10.12.1976
Efri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

119. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. vék að því tollskrárfrv., sem hér er til umr., og lýsti þeirri skoðun sinni að hann vildi hafa sértollalækkanir á ýmsum þeim málaflokkum sem hann taldi þar upp, og hann vék að því að hann teldi enn fremur að lækka bæri tolla á öðrum iðnaði en þeim sem hér er sérstaklega gert. Ég vil aðeins benda á það, og kem þá að því, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. vék að í sinni ræðu, að þegar um slíkt tekjutap fyrir ríkissjóð er að ræða eins og í tollalækkunum, þá hljótum við að gera okkur grein fyrir því með hvaða hætti á að mæta því, og ég sagði í frumræðu minni orðrétt, með leyfi forseta:

„Það dylst sjálfsagt engum að ríkissjóður verður með einhverjum hætti að draga úr útgjöldum eða bæta sér upp þann tekjumissi sem hér um ræðir, og mun það mál koma til kasta þingsins þegar þar að kemur, en ekkert hefur að svo stöddu verið ákveðið í þeim efnum.“

Tillögum um frekari tollalækkanir hlýtur þess vegna að fylgja till. um það, með hvaða hætti á að mæta þeim, hvar og þá hvernig dregið skuli úr útgjöldum eða þá hvort það skuli gert með annarri tekjuöflun til ríkissjóðs. Ég orða þetta eins og ég gerði í minni ræðu einfaldlega vegna þess að það er ekki áformuð sérstök tekjuöflun í þessu sambandi, þ.e.a.s. vegna þess tekjutaps sem ríkissjóður verður fyrir á næsta ári. Gert er ráð fyrir því að við afgreiðslu fjárlagafrv. verði tekið tillit til þess tekjutaps, og það gerist að sjálfsögðu ekki með öðrum hætti en haga útgjöldum ríkissjóðs þannig að stefnt verði að hallalausum fjárl. afgreiddum frá Alþingi.

Varðandi síðari spurningu hv. 5. þm. Norðurl. v., þá hefur það komið fram að hæstv. viðskrh. gerði á fundi Fríverslunarbandalagsins grein fyrir því, að til greina gæti komið með einstakar vörutegundir að það yrði leitað undanþágu frá samningsákvæðum þeirra vegna, ef það sýndi sig við athugun hér heima að ástæða þætti til þess. Þetta hefur komið fram í frásögn af ræðu hans á fundi í EFTA.