09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

108. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Jafnframt því sem ég tek undir rök hv. 5. landsk. þm.. 1. flm. þessa frv., fyrir því máli sem við flytjum hér sameiginlega, og sérstaklega undir allt það sem hv. þm. sagði um þá óvissu sem ríkir um kjör verulegs hóps starfsfólks í mjólkurbúðum, þá vil ég bæta við sér í lagi nokkrum orðum um þá hlið málsins sem snýr að neytendum almennt.

Því var haldið fram við undirbúning þessa máls og það kom fram við afgreiðslu þess hér á Alþ., að ýmsir báru kvíðboga fyrir að sú breyting, sem hér var fyrirhuguð, sérstaklega á jafnskömmum tíma og gert var ráð fyrir að hún gengi yfir, mundi verða til þess að stórlega skertist þjónusta við neytendur á því svæði sem Mjólkursamsalan hefur séð um mjólkurverslunarrekstur fyrir. Það mun vera allra mál að a.m.k. á síðari áratugum hefur dreifing mjólkur og mjólkurvara í Reykjavík og á öðrum þeim stöðum, sem Mjólkursamsalan hefur annast, verið einn af myndarlegustu þáttum í vörudreifingu á þýðingarmiklum neysluvörum. Þar hafa orðið verulegar framfarir, þar hefur verið gætt hreinlætis og hagsýni í rekstri og ekki síst hefur þar valist mjög hæft starfsfólk sem með löngu starfi hefur unnið sér álit og vinsældir hver starfshópur í sínu hverfi. Þetta held ég að allir Reykvíkingar a.m.k. geti borið um að sé almenn reynsla hér í borginni. Að sjálfsögðu hafa þessar verslanir verið misjafnlega arðbærar fyrir Mjólkursamsöluna. Það liggur í hlutarins eðli að ekki hafa allar jafnmikla aðsókn eða veltu. En með því að reka þessar verslanir á þann hátt sem gert hefur verið hefur mjólkurdreifingu og mjólkursöluþörfum verið sinnt á mjög vel fullnægjandi hátt og á mjög myndarlegan hátt, a.m.k. síðustu áratugi. Fyrr meir voru kannske starfshættir dálítið frumstæðari, eins og þeir muna sem þá þurftu á því að halda að versla við önnur og frumstæðari tækniskilyrði.

Nú kemur það í ljós, eins og spáð var, að það er mjög misjafnt hversu kaupmenn eru fúsir að taka að sér þær mjólkurverslanir sem Samsalan hefur rekið. Og þegar aðeins 6 vikur eru til þess tíma sem ætlaður var til þess að umskiptin frá mjólkurbúðarekstri Samsölunnar til kaupmannarekstrar yrðu algerlega, þá kemur það í ljós að fjölda verslana er óráðstafað og að óbreyttri framkvæmd þeirra fyrirætlana, sem uppi voru, liggur það fyrir að víða mun mjólkurbúðum verða lokað eftir hálfan annan mánuð ef ekkert gerist frekar í málinu. Það, sem gerist þá, er að mjólkurbúðum, jafnvel svo að tugum skiptir, verður lokað, starfsfólkið, sem þar hefur verið, missir atvinnuna og neytendur á þeim svæðum, í þeim hverfum, sem sótt hafa mjólkurvörur í þessar verslanir, eiga þar ekkert athvarf lengur, verða að sækja um lengri veg með meiri fyrirhöfn. Og þessi breyting á að gerast um miðjan vetur, þegar færð er gjarnan eins og hún getur verst verið hér í borg. En þar við bætist að þær mjólkurbúðir, sem munu þykja einna ófýsilegastar fyrir kaupmenn, þær sem minnsta veltu hafa og líklegar eru til að skila minnstum ábata, eru mjög margar í þeim hverfum borgarinnar þar sem fólk er elst, það þekkja allir, sem kunnugir eru búsetu í Reykjavík, að í eldri hverfum borgarinnar hefur þróunin orðið sú, að íbúahópurinn eldist jafnt og þétt og í stórum hverfum er þar að mjög stórum hluta fólk sem komið er yfir miðjan aldur og háaldrað. Einmitt í hverfunum, þar sem þetta fólk býr helst, virðist nú eiga að loka mjólkurverslununum og gera þessu fólki að sækja þessa þýðingarmiklu verslun um miklu lengri veg en það hefur þurft hingað til. Allir vita hve erfitt það getur verið fyrir fólk á þessu aldursskeiði að taka upp nýja hætti og sækja sínar nauðþurftir á aðra staði en það hefur gert kannske um marga áratugi. En þar við bætist — og á það vil ég leggja áherslu — sú óhjákvæmilega aukna slysahætta sem hlýtur að skapast þegar nokkur þúsund aldraðra gangandi vegfarenda bætast við umferð, því að leiðirnar, sem þetta fólk þarf að sækja mjólkina sína á hverjum degi, geta tvöfaldast eða þrefaldast, og einmitt þessu fólki er hættara en nokkrum öðrum í umferðinni nema kannske kornabörnum, sérstaklega þegar það þarf að leggja leiðir sínar um slóðir sem eru ekki tamar frá fyrri ævi. Því vil ég leggja áherslu á að hér er alls ekki eingöngu um að ræða mál þeirra á annað hundrað kvenna sem sjá nú fram á atvinnumissi og öryggisleysi, og er það þó nógu alvarlegt, — hér er um að ræða mál sem varðar mjög stóran hóp neytenda á öllu sölusvæði Mjólkursamsölunnar. Og ég sé ekki nokkra aðra leið út úr þessu máli, að lengja þetta breytingaskeið og gera það auðveldara í meðförum, en að ákveðnar verslanir verði reknar áfram þar sem annars kæmu meiri og minni eyður í sölukerfið ef svo færi að einungis verslanir, sem gengju út til kaupmanna á þessum stutta breytingatíma, yrðu reknar eftir 1. febrúar.

Ég vil aðeins víkja að einu atriði sem komið hefur fram í umr. um þetta mál og hefur verið fært fram sem ástæða fyrir því hversu erfiðlega ýmsum af afgreiðslukonum úr mjólkurbúðum gangi að fá starf hjá kaupmönnum, sem sé að einhverjir kaupmenn skirrist við að ráða afgreiðslufólk með langan starfstíma sem kæmi því á efri kauptaxta vegna langrar reynslu og þjálfunar. Ég hef heyrt þessu haldið fram, en mér finnst þetta svo fáránlegt sjónarmið að ég held að þeir, sem slá slíku fram, ættu við eitthvað annað að fást en verslun, ef það er sjónarmið þeirra að best sé að hafa óvant fólk bara af því að það þurfi að borga því heldur lægra kaup en vönu fólki og starfshæfara. Þetta er svo fáránlegt sjónarmið að við umhugsun hljóta þeir, sem kannske hafa slegið því fram, að sjá að þar eru þeir ekki aðeins að óvirða reynslu fólks, þeir eru einnig að vinna gegn eigin hag.