09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

12. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég held nú að brtt, hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur sé í raun og veru á misskilningi byggð. Ég er ekki frá því að þar hafi gætt misskilnings í umr., þannig að menn blandi nokkuð saman rannsókn utan réttar, lögreglurannsókn, og svo aftur rannsókn fyrir dómi. Gæsluvarðhald getur aldrei átt sér stað nema samkvæmt dómsúrskurði, og samkvæmt lagaákvæði því, sem nú er í lögunum um meðferð opinberra mála, á að skipa réttargæslumann þegar gæsluvarðhaldi er beitt. Ég held því að í þessari brtt. felist í raun og veru alls ekkert nýtt eða annað en það sem er þegar fyrir í lagagreininni. Af orðum hv. flm. mátti hins vegar ráða það að e.t.v. hefði hún annað í huga, þ.e.a.s. handtöku. En það er auðvitað allt, allt annað og auðvitað er óframkvæmanlegt að skipa manni réttargæslumann áður en hann er handtekinn. Það er auðvitað lögreglunnar að handtaka mann þegar hún telur ástæðu til, eftir atvíkum eftir skipun dómara náttúrlega. En sú regla er svo í réttarfarslögum og reyndar í stjórnarskránni, að hvern mann, sem tekinn er fastur, skal leiða fyrir dómara svo fljótt sem kostur er eða innan sólarhrings. Þá kveður dómari upp dómsúrskurð um það hvort hann er settur í gæsluvarðhald. Ég held því að þetta sé á nokkrum misskilningi byggt. Það er á misskilningi byggt ef hv. þm. hefur verið að tala um handtöku. En e.t.v. hef ég misskilið þm. að því leyti til og þm. hefur verið að tala um gæsluvarðhald, og þá er það þegar fyrir hendi í lagagr. og þarf ekki þessa grein.

En hins vegar er nú gert ráð fyrir því að rannsókn fari í auknum mæli fram hjá rannsóknarlögreglu. Þess vegna er það ákvæði sett sem er í 14. gr. frv., og því bætti réttarfarsnefnd inn nú í sumar vegna ábendinga sem komið höfðu frá lagadeild Háskólans. Segir í aths. við frv. um 14. og 15. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Þessar greinar voru ekki í fyrra frv. Þær eru í samræmi við till. lagadeildar Háskóla Íslands, en um þær segir svo í álitsgerð hennar:

„Þegar frumrannsókn færist úr hendi dómara yfir til rannsóknarlögreglu getur hlutlaus dómari ekki haft sama eftirlit með henni og áður. Hætta er á því að staða sakbornings kunni við breytinguna að versna frá því sem nú er. Brtt. þeim, sem hér eru settar fram, er talað að rétta hlut sakbornings nokkuð að þessu leyti. Áþekk réttarvernd til handa sakborningi er fyrir hendi í nágrannalöndunum.“ “

Þetta segir lagadeild Háskólans. Þetta eru hennar till. sem teknar eru upp að þessu leyti, og ég held að það sé ekki hægt að segja a.m.k. að réttur sökunauts verði minni en hann er samkv. núgildandi lögum, því að eftir þessu frv. er það lagt á vald hlutlauss dómara hvort hann telur ástæðu til þess að skipa sökunaut verjanda. Eins og ég sagði áðan, þá finnst mér að út af fyrir sig mætti hugsa sér að hafa þetta í því formi sem gert er ráð fyrir í brtt. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur. En mér finnst þó fyrir mitt leyti of langt gengið að setja inn í lögin að hann skuli, heldur sé réttara að leggja það á vald dómara og hann meti hvort ástæða er til þess hverju sinni.

Það er svo rétt, sem hv. þm. Ellert Schram sagði áðan, að upphaflega voru í þessu frv. eingöngu þær breyt. á réttarfarslögunum sem alveg óhjákvæmilega þótti leiða af þeirri skipulagsbreytingu sem um var að ræða. Þegar réttarfarsnefndin tók þetta svo til endurnýjaðrar athugunar í sumar, þá gerði hún nokkrar fleiri brtt., þ. á m. þessa sem nú er verið að tala um. En eftir sem áður er það svo, eins og hann gerði grein fyrir, að réttarfarsnefndin fæst við heildarendurskoðun laga um meðferð opinberra mála. Ég held að það sé ekki rétt að samþykkja þessar brtt. á síðasta stigi hér, það hefði verið betra að þær hefðu fengið nánari athugun í allshn., og ég verð að leggja á móti samþykkt beggja þessara tillagna.