09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Frsm. (Ellert B. Schram):

Hæstv. forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem fram kom í framsöguræðu minni þegar ég gerði grein fyrir nál. um þau frv. sem hér eru á dagskrá. Ég gat þess þá að eðlilegt væri að athuga milli umr. hvort ekki þyrfti að lagfæra nokkur ákvæði í frv. til l. um rannsóknarlögreglu ríkisins með hliðsjón af breyt. sem varð á 3. gr. frv., og í samræmi við þau ummæli hefur allshn. nú lagt fram nýtt þskj., nr. 142, þar sem gerðar eru breyt. á nokkrum greinum frv. Ég tel að þær þurfi ekki útskýringa við, þær eru allar nokkuð augljósar og skiljanlegar og eru, eins og fyrr segir, til frekari útlistunar á því meginatriði sem ákveðið er með 3. gr. um gildissvið og starfsumdæmi þau sem rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum.

Ég vil aðeins geta þess, að við afgreiðslu á þessum till. er nauðsynlegt að sjálfsögðu að taka til afgreiðslu 3. tölul. á þskj. 118 sem varðar breyt. á 10. gr. um gildistöku laganna, en það var ekki sett inn á hið nýja þskj.