08.12.1976
Neðri deild: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

78. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig furðaði satt að segja mjög á þeim ummælum hv. síðasta ræðumanns, að af hálfu andstæðinga fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi því verið lýst yfir að þáv. stjórnarandstöðuflokkar mundu greiða atkv. á móti sérhverju máli sem sú ríkisstj. flytti, hvort sem það væri gott eða vont, hvort sem þeir væru í sjálfu sér fylgjandi því eða ekki. Ég svara hér auðvitað eingöngu fyrir minn flokk eða þingflokk Alþfl., og ég leyfi mér að fullyrða að á þeim þrem árum, sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sat að völdum, hefur enginn þm. Alþfl. látið eitt orð, eina setningu falla í þá átt að hana megi skilja þannig að flokkurinn mundi greiða atkv. á móti sérhverju stjfrv., hvert sem svo væri eðli þess. (MK: Ég var að tala um 1974.) Um 1974? (MK: Já, ég var að tala um árið 1974.) Ja, það gildir áreiðanlega það sama um það ár og öll þau ár sem stjórn Ólafs Jóhannessonar var við völd, að þannig hefur enginn þm. Alþfl. tekið til orða, að með nokkurri sanngirni eða skynsemi megi skilja þau á þann hátt sem hv. þm. vildi vera láta. Ég hefði gaman af að heyra þau ummæli lesin úr þingtíðindum eftir einhverjum þm. Alþfl. Það skiptir engu máli hvort átt er við árið I974 eða allan valdatíma ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, svokallaðrar vinstri stjórnar. Því var þvert á móti lýst yfir af hálfu þingflokks Alþfl. þegar sú stjórn tók við völdum, að þingflokkur Alþfl. mundi láta málefni ráða í afstöðu sinni til þeirra mála sem sú ríkisstj. flytti, þó að hann væri kominn í stjórnarandstöðu eftir að hafa átt stjórnaraðild í 15 ár. Það var með því fyrsta sem sagt var í mikilvægum umr. hér á hinu háa Alþ. eftir að Alþfl. lenti í stjórnarandstöðu, að hann mundi að sjálfsögðu fylgja sérhverju því góðu máli sem sú ríkisstj., sem hann almennt var í andstöðu við, flytti, alveg án tillits til þess að það væri flutt af ríkisstj. og Alþfl. væri í stjórnarandstöðu. Ég skal styðja það tveimur dæmum til þess að lengja ekki mál mitt, að Alþfl. fór á þessum árum öllum, og hefur eflaust gert það 1974 líka, eftir þessari reglu.

Fyrra dæmið skal vera fyrsta stórmálið sem vinstri stjórnin svokallaða flutti á fyrsta þingi sínu, sem var frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Það mál taldi þáv. ríkisstj., sem Alþfl. var í andstöðu við — harðri andstöðu við, vera stórmál og það var stórmál. Þó að Alþfl. gagnrýndi einstök atriði í frv., fengi sumum atriðum breytt, en öðrum till. hans væri hafnað, þá greiddi þingflokkur Alþfl. atkv. með þessu frv. sem var stjfrv. Þetta er í reynd auðvitað í algerri andstöðu við ímynduð ummæli hv. þm. (Gripið fram í.) Þá skal hv. þm. nefna í síðari umr. við hvað hann á og segja það þá skýrt. (Gripið fram í.) Ja, við hvaða mál hann á. (MK: Ég á vín árið 1974.) Það er nú satt að segja varla hægt að — jæja, ég skal ekki segja meira. Ég óska eftir því að þm. sýni sæmilega stillingu og láti menn í ræðustólnum fá frið til þess að tala.

Hitt dæmið, sem ég skal nefna um að Alþfl. hefur að engu leyti hegðað sér þannig sem hv. þm. vildi vera láta, er annað merkt stjfrv. frá þessum árum sem kom til afgreiðslu 1974, en það er frv. um grunnskóla. Það mál er enn þá skýrara dæmi um það hversu fjarri það er þingflokki Alþfl. að láta það ráða afstöðu sinni hvort ráðh., sem hann er í andstöðu við, flytur mál eða einhver annar. Þannig var mál með vexti að fyrrv. ríkisstj. Bjarna Benediktssonar, eða ég sem menntmrh. hennar hafði tvívegis flutt frv. til l. um grunnskóla, en það frv. ekki náð fram að ganga. Eftirmaður minn í sæti menntmrh flutti þegar á fyrsta þingi eftir að við vorum komnir í stjórnarandstöðu þetta frv. í mjög lítið breyttri mynd. Það náði ekki fram að ganga. og þannig fór líka á næsta ári þeirrar hæstv. ríkisstj. Málið er síðan tekið upp til lokaafgreiðslu á síðustu þingdögum þriðja þings þeirrar hæstv. ríkisstj. Hæstv. þáv. menntmrh. lagði að sjálfsögðu mikla áherslu á að það mál næði fram að ganga. En í ljós var komin ástæðan fyrir því að málið hafði ekki náð fram að ganga á tveim þingum áður. Það átti ekki nægilegt fylgi innan stjórnarflokkanna sjálfra. Það var komið alveg skýrt og greinilega í ljós, að það var komið undir því hvort einhver hluti eða einhverjir menn úr stjórnarandstöðunni mundu vilja styðja frv., hvort það næði fram að ganga eða ekki. Þetta var á síðustu dögum síðasta þings fyrrv. ríkisstj. M.ö.o.: ef allir stjórnarandstæðingar hefðu greitt atkv. á móti frv. hefði það fallið. Þetta var alveg augljóst. Lokaafgreiðslan sýnir líka að þetta er rétt, það hefði fallið.

Nú kynni einhver að segja að það hefði verið sérstök freisting, í hita, í sérstökum hita málflutnings og baráttu á síðustu dögum þings þegar kosningar voru fyrirsjáanlegar, — að það hefði verið mikil freisting fyrir stjórnarandstöðuflokk að gera ríkisstj. þá svívirðu að láta mikið stjfrv. falla eftir næstum þriggja ára baráttu fyrir því. Sérstaklega kynni einhver að segja að það hefði verið sérstök freisting fyrir flokk fyrrv. menntmrh. að láta þáv. menntmrh. verða fyrir þeirri hneisu. (Gripið fram í.) Það er það sem ég er að segja, að við vorum, — má ég fá að ljúka þessari frásögn í friði? Það hefði kannske verið sérstök freisting fyrir flokk fyrrv. menntmrh. að gera eftirmanni hans þá hneisu, þá alveg sérstöku hneisu, að láta frv., sem hann hafði barist fyrir góðri baráttu næstum þrjú ár að næði fram að ganga, að láta það falla á atkv. sjálfra stjórnarsinnanna. Ef þingflokkur Alþfl. hefði setið hjá og frv. hefði fallið, því að Sjálfstfl. var á móti því næstum allur eins og málum var komið, í öllu falli hjáseta t.d. Alþfl. - ég tala eingöngu um hann — hefði dugað til þess að frv. hefði fallið. En ég sem formaður þingflokksins skaut á þessum hitadögum á fundi í þingflokki Alþfl. þar sem við ræddum málið. Ég lagði til við þingflokkinn að við gættum þess að vera allir viðstaddir atkvgr. þegar frv. kæmi til lokaafgreiðslu og greiddum atkv. með frv., sem við gerðum allir og vorum allir á einu máli um að gera. Það var m.ö.o. þingflokkur Alþfl. sem bjargaði þessu stjfrv. hæstv. fyrrv. menntmrh. og er stoltur af að hafa gert það. Það væri ekki orðið að lögum ef þingflokkur Alþfl. hefði fallið fyrir þeirri freistingu sem hv. fyrrv. ræðumaður er að skrökva upp á Alþfl. að hann hafi haft sem aðalreglu. Þetta er skýrt dæmi um hversu mikil fjarstæða þessi fullyrðing er. Ég tel, að Alþfl. hafi — má ég biðja forseta um að biðja hv. þm. um að stilla sig? (Forseti: Hv. þm. eru beðnir að stilla framítökum í hóf. Það hefur verið þingvenja að reyna að koma í veg fyrir frammíköll. en þau mega alls ekki ná því marki að þau trufli mál þeirra, sem orðið hafa.) Ég þakka hæstv. forseta. Ég hef í raun og veru lokið við að segja það sem ég þurfi að segja. Það var að andmæla því að af hálfu Alþfl. hafi því nokkurn tíma verið lýst yfir að hann mundi greiða atkv. gegn málum af því að þau væru stjfrv. Þvert á móti var því marglýst yfir, hefur verið og mun verða áfram, að afstaða Alþfl. mun fara eftir því hvert málið er, alveg án tillits til þess hver flytur það, jafnvel þó að það sé stjórn sem hann almennt séð er í andstöðu við. Þannig hafa vinnubrögð flokks Alþfl. verið á þeim árum sem hann hefur verið í stjórnarandstöðu eða síðan 1971. Þau voru þannig 1972, 1973, 1974 og 1975 og verða það út árið 1976, það get ég fullvissað hv. fyrrv. ræðumann og alla aðra hv. þm. um, enda tel ég það vera einu afstöðuna sem sýni ábyrga stjórnmálaskoðun og ábyrga stjórnmálahegðun. Ég hef nefnt tvö stórmál til sönnunar því að þannig hefur þingflokkur Alþfl. hegðað sér hingað til, og þannig mun hann hegða sér áfram.