09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

108. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að ræða svolítið við hv. þm. Ellert B. Schram, en því miður er hann nú farinn úr þingsalnum. Hann komst þannig að orði, að þetta hefði verið mikið réttlætismál, að brjóta niður einkasölurétt Samsölunnar eða bænda í þessu efni. Frá hans sjónarmiði geri ég ráð fyrir að hetta sé framför. En ég held að þess sjáist nú merki að menn eru að breyta um skoðun á þessu máli. Ég held að það séu fleiri og fleiri að sjá að þetta er ekki spor í framfaraátt. Og það má mikið vera ef það kemur ekki í ljós á næstu mánuðum eða árum að dreifingarkostnaðurinn muni ekki lækka við þessa breytingu, heldur hið gagnstæða, og er ekki verið að hugsa um neytendurna ef þessi skoðun mín reynist rétt.

Hv. þm. ræddi um að það hefði komið fram mikið óréttlæti einhvers staðar utan þessa svæðis í sambandi við að það hafi verið tvær verslanir á einum stað, önnur hefði fengið að selja mjólk, en hin ekki. Ég veit vel um hvaða staður þetta er. En ég er ekki viss um að hv. þm. hafi verið eins kunnugur málavöxtum og ég í þessu efni, og væri hann eins kunnugur þeim, þá hefði hann ekki haft þessi orð hér. Sá verslunarstaður, sem þarna er átt við, er Ólafsfjörður, og það er kaupfélagið í Ólafsfirði sem rekur þessa litlu mjólkurvinnslustöð sem fær ekki nema nokkur hundruð þús. lítra á ári og hefur ekki tekið neitt fyrir söluna á mjólkinni til þess að geta fengið mjólk í kaupstaðinn. Þannig hefur það orðið óbeint til þess að halda uppi verðinu til bændanna.

Þessi breyting hefur í för með sér að það hlýtur að þurfa að greiða meira verðjöfnunargjald t.d. til staðar eins og Ólafsfjarðar eftir þessa breytingu.

Þó að ég hafi ekki trú á því að þetta frv. geti orðið að lögum í tæka tíð, þá hef ég þó trú á því að það verði til þess að þetta mál verði athugað, því að ég mun beita mér fyrir því að kalla aðila fyrir hv. landbn. og sjá hvernig sakir standa og vita hvort aðilar hafa þegar staðið við samninga, láta þá sem sagt gefa skýrslu um málið, og þá er frv. þetta flutt til nokkurs gagns.

Ég vil svo að endingu bara endurtaka það og beina til hv. flm.: Er það réttmætt að það séu bændur sem reki þessar búðir? Það er gefið mál að þetta verða búðirnar sem kaupmennirnir vilja síst. Þeir munu gleypa við þeim búðum sem er einhver hagnaðarvon að reka því að til þess mun leikurinn gerður. Er það rétt að það séu bændurnir sem standi undir því tapi? Er þá ekki réttara að það sé t.d. Reykjavíkurborg eða einhverjir aðrir aðilar sem sjá fyrir slíkri þjónustu? Þetta er sjálfsagt að athuga, og ég fagna því að borgarstjórn Reykjavíkur hefur þegar haft afskipti af málinu. Vonandi fær það þann endi sem farsælastur er, þ.e.a.s. að fleiri búðir verði reknar en nú lítur út fyrir, því að það er mikið atriði bæði fyrir bændur og neytendur að það sé lag á dreifingu þessara nauðsynlegu neysluvara, og ég vona að sem flestar af starfsstúlkunum fái vinnu við sitt hæfi.