10.12.1976
Efri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

119. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það til l. um tollskrá o.fl., sem hér er til 1. umr., markar að mörgu leyti tímamót í íslenskri tollasögu. Ber þar fyrst og fremst til að með frv. er stigið síðasta stóra skrefið í þeirri aðlögun að breyttri verslunar- og viðskiptastefnu sem mörkuð var þegar Ísland gekk til fríverslunarsamstarfs við Vestur-Evrópu í ársbyrjun 1970 sem ætlað var að ryðja braut fyrir fjölbreyttara atvinnu- og efnahagslífi á Íslandi.

Frv. þetta er samið af embættismönnum í tolladeild fjmrn. Drögin að þeim breytingum, sem frv. felur í sér, eiga sér tvær rætur: Í fyrsta lagi skuldbindingar Íslands, sem gengið var í þegar aðild að EFTA var ráðin. Í öðru lagi óskir og kröfur talsmanna iðnaðarins sem EFTA-aðildin snertir mest. Frv. hefur síðan verið rætt síðustu daga og vikur við þá fulltrúa atvinnulífsins sem helst hafa hagsmuna að gæta í þessu sambandi. Frv. er þannig fram sett, að það sýnir í fyrsta lagi núgildandi tolla og í öðru lagi tollbreytingar frá 1. jan. 1977 til 1. jan. 1980.

Ekki er úr vegi, þar sem hér er um veigamiklar tollalagabreytingar að ræða, að rifjaðir séu upp stuttlega helstu áfangar í þróun íslenskrar tollalöggjafar frá upphafi.

Þær vörur, sem aðflutningsgjöld voru fyrst lögð á, voru alls konar vin, brennivin og „þess háttar“, eins og þar segir, tilbúið úr áfengum drykkjum. Frv. til tilskipunar um þetta efni var samþykkt á Alþ. 1871. Áfengistollurinn var síðan hækkaður nokkrum sinnum og tollar lagðir á nokkrar aðrar vörur, en afar varlega var farið í sakirnar allt fram yfir heimsstyrjöldina.

Með tollalögum fyrir Ísland frá árinu 1901 voru fyrstu heildartollalögin sett. Álagning tolla var þó enn takmörkuð við örfáar vörutegundir. Með lögum frá 1912 um vörutoll er í fyrsta sinn lagður á almennur vörumagnstollur. Þessi fyrsti almenni tollur var síðan hækkaður nokkrum sinnum og stóð svo til ársins 1926, en þá var með l. nr. 47 1926, um verðtoll, í fyrsta sinn lagður á verðtollur.

Vörutollar, almennir og sérstakir, voru síðan innheimtir hlið við hlið eftir ýmsum lögum þar til sett voru lög um tollskrá nr. 62 30. des. 1939. Tollskrá þessi var samin eftir alþjóðlegu frv. er Þjóðabandalagið hafði lagt fram 1928, en frv. þetta varð til í framhaldi af alþjóðlegri ráðstefnu um fjármál og viðskipti sem haldin var í Genf í maímánuði 1927.

Tollskráin frá 1939 var mikil framför frá tollalögum sem áður giltu. Með lögum þessum var sérstök tollskrá í lög tekin og dregin saman í eina heild öll hin dreifðu ákvæði tollalöggjafarinnar um aðflutningsgjöld sem í gildi voru. Báru flestar vörur samkvæmt henni bæði vörumagns- og verðtoll.

En brátt knúði fjárþörf ríkissjóðs á að nýju. Voru því aðflutningsgjöld á árunum 1947–1960 innheimt með álagi og tekin upp ýmis ný innflutningsgjöld af innfluttum vörum. Af ráðstöfunum þessum leiddi að aðflutningsgjöld í heild af ýmsum vörum voru orðin geigvænlega há og buðu heim ólöglegum innflutningi, og samræmi það í tollálagningu, sem náðist með tollskrárlögunum frá 1939, var gersamlega farið út um þúfur og tollákvæðin voru orðin allt of margbrotin og erfið í framkvæmd.

Í árslok 1959 var skipuð n. til að endurskoða öll gildandi lög um aðflutningsgjöld og semja frv. að nýrri tollskrá eftir hinni alþjóðlegu tollskrárfyrirmynd, Brüssel-skránni svonefndu, en frv. þetta varð að lögum nr. 7 1963, um tollskrá o.fl. Með þessari tollskrá voru enn á ný dregin saman í eina heild hin ýmsu dreifðu ákvæði löggjafarinnar, tollar á mjög mörgum vörum lækkaðir stórlega og miklu meira samræmi en áður komið á tolla af skyldum vörum og vörum til sams konar eða svipaðrar notkunar. Með lögfestingu hinnar nýju tollskrár var einnig að öðru leyti stigið stórt framfaraspor.

Eftir síðari heimsstyrjöldina hófst á ný alþjóðleg samvinna í mörgum greinum, þ. á m. um tollamal. Árangur þeirrar samvinnu var m.a. sá, að 15. des. 1950 var í Brüssel undirrituð samþykkt um vöruflokkun í tollskrá. Með þeirri samþykkt var stefnt að því að tollskrár hinna ýmsu landa skyldu samræmdar að formi til og samin var tollskrárfyrirmynd sem nefnd var Brüssel-skráin. Var talið að yfir 50 þjóðir hefðu komið þeirri tollskrá á hjá sér árið 1963, þ.á m. öll lönd Vestur-Evrópu, en nú munu um 130 þjóðir byggja tollalöggjöf sína á Brüssel-skránni.

Á tímabilinu 1963–1970 var tollskránni breytt á hverju ári og ávallt til lækkunar á aðflutningsgjöldum. Með l. nr. 3 15. febr. 1968 voru tollar m.a. lækkaðir á ýmsum vörum í samræmi við skuldbindingar sem leiddi af niðurstöðum hinna svonefndu Kennedy-viðræðna á vegum GATT, þ.e. hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti. Nefna má og breyt. á tollskrárlögum sem gerð var með l. nr. 80 31. des. 1968, þegar leiðréttingar voru gerðar á gildandi lögum vegna breytinga, sem orðið höfðu á Brüssel-tollskránni, og lögfest voru ákvæði um eðlisverðsskýrgreiningu verðmætis vara samkvæmt alþjóðlegu samkomulagi sem Ísland fylgir í reynd.

Eins og fyrr er að vikið verða straumhvörf í þróun íslenskrar tollalöggjafar frá og með ársbyrjun 1970 vegna aðildar Íslands að EFTA og síðar fríverslunarsamnings Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu sem kom í kjölfar þess að Danmörk og Bretland gengu úr EFTA og gerðust aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu.

Þótt skammt sé liðið er ekki úr vegi að rifja upp helstu ákvæði EFTA-samningsins, án þess þó að farið sé nánar út í forsendur aðildarinnar eða rædd þau markmið sem að var stefnt með aðildinni, enda er hv. alþm. fullkunnugt um þá hlið málsins.

Svo var um samið að aðildarlönd EFTA, þ.e. Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Noregur, Bretland, Sviss, Austurríki og Portúgal, skyldu þegar frá byrjun eða 1. mars 1970 fella niður tolla við innflutning til viðkomandi landa á íslenskum iðnvarningi og nokkrum þýðingarmiklum sjávarafurðum sem EFTA-samkomulagið tók til. Jafnframt var í sambandi við aðildina samið um við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum að þær veittu sérstakar viðskiptaívilnanir til handa íslendingum hvað snerti útflutning á dilkakjöti. Auk þess var stofnaður svokallaður Norrænn iðnþróunarsjóður sem Norðurlöndin fjármögnuðu til eflingar íslenskum útflutningsiðnaði.

Þannig hefur útflutningur íslenskra vara notið fulls tollfrelsis í EFTA-löndunum frá ársbyrjun 1970, og samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu munu íslenskar vörur njóta tollfrelsis í aðildarríkjum bandalagsins frá og með 1. júlí 1977, líkt og útflutningur annarra EFTA-land til Efnahagsbandalagsins, en EFTA-löndin gerðu hliðstæða fríverslunarsamninga við Efnahagsbandalagið í kjölfar úrsagnar breta og dana úr EFTA og íslendingar gerðu, og tóku allir þessir samningar gildi hinn 1. apríl 1973. Frá og með miðju næsta ári verður því komin á full fríverslun með iðnaðarvörur milli 16 ríkja Vestur-Evrópu og einnig að því er okkur snertir tollfrjáls aðgangur fyrir flestar þýðingarmestu sjávarafurðir okkar á þessum mörkuðum.

Á móti þessum tollaívilnunum íslenskum útflutningi til handa skuldbundu íslendingar sig til að fella á ákveðnu árabili, þ.e. árunum 197U1980, að fullu niður tolla á innflutningi iðnaðarvara frá löndum EFTA og Efnahagsbandalagsins sem jafnframt eru framleiddar hér á landi. Svo að dæmi sé tekið falla þannig niður tollar á fatnaði ýmiss konar við innflutning frá EFTA eða Efnahagsbandalagslöndunum, en hins vegar ekki á bifreiðum þar sem þær eru ekki framleiddar hér á landi.

Á það skal þó bent að gefnu tilefni að vörusvið fríverslunarsamningana, eins og það snýr að innflutningi til Íslands, er í stórum dráttum takmarkað við iðnaðarvörur í tollskrárköflunum 25–99, en tekur, svo dæmi sé tekið, ekki til landbúnaðarvara. því er þetta ítrekað hér að við mat á nauðsynlegum lagfæringum á tollakjörum íslenskra atvinnuvega í kjölfar EFTA-samkomulagsins hefur reynst nauðsynlegt til að firra ríkissjóð sem mestu tolltekjutapi að gera skýran greinarmun á þeim atvinnu- og framleiðslugreinum annars vegar, sem EFTA-samkomulagið og síðar Efnahagsbandalagssamningurinn hafa bein samkeppnisáhrif á vegna minnkandi tollverndar innlendrar framleiðslu, og hins vegar þeirra, sem engin breyting af þessu tagi hefur orðið á, svo sem í mjólkuriðnaði og fiskiðnaði. Hafa orðin samkeppnisiðnaður og verndarvöruiðnaður verið notuð um þær greinar sem orðið hafa fyrir aukinni samkeppni enda þótt þau séu engan veginn nógu nákvæm til að ná fram fyrrgreindri aðgreiningu.

Svo nánar sé vikið að lækkunum tolla við innflutning frá EFTA- og Efnahagsbandalagsríkjunum, var svo um samið að tollar á verndarvörum yrðu lækkaðir um 30% í ársbyrjun 1970, en yrðu síðan óbreyttir fram til ársins 1974, er þeir voru lækkaðir um 10% af þeim grunntolli er í gildi var í ársbyrjun 1970, og síðan áframhaldandi um 10% árlega fram til ársins 1980 er tollvernd íslensks verndarvöruiðnaðar verður afnumin.

Af samningsákvæðum þeim, sem hér hefur verið lýst, leiddi að nauðsynlegt reyndist að gera verulegar breytingar á tollum á aðföngum íslensks verndarvöruiðnaðar. Hafa þær breytingar verið gerðar í áföngum, fyrst með breytingum í tollskrárlögum frá 1970, þá 1974, og með þessu frv. eru enn frekari breytingar ráðgerðar. Þannig voru árið 1970 tollar á hráefni til iðnaðar almennt lækkaðir úr 50% og tollar á vélum lækkaðir í 7%. Árið 1974 voru tollar af vélum að fullu felldir niður, tollar af hráefnum lækkaðir um helming frá því sem þeir höfðu verið í árslok 1973, en þeir síðan að fullu felldir niður í byrjun þessa árs. Má því segja að frá þessum tíma hafi íslenskur verndarvöruiðnaður í stórum dráttum búið við tollfrelsi á beinum hráefnum og vélum til framleiðslu sinnar. Þessi almenna regla hefur þó ekki verið án undantekninga og er með þessu frv. stefnt að lausn þeirra vandamála sem eftir voru skilin á því tollalækkunartímabili sem hér hefur verið lýst.

Áður en vikið er að helstu breytingum, sem frv. þetta felur í sér, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um hlut tolltekna hins opinbera sem hlutfall af heildartekjum ríkissjóðs, en þá er ekki tekið tillit til markaðra skatta á innflutningi til sérþarfa.

Hlutur tolltekna frá árinu 1969 til ársins 1976 hefur lækkað úr 31.9% í 18.9% á þessu tímabili, og samkvæmt árlegum áætlunartölum fjárlagafrv. 1977 og fyrirhuguðum lækkunum samkvæmt þessu frv. mun þetta hlutfall lækka í 15.5% á árinu 1977, 13 .9% 1978, 12.6% 1979 og 11.2% árið 1980.

Þegar litið er nánar á tölur um hlut tolltekna í heildarríkissjóðstekjum er það athugunarefni, að þrátt fyrir þessa hlutfallslegu lækkun hefur íslenska tollkerfið enn sérstöðu í samanburði við önnur lönd í Vestur-Evrópu þar sem tolltekjur eru yfirleitt ekki hærri en 1–3% af ríkissjóðstekjum viðkomandi landa. Er þá enn athugunarefni hvort og að hvaða leyti þessi sérstaða valdi því að íslenskum verndarvöruiðnaði séu búin önnur og verri skilyrði hvað snertir gjöld á ýmiss konar aðföngum en keppinautum innan þeirra fríverslunarsvæða sem Ísland tengist.

Fyrst verður fyrir að tollar á öðrum fjárfestingarvörum en vélum og tækjum hafa yfirleitt ekki lækkað og eru almennt á bilinu 18-35%. Auk þessara háu gjalda er lagður 20% söluskattur á flestar vörur, en sambærilegan skatt fá erlendir samkeppnisaðilar endurgreiddan í virðisaukaskattkerfi viðkomandi landa. Þá greiðist þessi missiri 18% vörugjald af ýmsum fjárfestingarvörum sem ekki er lagt á í nágrannalöndunum. M.a. með hliðsjón af þessum þætti í samanburði á gjöldum innlends verndarvöruiðnaðar annars vegar og erlendra samkeppnisaðila hins vegar gerir frv. ráð fyrir því að tollur á helstu fjárfestingarvörum verði lækkaður í áföngum frá og með ársbyrjun 1978 til ársbyrjunar 1980.

En önnur sjónarmið hafa jafnframt ýtt undir þá stefnubreytingu um tolla á fjárfestingarvörum sem frv. felur í sér. Má nefna að Alþ. hefur oft á undanförnum árum látið í ljós vilja til lækkunar byggingarkostnaðar. Þessi breyting gengur eins langt og við verður komið á þessu stigi til móts við þær óskir. Hún mun að öðru jöfnu jafnt koma húsbyggjendum sem atvinnurekstrinum til góða í lægra efnisverði til húsbygginga. Það er viðbótarröksemd fyrir þessari lækkun tolla á fjárfestingarvörum að á undanförnum árum hefur aukist verulega innflutningur á einingahúsum alls konar svo og stálgrindahúsum. Smiði innlendra húsa úr strengjasteypu og smiði innlendra einingahúsa á í samkeppni við þennan innflutning sem er á leiðinni að verða tollfrjáls samkvæmt EFTA-reglunum.

Eins og ég hef hér lýst í stórum dráttum, er meginstefna þessa frv. að í lok þessa tollalækkunartímabils, sem frv. spannar yfir, þ.e.a.s. 1980, verði álögur á aðföng íslensks samkeppnisiðnaðar að mestu horfnar. Að því er varðar verksmiðjuiðnað hverfa þessar álögur nær alveg frá og með 1977, að öðru leyti en tekur til bygginga, en ýmsar aðrar veigamiklar álögur er ráðgert að hverfi smám saman á tímabilinu.

Ég vil í framhaldi af þessum almenna inngangi fara nokkrum orðum um helstu ákvæði frv. þess sem hér er til umr. og skipta helstu breytingum frv. frá gildandi lögum í 9 flokka sem ég mun nú gera grein fyrir lið fyrir lið.

Í fyrsta lagi felur frv. í sér samningsbundnar tollalækkanir á verndarvörum frá löndum EFTA og EBE, en samkvæmt innflutningstölum frá miðju ári 1970 til ársins 1976 nam innflutningur verndarvara alls 17.1 milljarði króna af heildarinnflutningi um 73.4 milljarða króna eða 23.2%. Þar af nam innflutningur frá EFTA- og Efnahagsbandalagslöndum 14.9 milljörðum, en 2.2 milljörðum frá löndum utan EFTA og Efnahagsbandalagsins. Tolltekjur ríkissjóðs af þessum innflutningi námu á sama tímabili um 21/2 milljarði kr. og þar af 2 milljörðum kr. frá EFTA og Efnahagsbandalaginu. Ríkissjóður verður af þessum tekjum á næstu árum, og sýnir frv. hvernig tollar af innflutningi frá löndum EFTA og Efnahagsbandalagsins munu fara lækkandi stig af stigi á þessu tímabili, sbr. fylgiskjal í með frv. Séu fyrrgreindar tölur um tekjutap ríkissjóðs af þessum innflutningi færðar yfir á tekjugrunn fjárlagafrv. 1977, má ætla að það nemi samtals um 2.3 milljörðum kr. á næstu 4 árum.

Nokkur frávik er að finna í frv. frá þeim tollalækkunarferli sem um var samið við inngöngu í EFTA, og ber þar helst til að samningsbundnum tollalækkunum á nokkrum verndarvörum er hraðað vegna eindreginna tilmæla samtaka iðnaðarins. Vörur þær, sem hér um ræðir, fengu á sínum tíma sérstakan E-toll, en þar sem þær eru íslenskum iðnaði mun mikilvægari sem hráefni en sem verndarvara og innlend framleiðsla þeirra er mjög takmörkuð eru tollar af vörum þessum felldir niður að fullu frá löndum EFTA og Efnahagsbandalagsins frá 1. jan. 1977.

Annar þáttur endurskoðunar gildandi tollskrárlaga, sem frv. þetta nær til, er lækkun tolla á verndarvörum innfluttum frá löndum utan EFTA og Efnahagsbandalagsins. Til að koma í veg fyrir óeðlilegan tollamun á innflutningi frá þessum löndum annars vegar og EFTA- og Efnahagsbandalagslöndunum hins vegar er gert ráð fyrir að tollar verði einnig lækkaðir á vörum frá þessum löndum. Er nánari útlistun á tollalækkunum þessum að finna í grg. með frv. Rétt þykir þó að taka fram í þessu sambandi til að forðast misskilning, sem nokkurs hefur gætt, að samningarnir við EFTA og Efnahagsbandalagið byggjast á því að samningsaðilar veiti hver öðrum gagnkvæm tollfríðindi. Getur því ekki orðið um að ræða að innflutningur frá löndum utan Vestur-Evrópu njóti almennt sömu tollkjara við innflutning til Íslands og innflutningur frá EFTA og Efnahagsbandalaginu nema samið verði um gagnkvæm tollfríðindi við viðkomandi aðila á grundvelli GATT-samkomulagsins um fríverslunarsvæði. Áætlað er að tekjutap ríkissjóðs samkvæmt þessum þætti muni nema um 90 millj. kr. á ári fram til 1980.

Þriðji þáttur endurskoðunar gildandi tollskrár beinist að lækkun tolla á þeim vélum, hráefnum og rekstrarvörum til iðnaðar sem gjöld höfðu en ekki verið lækkuð af. Má segja að af þessum þremur tegundum aðfanga sé rekstrarvöruþátturinn hvað mikilvægastur, því að í langflestum tilvíkum höfðu gjöld þegar verið felld niður að fullu af vélum og hráefnum. Má gera ráð fyrir að lækkun tolla á rekstrarvörum einum sér, þ.e.a.s. á ýmsum vörum til tækninota og verkfæra ýmiss konar, nemi um 170 millj. kr. á næstu 4 árum. Koma lækkanir þessar til framkvæmda á mislöngum tíma, en leitast var við að þær lækkanir, sem mikilvægastar virtust, kæmu að fullu til framkvæmda strax frá næstu áramótum.

Fjórði þáttur endurskoðunar beinist að lækkun tolla af fjárfestingarvörum og hef ég þegar vikið nokkuð að þeim þætti. Gert er ráð fyrir að lækkanir þessar komi til framkvæmda í áföngum og þá í fyrsta sinn hinn 1. jan. 1978. Í grófum dráttum má segja að tollalækkun þessi taki til vöruflokka eins og byggingarplatna ýmiss konar, furu, þakjárns, einangrunarplatna og -efnis, steypustyrktarjárns, pípna og pípuhluta, raflagnaefnis ýmiss konar, auk lækkana á vélum, vélarhlutum og varahlutum almennt, sem þó að mestu leyti er notað í iðnaði og öðrum atvinnurekstri. Gert er ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum, þegar allar lækkanirnar eru komnar til framkvæmda, nemi um 1 milljarði 150 millj. kr. á grundvelli fjárl. 1977.

Fimmti þáttur endurskoðunar beinist að lækkun hæstu fjáröflunartolla. Í tollskrárlögum þeim, er tóku gildi í ársbyrjun 1974, voru tollar á fjölmörgum vörum, sem báru 100% tolla, lækkaðir í 80%. Var litið á þessa breytingu sem fyrsta skrefið í átt til lækkunar fjáröflunartolla almennt, og lýstu ýmsir alþm. fylgi við slíka lækkun í umr. um málið hér á Alþ. Um almennan rökstuðning fyrir nauðsyn þess að lækka fjáröflunartolla vísa ég til athugasemda frv. um það efni sem tvímælalaust á erindi inn í umr. um framtíðarskipan þessara mála.

Af tekjuöflunarsjónarmiðum þótti ekki fært á þessu stigi að lækka almenna fjáröflunartolla meira en svo að þeir tollar, sem eru enn 100%, verði lækkaðir í 80% svo og allir 90% tollar, að undanskildum tollum af bifreiðum. Ég tel að nauðsyn beri til að gera enn frekara átak í þessu efni enda þótt ekki þyki fært í þessu frv. að tímasetja hugsanlegar lækkanir af því tagi.

Sjötti þáttur endurskoðunarinnar miðar að því að allir magntollar, að undanskildum magntollum á olíum í 27. kafla tollskrárinnar, verði felldir niður. Yfirleitt hafa þessir tollar numið óverulegum fjárhæðum og þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir því að í þeirra stað verði lagður á verðtollur, nema á kartöflur, þar sem í stað 20 kr. magntolls pr. 100 kg komi 4% verðtollur. Er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu tekna af þessari breytingu og því fyrst og fremst um formbreytingu að ræða.

Þá er komið að mjög veigamikilli breytingu sem í frv. felst frá gildandi lögum enda þótt ekki hafi sú breyting ein sér neina tekjubreytingu í för með sér. Er hér átt við þær verulegu textabreytingar sem lagt er til að gera á íslensku tollskránni vegna breytinga sem gerðar hafa verið á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins í Brüssel sem Ísland er aðili að og íslenska tollskráin er byggð á, eins og fyrr er að vikið. Með þeim breytingum, sem hér um ræðir, fæst mun nánari sundurliðun á innflutningi til landsins sem í mörgum tilvikum getur haft hagnýtt gildi jafnt fyrir opinbera aðila sem innflytjendur og framleiðendur. Breytingar þessar munu þó vafalaust fyrst í stað valda innflytjendum og tollstarfsmönnum nokkrum erfiðleikum, en eru hins vegar ugglaust til mikilla bóta. Þessu til viðbótar hafa borist beiðnir frá ýmsum samtökum atvinnulífsins hér í landi um enn nánari sundurgreiningu innflutnings eftir tollskrárnúmerum, og hefur í frv. verið reynt að koma til móts við þær óskir eins og frekast hefur verið unnt.

Fyrst hér er minnst á hið alþjóðlega samstarf á sviði tollamála fyrir milligöngu Tollasamvinnuráðsins má geta þess, að þetta samstarf nær ekki einungis til samvinnu og samræmingar á sviði tollskrárlöggjafar, heldur til samræmingar á öðrum sviðum tolltæknilegs eðlis, svo sem á sviði verðmætisákvarðana og ýmiss konar framkvæmdaatriða, auk samstarfs til að vinna gegn alvarlegum brotum á tollalögum, svo sem ólögmætum viðskiptum með áfengi, ávana- og fíkniefni o. fl. Hefur fjmrn. upp á síðkastið lagt áherslu á virka þátttöku af Íslands hálfu í þessu samstarfi og mun því verða haldið áfram næstu árin.

Tveimur þáttum endurskoðunarinnar hefur ekki verið gerð grein fyrir, en það eru breytingar á 2. og 3. gr. gildandi tollskrárlaga um heimildir rn. til lækkunar eða niðurfellingar aðflutningsgjalda og hins vegar breytingar á ýmsum framkvæmdaatriðum tollalöggjafarinnar í 4.–38. gr. frv. Fer ég ekki nánar út í þau atriði hér, enda er ítarlega gerð grein fyrir breytingum þessum í aths. við frv.

Auk þeirra breytinga, sem nú hefur verið lýst, hafa verið gerðar einstakar breytingar aðrar, og má þar m.a. nefna lækkun tolla á vörubifreiðum undir 3 tonnum úr 40% í 30% til samræmis við gjöld af vörubifreiðum yfir 3 tonn, hækkun tolla á jeppabifreiðum úr 40% í 90%, en á móti er gert ráð fyrir lækkun innflutningsgjalds af jeppabifreiðum úr 90% í 50%. Er með þessari breytingu endanlega búið að samræma gjöld af þessari tegund bifreiða við gjöld af almennum fólksbifreiðum sem lengi hefur sýnst nauðsynlegt og eðlilegt. Þá má nefna lækkun tolla á hárkollum úr 100% í 35%, enda er um mjög smyglnæma vöru að ræða þar sem hinn hái tollur hefur fyrirbyggt eðlilega verslunarhætti með vöru þessa hér innanlands. Áður höfðu af sömu ástæðu m.a. verið lækkuð gjöld á úrum, sjónaukum, myndavélum, ilmvötnum, en það var gert með tollskrárbreytingu frá 1974.

Ljóst má vera af því, sem hefur verið sagt í ræðu þessari, að frv. þetta miðar fyrst og fremst að því að ná jöfnun í samkeppnisaðstöðu innlends verndarvöruiðnaðar við erlendan áður en tollvernd hans lýkur í ársbyrjun 1980. Til viðbótar þeim leiðréttingum, sem í frv. þessu felast og ganga í fyrrgreinda átt, vil ég minna á heimildarákvæði í fjárlagafrv. fyrir áríð 1977 þess efnis að fella megi niður að fullu sölugjald eða söluskatt af vélum og tækjum til samkeppnisiðnaðar. Það ákvæði er sett inn í fjárlagafrv. í beinum tengslum við samningu þessa frv. og verður að skoða þá lækkun sem hluta af ívilnandi aðgerðum ríkisstj. sem að er stefnt iðnaðinum til handa. Sú lækkun er talin nema um 150 millj. kr. á ársgrundvelli 1977.

Ljóst er að breytingar þær, sem í frv. þessu felast, eru ærið umfangsmiklar og ættu, eins og fyrr var getið, að jafna verulega samkeppnisstöðu innlends verndarvöruiðnaðar sé litið á tollahlið málsins sérstaklega. Ef hins vegar á að jafna samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar við erlendan til fulls og láta hann að auki njóta staðarverndar sem verið getur veruleg í ýmsum greinum sem framleiða fyrir innlendan markað, sýnist óhjákvæmilegt að taka upp virðisaukaskattkerfi hér á landi eða söluskattskerfi með virðisaukasniði.

Þrátt fyrir þær breytingar og lagfæringar, sem í frv. felast og miða að bættri samkeppnisaðstöðu innlends iðnaðar, fer ekki hjá því að íslensk tollalöggjöf, sem um langan tíma hefur mótast af háum tollum, verður vart lagfærð á skömmum tíma svo ekki verði einstök vandamál óleyst. Sérstaklega á þetta við þegar aðföng ákveðinnar iðngreinar eru jöfnum höndum til almennra nota eins og dæmi eru um. Til þess 1ð unnt sé að leiðrétta alvarlegt misræmi af þessu tagi er í 3. gr. frv. tekið upp viðtækt heimildarákvæði þess efnis að fella megi niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af aðföngum í verndarvöruiðnaði. Mun fjmrn. verða að meta hverju sinni beiðni um beitingu umrædds heimildarákvæðis á grundvelli mikilvægis hvers máls svo og út frá sjónarmiðum öruggrar tollskrárframkvæmdar og samkeppnisstöðu viðkomandi framleiðslu.

Í grg. frv. er að finna tölulegt yfirlit yfir áætlað tekjutap sem tollalækkanir frv. munu valda ríkissjóði á þeim 4 árum sem hér um ræðir. ljóst er að hér er um verulega lækkun að ræða eða samtals um 4 milljarða 400 millj. kr. og þar af koma 900 millj. kr. til framkvæmda strax á næsta ári, sem er um 300 millj. kr. meira en fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir, gerir ráð fyrir Það dylst sjálfsagt engum að ríkissjóður verði með einhverjum hætti að draga úr útgjöldum eða bæta upp þann tekjumissi sem hér um ræðir, og mun það mál koma til kasta þingsins þegar þar að kemur, en ekkert hefur að svo stöddu verið ákveðið í þeim efnum.

Á árinu 1975 var sú ósk borin fram af samtökum iðnaðarins. að leitað yrði eftir því við EFTA og Efnahagsbandalagið að fá almenna framlengingu á aðlögunartíma að því er snertir tollalækkun á verndarvörum. Ríkisstj. taldi ekki rök vera fyrir almennri framlengingu aðlögunartímans, en hins vegar kæmi til álita að óska eftir undanþágum fyrir einstakar iðngreinar er stæðu höllum fæti í samkeppninni. Í þessu skyni var að undirlagi ríkisstj. hafin athugun á vegum Þjóðhagsstofnunar á áhrifum fríverslunarsamninga á innlendan verndarvöruiðnað og mun skýrsla stofnunarinnar væntanleg á næstunni, ef hún liggur þá ekki fyrir nú þegar. Gefst þá tækifæri til athugunar á því, hvort sérstakra undanþága er þörf fyrir einstakar greinar verndarvöruiðnaðarins

Í þessu sambandi vil ég leggja ríka áherslu á það, að samþykkt þessa frv. snertir engan veginn hugleiðingar um þetta efni því að umsamdar tollalækkanir kom til framkvæmda frá ársbyrjun, hvort sem þetta frv. er þá afgreitt eða ekki, vegna skuldbindinga okkar í fríverslunarsamningunum. Dragist samþykkt þessa frv. fram yfir áramót hefur það eingöngu í för með sér að þær ívilnanir iðnaðinum til handa, sem í því felst, frestuðust til mikils óhagræðis fyrir iðnaðinn, samtímis því að samkeppnisaðstaða hans yrði lakari frá næstu áramótum vegna áðurnefndra umsaminna tollalækkana á verndarvörum við EFTA og Efnahagsbandalagið.

Ég geri mér grein fyrir að frv. þetta er lagt fram í allra síðasta lagi til þess að hægt sé að afgreiða málið fyrir jólaleyfi þm. Sá dráttur, sem orðið hefur á framlagningu frv., stafar fyrst og fremst af mikilli undirbúningsvinnu sem tekur að sjálfsögðu mikinn tíma. Ég vil hins vegar eindregið fara þess á leit við hv. Alþ. að mál þetta fáist afgreitt frá Alþ. fyrir áramót því að að mínu mati skapar frestun á afgreiðslu frv. mikil vandamál og afgreiðsla þess er mjög brýn vegna hagsmuna iðnaðarins. Ég mun að sjálfsögðu gera ráðstafanir til þess að embættismenn fjmrn. verði þm. og þn. til upplýsinga varðandi mál þetta til þess að afgreiðsla þess geti orðið með sem allra liðlegustum hætti.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.