09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

12. mál, meðferð opinberra mála

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég brtt. við 14. gr. frv. um það að heimild dómara til að skipa sökunaut réttargæslumann skyldi vera skylda hans. Þessa brtt. tók ég aftur til 3. umr. En í ljósi þeirra umr. sem fram fóru þá hef ég ákveðið að taka till. á þskj. ll9 endanlega til baka, en leyfa mér að flytja nýja í svolítið breyttu formi í þeirri von að samstaða náist um hana hér á þinginu. Hún er of seint fram komin, hæstv. forseti, og verð ég því að æskja þess að forseti leiti afbrigða. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Dómari skal skipa sökunaut réttargæslumann við rannsókn máls hjá rannsóknarlögreglu ríkisins, skv. ákvæðum 2. og 3. mgr. eftir því sem þau eiga við, nema það sé talið varhugavert vegna rannsóknar málsins.“

Þetta síðasta er varnagli sem ég tel rétt að slá vegna efasemda sem komu fram í ræðum hv. þm. við e. umr. sem töldu skyldu dómara hugsanlega geta orðið til þess að mál tefðust. Ég bendi á að þetta er viðbót við 80. gr. laga um meðferð opinberra mála og er því alls ekki um að ræða skilyrðislausa skyldu. Í 80. gr. eru talin upp þau skilyrði sem verða að vera fyrir hendi til þess að sökunautur fái verjanda samkv. ósk og til þess að dómari skipi sökunaut réttargæslumann án óskar. Eftir því sem þessi ákvæði gætu átt við málsmeðferð hjá rannsóknarlögreglu ríkisins, þá munu þau gilda. Það er því ekki rétt, sem kom hér fram við 2. umr., að þetta sé alveg skilyrðislaust og gæti þar með tafið málsmeðferð, og ég held að þessi viðbót mín, sem ég hef orðað svo: „nema það sé talið varhugavert vegna rannsóknar málsins“, gefi þá dómara enn meira vald til þess að meta málin.

Ég legg áherslu á það sem segir í álitsgerð lagadeildar Háskóla Íslands, en ákvæðið eins og það er nú í frv. um heimild dómara til að skipa réttargæslumann er þaðan komin, en í álitsgerð lagadeildarinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar frumrannsókn færist úr hendi dómara yfir til rannsóknarlögreglu getur hlutlaus dómari ekki haft sama eftirlit með henni og áður. Hætta er á því að staða sakborninga kunni við breytinguna að versna frá því sem nú er. Brtt. þeim, sem hér eru settar fram, er ætlað að rétta hlut sakbornings nokkuð að þessu leyti. Áþekk réttarvernd til handa sakborningi er fyrir hendi í nágrannalöndunum.“

Svo segir í álitsgerð lagadeildar. Ég hef kynnt mér norsku lögin um þetta og þar er skilyrðislaust kveðið á um skyldu dómara í þessum efnum og norðmenn ganga miklu lengra í réttarvernd en gert er hér á Íslandi og lengra en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég vil ennfremur láta þess getið hér til styrktar máli mínu að ég ræddi í gærkvöld við Steingrím Gaut Kristjánsson. Hann er einn þeirra þriggja, sem fjölluðu um frv. af hálfu lagadeildar, og einn þeirra þriggja, sem standa að þessari álitsgerð, og ég bar þessa till. mína undir hann og hann var henni skýlaust meðmæltur.

Þá vil ég enn fremur geta þess, að mér hefur borist óvæntur stuðningur frá Lögmannafélagi Íslands. Hv. alþm. hafa fengið á borðin bréf frá stjórn Lögmannafélagsins undirritað af varaformanni þess, Jóni Finnssyni, og ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa það bréf:

„Á stjórnarfundi Lögmannafélags Íslands hinn 8. þ. m. var einróma samþ. að skora á hv. Alþ. samþ. brtt. Svövu Jakobsdóttur við 14. gr. frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, nr. 74 21. ágúst 1974. Jafnframt því að taka undir rök lagadeildar Háskóla Íslands um nauðsyn þess að tryggja betur réttarstöðu sakbornings vegna fyrirhugaðrar breytingar á rannsókn sakamála telur stjórn Lögmannafélagsins einsýnt að brtt. Svövu við 14. gr. frv. horfi til meira réttaröryggis en 14. gr. frv. í núverandi mynd gerir. Með samþykkt brtt. mundi réttarstaða sakbornings verða svipuð við rannsókn máls hjá rannsóknarlögreglu og við dómsrannsókn, en sömu rök eru fyrir nauðsyn þess að tryggja réttaröryggi sakbornings við rannsókn máls hjá rannsóknarlögreglu og við rannsókn þess fyrir dómi.“

Ég vil eindregið hvetja hv. alþm., áður en til þessarar atkvgr. kemur, að íhuga vandlega hvort það sé ekki skylda okkar að tryggja réttaröryggi einstaklingsins betur en gert er nú, a.m.k. eyða ekki miklu minna máli í réttaröryggi sakbornings heldur en í yfirbyggingu lögreglumála á Íslandi.