09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

108. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Ég neyðist nú til þess að segja hér örfá orð til þess að upplýsa atriði sem ekki hafa komið fram í þessum umr. Mér kom í hug, þegar hv. þm. Svava Jakobsdóttir var að tala hér áðan, saga af sambýlisfólki fyrir norðan. Svoleiðis var að þar höfðu búið saman hjón um langan aldur, en ekki verið nógu gott á milli þeirra. Og svo var karlinn að deyja og þá kemur konan. Konunni rann blóðið til skyldunnar og segir við bann: „Eigum við nú ekki að sættast áður en þú deyrð?“ „Of seint, Gunna,“ sagði karlinn. Því miður, þá óttast ég að hér sé eins komið, að ég verði að hafa uppi þetta leiðinlega tilsvar karlsins í þessu efni.

Þetta mál hefur átt sér langan aðdraganda. Það þýðir ekkert annað en viðurkenna það, að það hefur staðið herferð gegn mjólkurbúðunum í Reykjavík, Mjólkursamsölunni í Reykjavík, um langan aldur. Ég man eftir tillöguflutningi á Alþ., og hér eru inni staddir sumir þeir sem fyrstir hófu máls á þessu hér í þingsölum, að taka mjólkursöluna af bændasamtökunum. Í Morgunblaðíð var skrifað ár og síð um nauðsyn þess að láta kaupmenn versla með mjólkina. Neytendasamtökin munu hafa gert um þetta samþykktir, áreiðanlega Húsmæðrafélag Reykjavíkur, og fleiri aðila mætti telja. Stefán Björnsson framkvæmdastjóri Mjólkursamsölunnar hefur margoft tekið það fram, að það var hans mat að Mjólkursamsalan hefði verið sett hjá við úthlutun lóða í Breiðholti. Þegar hverfi voru að byggjast hér fyrr meir, þá voru Mjólkursamsölunni ævinlega fengnar góðar verslunarlóðir. Þeir fengu eina góða í Breiðholti. En nú kann það að vera matsatriði hvað kappsamlega hafi verið eftir þeim sótt. Verslunarhættir hafa tekið mjög miklum breytingum, og kaunmönnum var miklu þægilegra að versla með mjólk á hentugan hátt og fullnægjandi fyrir neytandann heldur en var í gamla daga. En ég var persónulega engan veginn hrifinn af þessari þróun. Ég sem bóndi kom auga á mikilvægi þess að bændur hefðu möguleika á því að dreifa vöru sinni og þyrftu ekki undir aðra að sækja með það. Ég var því andvígur í huga mínum að afhenda þennan rétt, m.a. vegna þess að við verðákvörðun og ákvörðun á dreifingarkostnaði kom það hvað eftir annað fyrir að Kaunmannasamtökin töldu sig ekki fá nóg fyrir að dreifa vörunni. En þá var alltaf þessi leið opin, að fara með fleiri vörur í mjólkurbúðirnar. Og ég held, að samvinnufélagsskapurinn hafi sannað ágæti sitt í verslunarháttum og hafi verið óskynsamlegt að leggja þessar búðir niður. En þær urðu auðvitað að vera ekki einasta í elstu hverfunum, heldur líka þar sem fólkið var. En eins og segir í vísunni: „Þegar mest ég þurfti við, þá voru flestir hvergi.“ Þessar raddir, sem nú heyrast, heyrðust ekki í fyrravetur, því miður. Þá kom engin samþykkt, svo ég muni eftir, frá Húsmæðrafélagi Reykjavíkur að halda í mjólkurbúðirnar og ekki fyrr en seint og um síðir frá Neytendasamtökunum. Ég tek það fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að þessu sjónarmiði um atvinnuspursmál kvenna í mjólkurbúðunum var haldið hér ágætlega á lofti í þingsalnum, en það var bara gert of seint. Það var ekki gert fyrr en málið var búið að taka þessa stefnu, sem ég út af fyrir sig, eins og ég sagði áðan, var ekki hrifinn af. Þessi alda reis of seint og þess vegna er komið sem komið er.

Við lítum svo á, sem réttum upp höndina með breytingu á framleiðsluráðslögunum í fyrra, að hlutur þessara kvenna ætti að vera tryggður með því að yfirlýsing lá fyrir frá Kaupmannasamtökunum um að afgreiðslustúlkur mjólkurbúða Samsölunnar skyldu hafa forgang til vinnu við þau störf sem þær gætu tekið við í verslunum þeirra ef þær kærðu sig um. Okkur var kunnugt um þetta. Annað virðist hafa komið á daginn, eða a.m.k. eru ýmsir kviðandi því að Kaupmannasamtökin komi ekki til með að standa við þessi gefnu fyrirheit. En það er þá við þau að sakast, en ekki við Mjólkursamsöluna, finnst mér.

Það er svo mál út af fyrir sig, að annaðhvort er náttúrlega fyrir Mjólkursamsöluna að versla með mjólk í smásölu eða gera það ekki, og mér finnst varla hægt að krefjast þess að hún fari að gera þetta sem einhverja atvinnubótavinnu, enda leggja flutningsmenn áherslu á að þeir líta ekki þannig á. En samt sem áður held ég að það atriði standi að einhverju leyti undir þessum tillöguflutningi, Ég veit ekki hvort það er mögulegt að koma þessu ákvæði í framkvæmd, og það er áreiðanlega ekki hægt nema með því móti að mjólkin hækki í verði, því að vitaskuld verður Mjólkursamsalan að fá uppborinn þann kostnað sem af þessu verður. Það yrði auðvitað verslað í lökustu búðunum. Sumar mjólkurbúðirnar voru leigubúðir. Það er búið að segja þeim upp Aðrar er búið að selja. Það er ekki hægt að rifta kaupum. Það er kannske hægt að fá eitthvað af leigubúðunum til leigu aftur, ég þekki það ekki. En þetta hlyti alla vega að koma fram í meiri dreifingarkostnaði á mjólk og satt að segja eru landbúnaðarvörur nógu dýrar. Það er nógu erfitt að kaupa þær. þannig að það eru fleiri hliðar á þessu máli. En ég legg áherslu á það, að ég held að það megi til með að reyna að finna lausn á atvinnuspursmáli þessara kvenna. Ég legg mjög þunga áherslu á það. En það er ekki, held ég. við Mjólkursamsöluna að fást í því efni, heldur miklu fremur við Kaupmannasamtökin. En meginatriðið er náttúrlega að lausn finnist.