10.12.1976
Efri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

12. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er fylgifrv. með því frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins sem ég mælti fyrir áðan. Þegar þetta frv. var lagt fyrir Alþ. í fyrra voru aðeins teknar upp í það þær breytingar sem óhjákvæmilega leiddi af þeirri skipulagsbreytingu að sett er á fót rannsóknarlögregla. Í þeim umsögnum, sem þá voru fengnar frá ýmsum aðilum, komu fram ábendingar um nokkrar aðrar breytingar sem æskilegt væri að gera. Réttarfarsnefndin fór yfir frv. í sumar og umsagnirnar, eins og ég drap á áðan, og hún tók sitt hvað til greina sem hafði komið fram í þeim umsögnum og gerði nokkrar breytingar á þessu frv. Og það voru gerðar nokkrar breytingar á því einnig við meðferðina í hv. Nd., en engar sérlega veigamiklar breytingar. Ég vænti þess að þetta frv. með þeim aths., sem því fylgja, skýri sig sjálft og ég þurfi ekki að hafa um það í sjálfu sér fleiri orð. Ég legg til að það sæti sömu meðferð og það höfuðmál sem það fylgir, því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn. Og alveg nákvæmlega sama gildir um það mál sem er á dagskránni nr. 5, um skipan dómsvalds í héraði, að það er fylgifiskur rannsóknarlögreglufrv. og felur aðeins í sér nauðsynlega breytingu sem leiðir af því. Sé ég ekki ástæðu til að mæla sérstaklega fyrir því hér á eftir, en legg til að það sæti sömu meðferð.