09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

108. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hv. þm. Ellert B. Schram talaði um að menn ættu að beina spjótum sínum að Mjólkursamsölunni, það væri réttmætast að beina spjótum að því fyrirtæki. Ég kann ekki við þetta orðalag og vil helst ekki vera að eggja menn til gáleysislegrar meðferðar á vopnum. En ef ætti að beina spjóti að einhverjum, þá væri það auðvitað að hv. þm. Ellert B. Schram sjálfum sem fyrstur manna byrjaði þennan söng hér á Alþ., að svipta Mjólkursamsöluna einkarétti. Og málgagn hans tók undir þennan söng. Hann reyndar endurómaði sönginn úr málgagninu, því að þeir voru byrjaðir að skrifa um þetta í Velvakanda áður en Ellert fæddist. Þessi slagur er búinn að vera langur, og það er ekkert gaman fyrir okkur bændur að þurfa að viðurkenna það að hann skyldi tapast, vegna þess að það kostaði geysiharða baráttu fyrir bændasamtökin að komast yfir mjólkurmarkaðinn hér í Reykjavík. Það var vafalaust mesta og harðasta verslunarstríð sem háð hefur verið á Íslandi, þegar bændur náðu í sínar hendur mjólkursölunni og komu skipulagi á mjólkursölumálin í Reykjavík. Og þá var hv. þm. Ellert B. Schram annaðhvort í móðurkviði eða nýfæddur þegar sú kollhríð stóð. En nú er þetta búið og gert, og oft veitir lítil þúfa þungu hlassi. Það er kannske fyrst og fremst Ellert B. Schram sem er persónugervingur þeirra afla sem loka mjólkurbúðunum.

Það er ekki formandi held ég, að halda opnum mjólkurbúðunum bara út á sölustöðvunina. Kaupmannasamtökin gætu verið að kaupa þessar búðir m.a. til þess að koma Mjólkursamsölunni út af markaðnum.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir segir að tíminn sé ekki hlaupinn frá okkur. En við skulum bara rif ja upp hvernig málin standa í dag. Ég hef aflað mér tölulegra upplýsinga um hvernig þessi mál standa. Búðir á öllu svæðinu, þ.e.a.s. í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, voru 59. Aðrar búðir annars staðar á landinu voru 7. Mjólkurbúðir á vegum Mjólkursamsölunnar voru sem sagt 66. Af 66 búðum voru í leiguhúsnæði 13 búðir, og þessum leigusamningum hefur auðvitað verið sagt upp og vafalaust búið að ráðstafa húsnæðinu. Þá eru eftir 53 búðir sem voru í eigin húsnæði. Nú er búið ati gera samninga um 33 af þessum 53 búðum við Kaupmannasamtökin sem sérstaklega er getið um í þessari grg. að tóku þá jafnframt að sér að láta þessar afgreiðslustúlkur hafa forgang um störf. Þá eru sem sagt 20 eftir. 4 af þessum búðum hafa verið seldar öðrum aðilum sem standa utan Kaupmannasamtakanna. Þá eru 16 eftir. 9 af þessum 16 búðum, sem eru ófrágengnar, eru utan Reykjavíkur. 2 þeirra eru í Vestmannaeyjum, ein í Hafnarfirði, ein í Ólafsvík, ein í Stykkishólmi, 2 á Akranesi, ein í Keflavík og ein í Kópavogi. Síðan eru 7 búðir eftir og það er kannske fróðlegt fyrir fólk að frétta hvaða búðum er óráðstafað. Það er búð á Langholtsvegi 174, það er ekki búið að ráðstafa henni. Það er búð í Blönduhlíð 2, það er búð á Brekkulæk 1, Freyjugötu 27, Hrísateig 19, Mávahlíð 25 og Laugarásvegi 1. Þessar upplýsingar hef ég eftir Guðlaugi Björgvinssyni, sem er fulltrúi — gegnir nú embætti Stefáns Björnssonar samsölustjóra, en hann og Jón Þorsteinsson fyrrv. alþm. hafa unnið að þessari ráðstöfun á búðunum. Af þessum 7 búðum sagði Guðlaugur þessi mér að 2 hefðu verið með nokkuð mikla sölu: búðirnar á Langholtsvegi 174 og Brekkulæk 1, hinar búðirnar allar hefðu verið langt fyrir neðan meðallag með sölu.

Það væri kannske möguleiki að halda þessum búðum áfram án þess að brjóta gerða samninga — ég fullyrði það ekki — eða skylda Mjólkursamsöluna til þess að koma upp nýjum búðum einhvers staðar annars staðar. En mér finnst að það sé annaðhvort fyrir Mjólkursamsöluna að selja mikla mjólk eða ekki. því miður held ég að við verðum að horfast í augu við það. Ég viðurkenni fullkomlega rök hv. þm. sem hér hafa talað í málinu, Svövu Jakobsdóttur og Magnúsar Torfa og þó sérstaklega rök Eðvars Sigurðssonar, þar sem hann benti á að þessi breyting hlyti að hafa í för með sér fyrr en síðar verri þjónustu og hærra verð, þegar kaupmenn væru orðnir einráðir með mjólkurdreifinguna. En gallinn er bara þessi, að skjaldborgin var of seint slegin um Mjólkursamsöluna. Ég vil ljúka orðum mínum á því að heita á verkafólk, hvar sem er á landinu, að slá skjaldborg um samvinnufélög sin og gera það áður en það er orðið of seint.