hæstv. ráðh. aðeins fyrir mánuði. Þetta eru hugsjónir hans í sambandi við iðnþróun á Íslandi.

Ég vil benda á það að á milli hæstv. iðnrh. og mín er á þessu sviði um að ræða grundvallarágreining. Eins og ég rakti áðan tel ég að jafnvel þó við ráðumst inn á svið orkufreks iðnaðar verði að fylgja þar algerlega þeirri meginreglu að íslendingar eigi meiri hluta í slíku fyrirtæki og að enginn annar aðili ráði yfir hvorki aðföngum né sölu á efninu. Þetta er grundvallaratriði, og á þennan hátt getum við byggt upp orkufrekan iðnað til að styrkja sjálfstæði okkar og styrkja efnahagslíf okkar. En ef við hleypum útlendingum inn á þetta svið, þá erum við að veikja efnahagslegt sjálfstæði okkar og leiða yfir okkur stórvægilega hættu.

Ég minntist áðan á að hæstv. iðnrh. lét í ljós við Elkem að hann vildi heldur að íslendingar ættu minni hl. í þessu fyrirtæki. Hæstv. iðnrh. hefur talað við fleiri fyrirtæki í Noregi. Hann hefur rætt við Norsk Hydro um að koma upp álveri við Eyjafjörð. Hæstv. ráðh. hefur að vissu ekki gert mikla grein fyrir þessu máli opinberlega og það virðist hafa komist á vitorð annarra fyrir slysni frekar en að hæstv. ráðh. hefði áhuga á því að gera grein fyrir stefnu sinni. En þarna er um að ræða sams konar fyrirbæri og ég hef verið að gagnrýna, álbræðslu, sem hentar ekki okkur íslendingum vegna þess að þar erum við aðeins hlekkur í keðju sem erlendir aðilar ráða algerlega yfir, alveg án tillits til þess hvernig staðhættir eru þarna fyrir norðan og hvaða áhrif þetta mundi hafa á landbúnað, það er annað mál. (Iðnrh.: Þessar viðræður við Norsk Hydro hófust í tíð fyrrv. ríkisstj.) Nei, ekki á þessu sviði, því fer mjög fjarri. En þetta mótar allar aðgerðir hæstv. ráðh., að hann telur að erlendir aðilar eigi að byggja upp iðnað á Íslandi. Þetta mótar t.d. hugmyndir hans um ylver. Þar ræðir hann við hollenskt fyrirtæki um að hér ætti að koma upp þætti í keðju þar sem samstarfsaðilinn, hollenska fyrirtækið, ræður yfir aðdragandanum öllum og einnig sölunni, þannig að hinn erlendi aðili er þarna sá sem öllu ræður. Við erum aðeins hlekkur í keðju. (Iðnrh.: Það er bara sá misskilningur að ég hef aldrei rætt við þetta fyrirtæki á ævi minni.) Ja, einhver hefur rætt við það, því að þessar viðræður eru í gangi nú þegar. (Iðnrh.: Ylrækt heyrir undir landbrn., eins og þm. veit.) Ylrækt, ég veit að lög um stjórnarráðið eru ákaflega einkennileg og ýmsir iðnaðarþættir heyra undir önnur rn., en það ætti að vera verkefni hæstv. iðnrh., ef hann hefur nokkurn áhuga á sínum störfum, að fylgjast með iðnaðarframkvæmdum á Íslandi, jafnvel þótt þær heyri formlega undir annað rn. En þarna er um að ræða sömu hugsunina, að við eigum að leggja til hlekk í keðju sem erlendir aðilar ráða yfir. Þetta eru hugmyndir sem þarna eru uppi eins og á öðrum sviðum. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að ég tel að við eigum ákaflega stóra möguleika einmitt á sviði ylræktar, en ekki með þessu lagi. Það eru ríki í Mið- og Suður-Evrópu sem hafa það sem stóriðnað að framleiða grænmeti, tómata og annað slíkt og flytja þetta í flugvélum daglega til þjóða í Norður-Evrópu, til Norðurlanda, til Englands. Þetta gera t.a.m. tékkar og hafa ekki þær aðstæður sem við höfum með heita vatninu. Okkur bíða þarna mjög stór verkefni. En við þurfum ekki að gera þetta með því að láta erlendan aðila ráða yfir þessari framleiðslu. Við eigum að gera þetta sjálfir.

En einmitt í því hvernig staðið er að slíkum verkefnum birtist ákaflega stór grundvallarágreiningur. Þegar íslendingar tóku við stjórn landsins smátt og smátt í upphafi þessarar aldar var reynt að koma hér á kapítalisma, auk þess var að vísu virk hér mjög myndarleg samvinnuhreyfing og forustumenn hennar í upphafi voru menn sem aðhylltust sósíalisma. En aðalstefnan var sú, að hér skyldi komið upp kapítalísku hagkerfi. Það kom í ljóst, einkanlega á kreppuárunum fyrir stríð, að þetta stóðst ekki. Kapítalisminn var þess ekki megnugur að tryggja eðlilega þjóðfélagshætti og framfarir á Íslandi og það varð hlutverk ríkisvaldsins og sveitarfélaga í vaxandi mæli að tryggja framkvæmdir á þessu sviði. enda er nú svo ástatt að nær 2/3 af öllu framleiðslukerfinu á Íslandi eru í höndum ríkis, sveitarfélaga og samvinnuhreyfingar. En innan Sjálfstfl. hafa ævinlega verið ofstækismenn sem hafa tekið hina kapítalísku hugsjón fram yfir augljósar þarfir íslendinga. Þetta verkaði þannig á þennan hóp manna, að þeir komust að þeirri niðurstöðu að íslendingar gætu ekki verið sjálfstæðir, þeir yrðu að verða hluti af stærri heild og það yrði að fela erlendum aðilum að byggja hér upp atvinnurekstur, því að íslenskir kapítalistar gætu það ekki. Þetta viðhorf hefur ákaflega oft komið fram frá Sjálfstfl. Það kom m.a. fram þegar bretar sóttu um inngöngu í Efnahagsbandalagið. Þá spratt upp mikill áhugi innan Sjálfstfl., að íslendingar ættu að gera slíkt hið sama og verða útkjálki eða útsker í þessu mikla bandalagi. Þá birtist í Morgunblaðinu, man ég var, yfirlýsing sem var undirrituð af fjölmörgum áhrifamiklum stofnunum þar sem lögð var áhersla á að þetta yrði gert og það átti að leysa vandamál Íslands með því að gera Ísland að hluta af þessu stóra bandalagi.

Ég man vel eftir grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins nokkrum árum seinna, eftir að Bjarni Benediktsson, sem þá var leiðtogi í Sjálfstfl., var látinn. Þessa grein skrifaði Matthías Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins. Hún var alllöng. Hún var lýsing á Bjarna og í loknu lýsti hann samkvæmi eða samkomu sem var á heimili Bjarna einmitt um þetta leyti, þegar umr. voru uppi um að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið og Morgunblaðið lét uppi skoðanir sínar á því. Matthías Johannessen greindi frá því í þessari grein, að á þessu samkvæmi á heimili hans hefði Bjarni risið upp og haft mjög þung orð um þetta viðhorf, þetta mætti ekki gerast, og hann vitnaði m.a. í baráttu föður síns og annarra manna fyrir því að Ísland yrði að vera sjálfstætt. Það var Bjarni Benediktsson sem kvað þessa hugsun niður hjá Sjálfstfl. þá.

Það er minna um slíkar raddir innan Sjálfstfl. núna. Það virðist vera keppikeflið að reyna að tryggja kapítalisma á Íslandi, en láta sjálfstæðið í staðinn. Þarna er grundvallarágreiningurinn. Það er þess vegna sem hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen leggur til hliðar það sem verið var að vinna í tíð fyrrv. ríkisstj. að örri iðnþróun á Íslandi. En áhugi hans beinist allur að því að virkja í þágu útlendinga, að fá útlendinga til hvers konar framkvæmda á Íslandi. Og þetta er ákaflega alvarlegur grundvallarágreiningur. Ég vil sérstaklega beina þessu til hv. formanns Framsfl. sem þarna situr einnig, vegna þess að hann lýsti stuðningi við þá stefnu sem mótuð var í tíð fyrri ríkisstj., að iðnþróun á Íslandi yrði að vera íslensk, og ég vænti þess að Framsfl. haldi fast við þá skoðun sína, jafnvel þótt hæstv. iðnrh. sé að reyna að koma gagnstæðri stefnu á framfæri.