09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

108. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Því miður var ég ekki viðstaddur þegar mælt var fyrir þessu frv. og heyrði ekki a.m.k. tvær fyrstu ræður sem um það voru fluttar. Ég vil þó segja hér örfá orð, m.a. vegna þeirra umræðna, sem fram fóru um þetta mál á síðasta Alþ., og undirbúnings þess í n. og einnig nokkurra ummæla sem hér hafa fallið.

Mál þetta á sér, eins og þegar hefur verið rakið, alllangan aðdraganda. Það á ekki einvörðungu þann aðdraganda að það hafi verið haldið uppi áróðri til þess að ná þessari breytingu fram, heldur einnig þann, að ásamt því að hv. þm. Ellert Schram hefur flutt frv. um þetta efni hér á Alþ., þá skipaði hæstv. landbrh. Halldór E. Sigurðsson n. til að fjalla um þetta efni og sú n. skilaði á sínum tíma samhljóða áliti sem lagabreytingin, sem gerð var í fyrra, var reist á. Í þessari n. voru fulltrúar frá Mjólkursamsölunni, Framleiðsluráði landbúnaðarins, samtökum kaupmanna og e.t.v. fleirum. En því miður hefur mér ekki unnist tími til að afla mér þeirra gagna sem um þetta mál lágu fyrir hjá landbn. Nd. Alþ. á síðasta ári.

Í þessari n. tókst það samkomulag sem hér hefur verið rætt um, samkomulag á milli Mjólkursamsölunnar annars vegar og samtaka kaupmanna hins vegar, um það að ef þessi breyting yrði lögfest, þá skyldi um leið fara fram nokkur yfirfærsla á eignum, þ.e. að kaunmenn mundu væntanlega kaupa eitthvað af búðum Mjólkursamsölunnar, enn fremur að kaupmenn skyldu eftir föngum tryggja að a.m.k. verulegum hluta starfsfólks mjólkurbúðanna störf, eftir hví sem möguleikar væru til. Nú er mér alls ókunnugt um hvernig framkvæmd þessa samkomulags miðar áfram. En eins og rakið hefur verið var ákveðinn umþóttunartími til 1. febr. n.k. til þess að undirbúa þær tæknilegu og sumpart atvinnulegu breytingar sem þetta hefði í för með sér. Þessi umþóttunartími var í fyrstu ákveðinn til 1. nóv. s.l., en við athugun málsins kom í ljós að það var of skammur tími og með fullu samkomulagi aðila var þessi frestur lengdur til 1. febr. n. k. Ég hygg að ef þá hefðu komið fram rökstuddar raddir eða óskir um að fresturinn yrði lengri, þá hefði verið orðið við slíkum óskum. Ég minnist þess ekki að slíkar óskir kæmu þá fram.

Þessi mál stóðu þannig á síðasta ári og raunar fyrr, á árinu 1974, þegar þessi stjórnskipaða n. var að störfum, að annaðhvort varð að hrökkva eða stökkva með þessa breytingu. Annaðhvort varð að tryggja það að Mjólkursamsalan hér á Reykjavíkursvæðinu og mjólkursamlögin annars staðar á landinu hefðu smásöludreifinguna í sínum höndum áfram eða að láta almennar verslanir, sem uppfylltu tiltekin skilyrði, taka við. Á það ber að líta, að Mjólkursamsalan hefði að öðrum kosti orðið að leggja í verulegan kostnað við að endurbæta mjólkurbúðir sem margar hverjar voru orðnar þannig búnar að þær svöruðu naumast kröfum tímans. Enn fremur var svo komið, eins og lýst hefur verið, að verulegur hluti af mjólkurmagninu var þegar til sölumeðferðar kaupmanna, og það var gjarnan á þeim svæðum þar sem hagkvæmast var að reka slíka verslun.

Það var ljóst að ekki var um það að tefla fyrir Mjólkursamsöluna að hún ræti haldið rekstri áfram í sama horfi, að reka þessar gömlu búðir með því fyrirkomulagi sem á þeim var, þar sem þær voru elstar og bjuggu við þrengstan húsakost og annað þess háttar. Hún varð að koma þeim í nýtískulegra horf, og fylgdi því að sjálfsögðu mikill aukinn kostnaður. Jafnframt þessu var það vitaskuld aukinn baggi fyrir Mjólkursamsöluna og þá um leið var það baggi, sem lenti beint á herðum bænda, að halda uppi mjólkurdreifingunni á þeim svæðum þar sem viðskipti voru minnst.

Að þessu athuguðu og mörgu öðru, þ. á m. að svo virtist þá sem almennur ábugi a.m.k. fólks um þetta svæði væri fyrir því að þessi breyting kæmist fram, þá var það ráð tekið að þessi fyrirkomulagsbreyting á smásöluverslun með mjólk var lögfest. Ég skal ekkert fullyrða um það og hef ekki kynnt mér hvort sá tími, sem enn er til stefnu, dugir til þess að komist verði yfir tæknilega og suma aðra erfiðleika við þessa breytingu. En það var til þess ætlast að hann væri nægjanlega langur til þess að það gæti orðið.

Nú er hér fram komið frv. sem kveður á um að Mjólkursamsölunni skuli, þrátt fyrir rá breytingu sem gerð var á síðasta Alþ., gert skylt að starfrækja 10 mjólkurbúðir í Reykjavík og á öðrum þéttbýlisstöðum næstu 5 árin, og í frvgr. segir: svo fremi nægilega margar afgreiðslustúlkur, sem nú eru ráðnar, óska að starfa áfram. Grg. þessa frv. miðar öll í þá átt að bæta þarna úr vanda sem upp er kominn í sambandi við starfsfólk mjólkurbúðanna, að það geti áfram starfað í þessum búðum eða hluti þessa fólks næstu 5 árin.

Nú skal ég ekki gera lítið úr vanda þessara starfsstúlkna. Það er vitað að þær hafa margar hverjar árum saman unnið í þessum mjólkurbúðum. Þær hafa sérhæft sig við þessi störf.

Þær eiga vafalaust í nokkrum erfiðleikum sumar hverjar að fá æskilega vinnu á öðrum starfsvettvangi. Þarna geta að sjálfsögðu komið upp vandamál sem öllum voru ljós þegar þessi breyting var gerð, enda sagði hv. þm. Eðvarð Sigurðsson í ræðu sinni áðan að ekkert hefði raun og veru breyst síðan þetta frv. var til meðferðar á Alþ. á síðasta ári. Málið lá nákvæmlega eins fyrir hv. Alþ. í fyrra, sagði hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, svo að þetta þarf ekki að koma neinum á óvart.

Ég vil treysta því og ég tel að ástæða sé til þess að fylgja því nokkuð eftir af hálfu starfsstúlkna að kaupmenn tóku upp í það samkomulag, sem gert var við undirbúning þessarar lagabreytingar, að tryggja starfsstúlkunum, eftir því sem föng væru á, vinnu á svipuðum vettvangi. Ég vænti þess að það megi takast með sem bestum hætti. Hins vegar fæ ég vart séð, — það er þá breytt frá því sem ég hef vanist í okkar þjóðfélagi, — að unnt sé með löggjöf að skylda atvinnurekanda til þess að halda atvinnurekstri sínum áfram til þess eins að starfsfólkið geti haft vinnu. Það eru þá nýmæli í löggjöf, eftir því sem ég veit til. Ég vil leggja á það áherslu, sem fram kom í máli hv. 3. þm. Norðurl. e., að því mundi væntanlega fylgja að Mjólkursamsölunni yrði gert skylt að reka þær búðir sem óhagstæðast er að reka. Það mundi enn auka á að dreifingarkostnaður mjólkur, sem vanmetinn er í verðlagsgrundvelli búvara, mundi vaxa og bagginn, sem lagður yrði á herðar bænda, enn þyngjast af þessum sökum. Í annan stað tel ég ákaflega hæpið að raska nú með nýrri löggjöf þeirri skipulagsbreytingu sem lögfest var í fyrra og byggð var á samkomulagi þeirra aðila sem hér eiga mest í húfi. Það fer sjaldan vel að höggva þannig á samkomulag aðila aðeins einu ári eftir að samkomulagið hefur verið lögfest.

Ég vildi láta þetta sjónarmið mitt koma hér fram. Enginn skal skilja það svo að með því sé ég að gera lítið úr vanda sem tiltekinn hópur starfsfólks á þarna fyrir höndum. Það er vandi sem aðrir aðilar eiga að leysa heldur en Mjólkursamsalan hér í Reykjavík eða mjólkursamlögin og mjólkurbúin annars staðar á landinu. Því hefur enda verið lýst hér af hv. síðasta ræðumanni að m.a. borgarstjórn Reykjavíkur hefur tekið þetta mál upp til þess að leita að leiðum til að leysa vanda þess fólks sem ef til vill verður útundan þegar kaupmenn hafa ráðið hluta af því til starfa, svo sem samkomulagið kveður á nm.