09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

108. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni ummæli hans um að hann muni kalla rétta aðila til viðtals og vænti þess að það gerist þá mjög fljótlega. Að öðru leyti vildi ég segja það, að ég held að það þjóni ákaflega litlum tilgangi að rekja hér forsögu þeirrar lagabreytingar sem var gerð í fyrravor. Ég held að það drepi málinu á dreif, því að frv. gengur engan veginn í þá átt að breyta skuli efni laganna. Frv. gengur út á það að umþóttunartíminn sé lengdur með þeim hætti sem þar greinir frá og í því skyni að rétta hlut starfsfólks og neytenda. Ég tók svo eftir að hv. þm. Pálmi Jónsson — hann heyrir víst ekki til mín — hann léti þau ummæli falla í ræðu sinni, að það hefðu ekki komið fram í vor neinar rökstuddar óskir um að þessi frestur eða umþóttunartími yrði framlengdur. Í tilefni af þessum ummælum langar mig til þess að minna þér á umsögn borgarlæknis sem var send n., þar sem hann fer raunar ekki fram á að fresturinn verði lengdur vegna breytinganna, heldur gengur hann enn þá lengra og fer fram á að Mjólkursamsalan haldi áfram rekstri verslana sinna. Ég ætla að lesa þá klausu sem að þessu lýtur, með leyfi hæstv. forseta. Borgarlæknir segir í niðurlagi sinnar umsagnar:

„Er það því eindregin ósk mín að hv. þingnefnd afgreiði ekki fyrirliggjandi frv. án þess að tryggt verði með einhverjum hætti að sem flestir núv. mjólkurútsölustaðir Mjólkursamsölunnar verði reknir áfram sem slíkir, því ella væri hætta á að notaður yrði sá þrýstingur, sem áður getur um af hálfu kaupmanna, og leiddi það til þess að veruleg afturför ætti sér stað í sambandi við þær miklu úrbætur sem átt hafa sér stað á undanförnum árum varðandi geymslu og hreinlætisaðstöðu á útsölustöðum þeirrar viðkvæmu vöru sem mjólk og mjólkurafurðir eru.“

Hér fer borgarlæknir þess eindregið á leit við landbn. að hún samþ. ekki frv. nema tryggt sé að Mjólkursamsalan reki sem flestar búðir sínar áfram. Á þetta var ekki hlustað. Og með hliðsjón af þessari umsögn er ekki hægt að koma hér og halda því fram að það hafi ekki komið fram neinar rökstuddar óskir um lengri frest eða segja að þetta frv. sé ótímabært. Ég tel míg hafa nægilega miklar upplýsingar í höndum um að þessi frestur, sem veittur var í vor, sé alls ekki nægilegur til þeirra hluta sem bann var ætlaður til. og ég tel að það sé skylda Alþ. að horfast í augu við það og taka sínar ákvarðanir eftir því.

Þeir hv. þm., sem hafa komið hér og sagt að tíminn væri of skammur til þess að samþ. þetta frv., held ég að séu að reyna að losa sig undan ábyrgð, því tíminn til að samþ. þetta frv. er alls ekki hlaupinn frá okkur. Ég viðurkenni að hann er skammur, enda tók ég það fram í framsöguræðu minni, en hann er ekki hlaupinn frá okkur. Til þess að samþ. það þarf ekki annað en vilja alþm. Hins vegar er sýnt að sá frestur, sem var ætlaður vegna breytinganna, er hlaupinn frá okkur án þess að hafa náð tilgangi sínum. Á þetta vil ég leggja áherslu. Ég minni einnig á það að félag afgreiðslustúlkna í mjólkurbúðum sendi umsögn þar sem þær bentu á að þær mundu missa atvinnu sína. Ég er með þá umsögn hér einnig í höndum, og klausa úr þeirri umsögn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á Reykjavíkursvæðinu, þ.e. Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, munu nú starfa um 165 stúlkur í búðum Mjólkursamsölunnar. Auk þess starfa nokkrar stúlkur við mjólkursölur í kaupstöðum og bæjum úti á landi. Margar þessar konur hafa starfað mjög lengi, a.m.k. við Mjólkursamsöluna. Við bendum á að þegar búðir Samsölunnar verða lagðar niður munu flestar þessar konur missa atvinnu sína og margar þeirra munu eiga erfitt með að fá störf við sitt hæfi. Fyrir okkur er þetta mjög alvarlegur hlutur.“ Undir þessa umsögn skrifar formaður félagsins, Hallveig Einarsdóttir.

Í mínum huga eru það engin rök þó sagt sé að það hafi kannske aldrei verið gert áður að skylda fyrirtæki til þess að halda áfram starfi, og er ekki það fróð í þingsögunni að ég viti hvort þetta er rétt eða ekki. En ég bendi á að Mjólkursamsalan á siðferðilegum skyldum að gegna við það starfsfólk sem unnið hefur á hennar vegum árum saman. Ef menn Leggja þann skilning í orðið atvinnubótavinna að við með því reynum að tryggja siðferðilega skyldu fyrritækis, þá verð ég líka að fara að fletta því orði upp í orðabók, þá hef ég ekki skilið orðið atvinnubótavinna. Það er ekki hægt að leggja einhliða skyldur á Kaupmannasamtökin, enda höfðu þau þann fyrirvara að kaupmenn mundu láta þessar konur hafa forgang ef þær gætu gengið í störf. Mér er ekki nægilega vel kunnugt um hvernig það hefur gengið fyrir sig, en ég veit að 120 stúlkur eru nú óráðnar í önnur störf og hafa fengið uppsagnarbréf frá Mjólkursamsölunni. Og ég mótmæli því að Mjólkursamsalan beri hér enga ábyrgð.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson og raunar Pálmi Jónsson líka töluðu um að þetta mundi íþyngja bændum, að þeir mundu missa einhvers í af tekjum. Kannske hafa þeir rétt fyrir sér í því, ég veit það ekki. Mér virtist það meira vera ágiskun hjá þeim en full sannfæring, og ég held að það væri raunar rangt að stilla málinu upp þannig, hvort við vildum heldur að bændur misstu einhverjar tekjur eða hvort afgreiðslustúlkur misstu allar sínar tekjur. Ég held að það sé rangt að stilla dæminu upp þannig, því ég held að Mjólkursamsalan eigi þarna skyldum að gegna, og ég bendi á að það var Mjólkursamsalan sem lagði allt kapp á það sjálf að leggja niður búðir sínar. Og það held ég að hafi komið mörgum þm, á óvart. A.m.k. kom það mér mjög á óvart að henni skyldi vera það svo mikið kappsmá1 að fyrirsjáanlegt er að mörg hverfi í Reykjavík verða algjörlega mjólkurbúðalaus 1. febr.

Í ljósi þess, sem ég hef sagt, treysti ég því að hv. þm. láti ekki stjórnast af einhverri trú á því að tíminn sé hlaupinn frá okkur. Ég treysti því að það verði allt kapp lagt á það að ráða fram úr þessu vandamáli.