10.12.1976
Efri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta um rannsóknarlögreglu hefur verið afgreitt við þrjár umr. í hv. Nd., með nokkrum breytingum að vísu. Frv. var lagt fram á Alþ. s.l. vetur, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Þetta frv. er samið af n. sem ég skipaði í okt. 1972 til þess að endurskoða dómstólakerfi landsins á héraðsdómsstiginu og gera till. um hvernig breyta mætti reglum um málsmeðferð í héraði til að afgreiðsla mála yrði hraðari. Í þessa n., voru skipaðir menn sem hafa mjög fjölbreytta reynslu á þessu sviði, en í n. hafa átt sæti Björn Fr. Björnsson sýslumaður, sem ég hygg að sé elsti starfandi sýslumaður í embætti hér á landi nú og var auk þess formaður Dómarafélagsins eða sýslumannafélagsins þegar n. var skipuð. Það er í öðru lagi Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti í Kópavogi, sem hefur að baki mjög langa reynslu við embættisstörf í einum stærsta kaupstað landsins, en hafði auk þess áður starfað í dómsmrn. Það er í þriðja lagi Björn Sveinbjörnsson hæstaréttardómari, sem er formaður n., en hann á að baki langa reynslu bæði í dómarastörfum og sem lögmaður og svo nú sem hæstaréttardómari. Og í fjórða lagi er það Þór Vilhjálmsson, sem skipaður var hæstaréttardómari í fyrra, en hafði áður að baki alllanga reynslu í dómarastörfum við borgardóminn hér í Reykjavík, en hafði auk þess gegnt dósentsembætti og prófessorsembætti um allmörg ár og kennslugrein hans var einmitt fyrst og fremst réttarfar.

Nefnd þessi hefur unnið mikið undirbúningsstarf að hinn umfangsmikla verkefni, og var lagt fram á síðasta Alþ. til þess að sýna það frv. um lögréttu og frv. um breytingar á einkamálalögunum. Ég geri ráð fyrir því að þau frv. verði innan tíðar lögð fram hér á hv. Alþ. Þar er fjallað um endurbætur á dómstólakerfi landsins á héraðsdómsstiginu, og það er þess eðlis að ég býst við að það geti orðið skiptar skoðanir um það, og það er engan veginn eins einfalt mál og þetta sem hér liggur fyrir. Ég skal ekki ræða það frekar í þessu sambandi. En í þessu frv. er aðeins fjallað um afmarkaðan þátt málsmeðferðar í opinberum málum. Það efni taldi n. svo skýrt afmarkað að unnt væri að ljúka meðferð þess málefnis fyrr með því að greina það frá öðrum verkefnum sem n. hefur unnið að og vinnur að.

Það má segja að nú hafi verið rætt allmikið um þessi mál, bæði um þetta frv. og um dómsmálalöggæslu almennt, og ég skal ekki fara út í umr. um það hér, en vil aðeins stuttlega gera grein fyrir því, hverjir eru höfuðefnisþættir þessa frv.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að sett verði á stofn sérstök stofnun, rannsóknarlögregla ríkisins, undir stjórn rannsóknarlögreglustjóra og í rannsóknarlögreglu ríkisins verði starfsmenn, sem sérstaklega séu sérhæfðir til þess að rannsaka ýmsar tegundir brota.

Það er ekki vafi á því, að með stofnun slíkrar sérstakrar rannsóknarlögreglu ríkisins skapast betri möguleikar en áður á því að beina sérhæfðum starfskröftum að meðferð þeirra mála, sérstaklega í Reykjavík og annars staðar á landinu, og þá skiptir ekki síst máli að hinir færustu menn, jafnvel í sérgreindum verkefnum, gætu þegar á frumstigi rannsóknar verið til taks, bæði til sjálfstæðrar rannsóknar á vandasömum málum og til stuðnings starfsfélögum við önnur lögreglustjóraembætti.

Annað höfuðefnisatriði þessa frv. er það, að rannsóknarlögreglunni er ætlað að taka til landsins alls án tillits til umdæmaskiptingar, en nú er rannsóknarlögregla, þar sem hún er, eins og t.d. hér í Reykjavík og annars staðar, bundin við ákveðin umdæmi. Það er ekki heppilegt. Það er heppilegra að rannsóknarlögregla geti haft með höndum rannsóknir þó í ýmsum lögsagnarumdæmum sé, af því að mörgum brotum er svo háttað að inn í þau fléttast verknaðir sem hafa e.t.v. verið framdir víðar en í einu lögsagnarumdæmi og enn fremur geta fleiri menn, sem eru hver í sínu lögsagnarumdæmi, komið þar við sögu. Þess vegna er rannsóknarlögreglan ekki staðbundin með sama hætti og önnur löggæsla. Þetta kemur fram í 3. og 4. gr. 3. gr. var breytt nokkuð í hv. Nd. og með þeirri breytingu undirstrikað þetta, sem ég hef lagt áherslu á, að rannsóknarlögreglan á ekki að vera bundin við eitt einstakt lögsagnarumdæmi. Eftir þá breytingu, sem gerð var á 3. gr. í Nd., segir:

„Rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum lögreglurannsóknir brotamála í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarneskaupstað, Garðakaupstað, Hafnarfirði og Kjósarsýslu, að því leyti sem þær eru ekki í höndum lögreglustjóra þar, samkv. ákvæðum þessara laga eða annarra réttarreglna. Með sama hætti skal rannsóknarlögregla ríkisins hafa með höndum rannsóknir brotamála í Keflavík, Grindavík, Njarðvíkum, Gullbringusýslu og Keflavíkurflugvelli þegar dómsmrh. ákveður.“

Í upphaflega frv. var þarna aðeins nefnd Reykjavík, þannig að þetta hefur verið fært út þar sem rannsóknarlögreglan beinlínis hefur með höndum rannsóknir. En auk þess er það 4. gr. sem tekur af öll tvímæli um það, að rannsóknarlögreglunni er ætlað að starfa hvar sem er á landinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknarlögregla ríkisins skal veita lögreglustjórum og sakadómurum, hvar sem er á landinu, aðstoð við rannsókn brotamála þegar þeir óska og rannsóknarlögreglustjóri og/eða ríkissaksóknari telja það nauðsynlegt. Ríkissaksóknari getur og falið rannsóknarlögreglu ríkisins rannsóknir einstakra mála hvar sem er á landinu þegar hann telur þess þörf. Loks getur rannsóknarlögreglustjóri að eigin frumkvæði tekið í sínar hendur rannsókn máls utan þeirra umdæma sem talin er í 3. gr., en tilkynna skal hann viðkomandi lögreglustjóra um málið svo fljótt sem verða má, enda ber honum að veita rannsóknarlögreglu ríkisins alla nauðsynlega aðstoð.“

Bæði ríkissaksóknari og rannsóknarlögreglustjóri geta átt frumkvæði að því að taka mál til rannsóknar hvar sem er á landinu, og þeir geta líka gert það samkv. beiðni viðkomandi héraðsdómara og lögreglustjóra og veitt þá aðstoð við rannsóknina.

Ég tel þetta breytingu sem er til mikilla bóta. En þrátt fyrir það þó að þannig sé sett upp sérstök stofnun, rannsóknarlögregla, þá er gert ráð fyrir því að það þurfi að starfa eftir sem áður sérstakir rannsóknarlögreglumenn hjá báðum embættum og við þau embætti hafi þeir með höndum sérstaka málaflokka, eins og greint er í 6. gr., þar sem þeim deildum rannsóknarlögreglu, sem heyra þannig undir viðkomandi lögreglustjóra, er ætlað að rannsaka umferðarslys og brot á umferðarlögum, í öðru lagi brot á lögreglusamþykktum, í þriðja lagi brot á áfengíslögum önnur en þau er varða ólögmætan innflutning áfengis, í fjórða lagi brot á tilkynningum um aðseturskipti og í fimmta lagi aðra þá málaflokka sem ákveðið kann að verða í reglugerð að fela þessum lögreglustjórum. En það getur vel verið að reynslan sýni að það geti verið heppilegt að bæta við fleiri málefnaflokkum sem þeim sé falið að rannsaka, og auðvitað er ætlunin sú, að það verði fyrst og fremst meiri háttar afbrot sem rannsóknarlögregla ríkisins fæst við að rannsaka.

Þriðja meginatriðið í þessu frv. er svo það, að það á sér stað, ef það verður að lögum, aðskilnaður milli lögreglu og dómsvalds, en eins og menn vita er það hér í Reykjavík svo, að rannsóknarlögreglan heyrir undir sakadóm eða yfirsakadómara hér í Reykjavík, en hér er gert ráð fyrir að rannsóknarlögregla heyri undir þennan sérstaka embættismann, rannsóknarlögreglustjóra, og skilið sé þannig á milli lögreglurannsóknar og svo aftur dómarastarfa. Með þessu er stigið mjög markvert spor í þá átt að skilja að dómsvald og rannsóknarstjórn í opinberum málum og með því enn stigið spor í átt frá hinu forna rannsóknarréttarfari til ákæruréttarfars, eins og það er kallað. Þótt dómarar utan Reykjavíkur yrðu áfram stjórnendur lögreglumanna, eða utan þessara umdæma sem nú eru talin upp í 3. gr., þá mundi þátttaka rannsóknarlögreglu ríkisins í meðferð hinna veigameiri málsrannsókna einnig þar stuðla að því að dómararnir stæðu nokkru meira en nú er utan við rannsóknarstjórnina. Mönnum hefur lengi verið það ljóst í sjálfu sér, að æskileg væri breyting á réttarfarinu í þessa átt, og hafa komið fram till. áður á Alþ. um það eim, en þær hafa ekki náð fram að ganga.

Ég tel að með þessu frv. sé stigið verulegt skref í átt til þess að bæta rannsóknir í opinberum málum. Þarf ekki að fjölyrða um það hér, að afbrotum ýmiss konar hefur farið mjög fjölgandi á undanförnum árum. Liggja að nokkru leyti til þess augljósar ástæður og hafa komið til alveg nýjar atbrotategundir, eins og menn vita. Þar eru t.d. fíkniefnamálin sem eru ástæða ýmissa afbrota. Mörg afbrot eru framin undir áhrifum slíkra efna eða í sambandi við neyslu þeirra. Þá er það og, svo sem alkunnugt er, að óhófleg áfengisnautn á sinn þátt í ýmsum brotum hér. Það hefur líka átt sér stað að komið hefur til sögu ýmiss konar misferli í viðskiptum sem áður voru óþekkt hér á landi, eins og t.d. í sambandi við tékka, sem var a.m.k. ákaflega sjaldgætt, en er nú því miður of títt, Þá hefur það auðvitað gerst á síðustu árum, að Íslands hefur færst í þjóðbraut og það hefur sín áhrif að ýmsu leyti, t.d. í sambandi við brot á innflutningslöggjöf, smygl og annað því um líkt. Það liggja þannig margar ástæður og fleiri en þær, sem ég hef hér drepið á, til þeirrar afbrotaöldu sem risið hefur og sumir vilja kalla svo og víst má með rétti nefna því nafni, sérstaklega að því er varðar hin alvarlegri brot.

Auðvitað hafa brot verið framin hér á Íslandi og það alvarleg og gróf afbrot á öllum öldum. En það er hægt að segja að þetta hafi farið ískyggilega í vöxt á undanförnum árum. Það var heppilegt að við skyldum vera að nokkru leyti búnir undir þá miklu fíkniefnaöldu sem hér hefur risið, vegna þess að það var settur á stofn sérstakur dómstóll, fíkniefnadómstóli, og rannsóknardeild í sambandi við hann sem var tekin til starfa áður en þessi mál komust á það stig sem þau virðast hafa náð allra síðustu árin. Ég hygg að starfsemi hans á þessu sviði hafi verið ómetanleg og eigi eftir að sýna sig að hafa gert mikið gagn, og vonandi tekst að vinna bug á því óláni.

En hvort sem menn dvelja lengur eða skemur við að rekja þær ástæður sem liggja til grundvallar því að afbrot eru framin, þá verða menn að horfast í augu við þá staðreynd að þau eiga sér stað og brotum hefur farið fjölgandi, og við því verður að snúast með viðeigandi hætti. Það verður auðvitað að gera þær ráðstafanir sem hægt er til þess að reyna að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað, og auðvitað er aðalatriðið að beita slíkum fyrirbyggjandi ástæðum að ekki séu fyrir hendi orsakirnar sem valda því í mörgum tilfellum að menn fremja afbrot. En enn fremur verður að gæta þess að beitt sé viðeigandi aðgerðum til að upplýsa um brot, sem framin eru, og beitt viðeigandi úrræðum til að mæta þeim, refsiúrræðum. Og það er auðvitað svo, að refsiframkvæmd og réttarfar verður jafnan að laga sig nokkuð eftir aðstæðum, þannig að það getur verið ástæða til að snúast við með strangari hætti en almennt er þegar slíkar afbrotaöldur rísa eins og hér hefur átt sér stað.

Nú hefur löggæsla og dómstólar sætt nokkurri gagnrýni fyrir það að þeir aðilar væru ekki nógu skjótvirkir og e.t.v. stundum líka ekki nógu harðhentir í þessum efnum, beittu ekki nógu ströngum úrræðum, dæmdu ekki nógu strangt og annað því um líkt, það væri of mikill seinagangur á málum hjá þeim. Sjálfsagt getur slík gagnrýni átt við ýmis rök að styðjast í ýmsum tilfellum. En það vil ég undirstrika og það vona ég að allir séu sammála um, að hér eigi að vera réttarríki, en ekki lögregluríki. Þar sem lögregluríki er gengur skjótar að rannsaka mál, en hér er takmarkið að upplýsa hið sanna í hverju máli og girða fyrir það að saklaus maður verði dæmdur sekur. Þess vegna er óhjákvæmilegt að rannsóknir brotamála og það að upplýsa mál taki æðilangan tíma, og í það má ekki horfa. Ég hygg að sannleikurinn sé sá, að athugun mundi leiða í ljós að flest brotamál upplýsast hér að lokum. Auðvitað getur líka verið spurning um það, í hve ríkum mæli á að beita refsiúrræðum til varnar. Auðvitað eru allir sammála um að það er óhjákvæmilegt í mjög mörgum tilfellum, en hitt geta verið skiptar skoðanir um, hversu langt á að ganga í því efni.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að æðrast neitt í þessum efnum þó að þessi afbrotaalda gangi nú yfir. Við henni verður að snúast, eins og ég hef áður sagt, með ýmsum hætti. Það er fyrst og fremst þörf á því að athuga þær þjóðfélagslegu aðstæður sem liggja til grundvallar því, að afbrot eru framin, og reyna að nema þær brott. Í öðru lagi verður að byggja upp löggæsluna og dómstólakerfið þannig að lögum verði komið yfir þá sem sekir reynast. Í sambandi við það má ekki horfa í kostnað, en það hefur löngum verið svo að hv, alþm. hafa haft meiri áhuga á fjárveitingum til annarra mála en þessara.

En það vil ég svo segja, að þó að mikið hafi verið sagt og margt verið skrafað um afbrotaöldu, þá vil ég eindregið vara við því að menn láti það leiða sig út í eitthvert galdrabrennuhugarfar. Það hugarfar þekkja menn úr sögunni hér á landi og vita til hvers það leiddi. Það ríður á miklu að menn haldi jafnvægi sínu og stillingu þó að sitthvað gangi á í þessum málum og margt gerist sem er hörmulegt.

Þetta mál hefur hlotið mjög gaumgæfilega athugun í hv. Nd. Það var, eins og ég hef áður sagt, lagt fyrir d. snemma í fyrravetur. Hún sendi það þá ýmsum aðilum til umsagnar, og hún fékk umsagnir þeirra. Í sumar var málið svo aftur lagt fyrir hina svokölluðu réttarfarsnefnd, sem ég nefndi í upphafi, ásamt þeim umsögnum sem borist höfðu, og fór hún þá yfir það og taldi raunar ekki ástæðu til að gera breytingar á þessu frv. um rannsóknarlögreglu. Frv. var svo lagt fyrir Nd. í byrjun þessa þings, og allshn. þar hefur athugað málið mjög rækilega síðan, kynnt sér það með ýmsum hætti og hefur, eins og ég sagði áðan, gert nokkrar breytingar sem náðu samþykki í Nd. og ég tel til bóta. Þar er fyrst og fremst um að ræða breytinguna á 3. gr. Með skírskotun til þessa vil ég mega vonast til þess að hv. Ed. og sú n., sem fær málið hér til meðferðar, geti fallist á að haga afgreiðslu þess svo að það fái fullnaðarafgreiðslu fyrir jólahlé, því að ég tel nauðsynlegt að þessi lög geti öðlast gildi um áramót, en síðan tekur undirbúningur þess að koma þeim í framkvæmd nokkurn tíma og er gert ráð fyrir að miðað sé þar við 1. júní.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.