09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

12. mál, meðferð opinberra mála

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Svava Jakobsdóttir hefur hér lokið við grg með nýrri brtt. við frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála. Ég tel að þessi brtt. hv. þm. sé til bóta frá frv. eins og það liggur fyrir frá hv. allshn. Þó er ekki í þessari brtt. atriði sem mér finnst skipta nokkuð miklu máli, og það er það atriði að sakborningur eigi þess kost að hafa verjanda áður en til úrskurðar um gæsluvarðhald kemur. Af þeirri till., sem hér liggur fyrir, er ekki ljóst hvort sakborningur er nokkuð betur settur eða miklu betur settur en núverandi lög gera ráð fyrir skv. 1. og 2. tölulið 80. gr., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Eftir ósk sökunauts skal skipa honum verjanda:

1. Meðan hann sætir gæsluvarðhaldi.

2. Ef hann er sakaður um brot er að lögum getur valdið honum missi þjóðfélagsréttinda, svo sem missi stöðu, kosningarréttar eða kjörgengis, atvinnuréttinda o.s.frv.“

Og 3. liður kveður enn nánar á um þetta. En hins vegar sýnist mér varðandi mann, sem handtekinn er og getur enga vörn sér veitt gagnvart lögreglu sem veitir honum aðför, tryggi þessi brtt. alls ekki rétt sakborningsins, þannig að ég vil leyfa mér að bera hér fram brtt. sem er nokkuð í sama anda, en að mínu mati gengur lengra til þess að tryggja rétt sakborningsins. Þessi brtt., sem ég hef í huga, mundi bætast aftan við 1. málsgr. 14. gr. frv., eins og það liggur fyrir nú, og hljóðar þannig:

„Sé þess kostur án sérstakra tafa eða erfiðleika skal verjandinn skipaður áður en dómarinn tekur kröfu um gæsluvarðhald fyrir, þannig að koma megi vörn við.“

Hér er farið hóflega í sakirnar, þannig að ef sýnt væri að þetta mundi valda óhæfilegri töf og óþægindum við upptöku máls, þá er hér í upphafi talað um að „sé þess kostur án sérstakra tafa eða erfiðleika.“ Þetta er að vísu lagt þarna undir mat hlutaðeigandi lögregluaðila, en ég hygg að þetta sé mikilvægt þeim manni sem er í þeirri stöðu að hann er e.t.v. alsaklaus tekinn fastur og án þess að hann komi nokkrum vörnum við færður í gæskuvarðhald. Ég vil benda á það að í almennum reglum, sem settar hafa verið af samtökunum Amnesty International sem við erum aðilar að, er skýrt tekið fram að því er varðar meðferð fanga um þetta atriði, og ég held að ég ætti að lesa upp grein í þessum grundvallarreglum um meðferð fanga sem þessi alþjóðlegu samtök hafa sett sér, þá held ég að ég lesi a.m.k. eina setningu eða eina málsgr. sem skýrir hvað fyrir þeim vakir. Ég veit að flestir skilja ensku svo ég hirði ekki um að þýða það, en les það á ensku, en í 92. af 93 greinum, sem fjalla um meðferð fanga, segir svo, með leyfi forseta:

„An untried prisoner shall be allowed to inform immediately his family of his detention and shall be given all reasonable possibilities for communicating with his family and friends and for recciving visits from them subjeet only to such restrictions and supervision as is neeessary in the interest of the administrations of justiee and of the security and good order of the institution.“

Þetta er ákvæði sem ekki er til í íslenskum lögum, en ég tel í rauninni fullkomið mannréttindamál, að borgari, e.t.v. alsaklaus, sé ekki hnepptur í gæsluvarðhald án þess að hann fái nokkrum vörnum við komið frá lögfræðilegu sjónarmiði.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir vitnaði í norsk lög. Það er alveg rétt, norðmenn hafa annað viðhorf til þessa atriðis en íslensk löggjöf á þessu sviði, en eins og kunnugt er hafa núgildandi lög um meðferð opinberra mála á Íslandi, nr. 74 frá 1974, verið túlkuð þannig að sökunautur eigi ekki rétt til að fá verjanda fyrr en eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður hefur verið kveðinn upp. En þarna er þessu atriði öðruvísi farið í norskri löggjöf á þessu sviði, og ég vil leyfa mér að vitna í norsk lög um þetta efni, í 100. gr., og þar verð ég enn að biðja hv. dm. að reyna á málakunnáttuna, því að þetta eru hálögfræðileg atriði sem óvíst er að ég kæmi fyrir á réttu lögfræðilegu máli á íslensku, en þessi 100. gr. í norsku lögunum um meðferð opinberra mála hljóðar svo:

„Videre skal sigtede ha forsvarer når det er avsagt kjennelse om bruk af varetektsfengsel. Kan det skje uten særlig ulempe eller tidspille skal forsvarer oppnævnes for fengslingsspörgsmålet pröves.“

Þessi brtt., sem ég hef lagt hér fram, er í rauninni eða á að vera nokkurn veginn orðrétt þýðing á þessu norska ákvæði, en samkvæmt íslensku lögunum, 80. gr., er sökunaut, skipaður verjandi eftir þeim reglum sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. sem ég hef þegar vitnað í.

Ég tel það í anda almennra mannréttinda að sá, sem gerð er krafa um að settur sé í gæsluvarðhald, fái að verja mál sitt eða fá það varið fyrir dómara með sama hætti og í öðru sakamáli, ef þess er kostur og ef ekki er talið að óþægindi eða jafnvel hætta fyrir gang málsins stafi af.

Eins og ég hef bent á hafa norðmenn annan hátt hér á en við, og reynsla þeirra bendir til þess að þessi tilhögun geti oft komið í veg fyrir að upp sé kveðinn úrskurður um varðhald. Verjandinn getur bent sökunaut á að hann skuli segja vitneskju sína, játa brot sitt, eða fram geta komið atriði sem valda því að grundvöllur fyrir gæsluvarðhaldsúrskurð er ekki fyrir hendi.

Ég hygg að í flestum tilfellum ætti þetta ekki að valda óþægilegri tímatöf, að skipa manni verjanda í dómsmeðferð um gæsluvarðhald. Samkvæmt íslenskum lögum hefur dómari 24 tíma nú til að kveða upp úrskurð frá því að mál kemur til hans. Sé verjandi skipaður strax ætti hann að geta tjáð sig um málið nægjanlega á þessum tíma.

Það má líka benda á að þessi tilhögun er líkleg til þess að fækka kærum til Hæstaréttar og þar með til þess að flýta rannsókn málsins. Ein af ástæðum fyrir kæru til Hæstaréttar er sú að verjandi hafi ekki fengið að tjá sig um sakaratriði fyrir sakadómi.

Ég hygg einnig, eftir því sem lögfróðir menn segja mér, að tilhögun þessi ætti ekki að hafa í för með sér útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð, því að hér er einungis gert ráð fyrir að réttargæslumaður sé skipaður fyrr í málinu heldur en nú tíðkast. Hins vegar getur þetta skipt mjög miklu máli fyrir sökunautinn eða sakborninginn sjálfan.

Mér er ljóst að þessi till. er seint fram komin og þarfnast afbrigða. Till hljóðar svo, og er ætlast til að hún komi inn í 14, gr. frv., — hún hljóðar svo:

„Sé þess kostur án sérstakra tafa eða erfiðleika skal verjandinn skipaður áður en dómarinn tekur kröfu um gæsluvarðhald fyrir, þannig að koma megi vörn að.“

Eins og ég gat um í upphafi, þá tel ég að þessi brtt., eins og hún er orðuð frá minni hálfu, tryggi betur það atriði um rétt sakborningsins heldur en brtt. frv? hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, því að mér sýnist að þau atriði, sem hennar till. fjallar um, séu í rauninni þegar fyrir í 1. og 2. mgr. 80. gr. laganna, alla vega heimild og möguleiki til þess.