09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

12. mál, meðferð opinberra mála

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það er alveg rétt hjá hv. 11. þm. Reykv., að það er kannske hæpið í jafnviðkvæmu og viðurhlutamílu máli og þessu að kasta inn hér á síðustu stundu brtt. Ég vil lýsa því yfir frá minni hálfu að mér er það ekkert kappsmál að fá þessa brtt. mína samþ. Þetta er fyrst og fremst viðleitni til að koma á framfæri þessari hugmynd, og ég vil enn vekja athygli á því að brtt. mín beinist að mjög afmörkuðu atriði. Þar, sem hv. þm. Ellert B. Schram sagði hér áðan, það snertir í rauninni alls ekki efni minnar till., það snertir fyrst og fremst brtt. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, og ég tek alveg undir hans rök í því. Mér finnst brtt. Svövu Jakobsdóttir allt að því stangast á við 81. gr. Hún gerir í rauninni ráð fyrir að sakborningi sé nauðugum viljugum skipaður réttargæslumaður.

Hv. þm. Ellert B. Schram benti á umsagnir margra merkra aðila um þetta mál, en ég verð að segja það, að ég legg ekki hvað minnst upp úr áliti Lögmannafélags Íslands sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir vitnaði til, og hún sagði að Lögmannafélagið hefði verið hliðhollt hennar till. Ég endurtek það.

Ég ætla ekki að hafa hér fleiri orð um. Ég tel ósköp eðlilegt að hv. dm. séu ekki reiðubúnir að samþ. sérstaklega till. mína sem er alveg ný af nálinni, en hugsanlega gæti hún komið til athugunar í meðförum málsins í Ed. eða hjá þeirri n. sem vinnur að endurskoðun þessara mála í heild. En hugmyndin, ef hún er á annað borð þess virði að hún sé íhuguð má auðvitað ekki kasta fyrir róða af tímaskorti einum. Tíminn mun leiða í ljós hvort hún fær byr, þessi hugmynd um að manni sé gert heimilt að verja sig áður en hann er tekinn í gæsluvarðhald, og það er mergurinn málsins. Mín till. gengur út á það að ekki sé hægt að taka borgara e.t.v. alsaklausan og hneppa hann í gæsluvarðhald og loka hann inni frá fjölskyldu sinni og heimili án þess að honum gefist kostur á að fá lögfræðilega aðstoð sér til varnar áður en til innilokunar kemur.