10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta skipti nú sem fregnir berast utan úr heimi um það, hvern gang landhelgismálið virðist hafa. Því miður virðist það vera orðin föst regla að fregnir af gangi þess máls í höndum hæstv. ríkisstj. komi yfirleitt fyrst af erlendri grund. Þetta höfum við mörg dæmi um hér á undanförnum mánuðum, og hetta er því ekkert nýtt. Og í allt of mörgum tilfellum hafa þessar fregnir erlendis frá haft við rök að styðjast, hversu margar yfirlýsingar sem hæstv. ráðh. hafa gefið hér. Þetta er því ekkert nýtt, að við fáum fregnir með þeim hætti sem hér hefur gerst að því er þetta varðar.

Hæstv. forsrh. sagði að það væri sér um megn að svara fyrir þessi ummæli. Það má vera að það sé honum um megn. En hvernig væri nú að hæstv. ráðh., hæstv. ríkisstj. núna eftir að þetta gerist ítrekað, að fregnir með þessum hætti berast, sendi opinberlega frá sér mótmæli gegn vinnubrögðum af þessu tagi hjá aðilum, sem hæstv. ríkisstj. er í viðtölum, ef ekki samningum við um landhelgismálið? Hversu lengi ætlar hæstv. ríkisstj. að líða þessum aðilum það, að þeir séu með alls konar yfirlýsingar af gangi mála og fyrirhuguðum viðræðum, ef allar þær yfirlýsingar þessara aðila eru úr lausu lofti gripnar, enginn fótur fyrir þeim? Ég held að það væri tími til kominn að hæstv. ráðh. gefi út skorinorða yfirlýsingu um að öll slík tilmæli séu úr lausu lofti gripin og þan skuli að engu höfð, ef þetta er svo.

Það er varla nema tvennt til í þessu dæmi. Annaðhvort fer sendimaður Efnahagsbandalagsins, sem hér var í viðræðum við hæstv. ríkisstj. eða forsvarsmenn hennar nú fyrir stuttu, annaðhvort fer hann með algjör ósannindi í þessu máli eða hæstv. ráðh. hafa gefið villandi upplýsingar. Ég held að það liggi í augum uppi að vart sé nema tvennt til í þessu dæmi Og ef hæstv. ráðh. fást ekki til þess að gefa út ótvíræða yfirlýsingu um það til fjölmiðla, ekki bara hér, heldur og erlendis, ekki síst þeirra fréttastofnana sem ummæli þessi eru höfð eftir, þá er það lágmarkskrafa, hafi hæstv. ráðh. sagt íslensku þjóðinni rétt frá, að þeir gefi út opinbera tilkynningu um að þessar fregnir, sem nú berast af gangi mála varðandi landhelgismálið, séu algjörlega ósannar. Meðan þeir gera það ekki er vart hægt við öðru að búast en að það sé ályktað sem svo að þeir hafi ekki sagt allan sannleikann í þessu máli.

F.n hæstv. forsrh. sagði að það skipti ekki höfuðmáli þó að yfirlýsingar birtust af þessu tagi, þó algjörlega ósannar væru, það skipti ekki höfuðmáli um gang eða niðurstöðu málsins Það skiptir sem sé ekki höfuðmáli á hvern hátt er rangtúlkað af erlendum aðilum, þeim aðilum sem íslensk stjórnvöld eiga í samningamakki við, — það skiptir ekki höfuðmáli hvernig þessir erlendu aðilar halda á málinu og hversu villandi upplýsingar þeir gefa.

Ég efast um að það séu margir sem eru sammála hæstv. forsrh. um þetta, að það skipti ekki máli hvort rétt eða rangt sé skýrt frá því sem er að gerast í málinu. En ég heyrði ekki betur en hæstv. forsrh. í lok sinnar ræðu segði það ótvírætt, að hæstv. ríkisstj hefði léð máls á viðræðum við EBE 16. og 17. des. Ég bið hæstv. forsrh. að leiðrétta það hér á eftir ef ég hef tekið skakkt eftir, en ég tók það svo, að hæstv. ríkisstj. væri búin að ljá máls á viðræðum við EBE 16. og 17. des. Það er nýtt fyrir mér í málinn. Ég hef ekki heyrt þá yfirlýsingu af hálfu hæstv. ríkisstj. fyrr, að hún hafi léð máls á viðræðum þessa tilteknu daga.

En það, sem mér fannst kannske verst í sambandi við ræðu hæstv. forsrh., var að hann talaði í þeim dúr í sambandi við að fá tilboð frá EBE, að það var ómögulegt, hversu velviljaður sem maður væri hæstv. ríkisstj., að skilja það á annan veg en þann, að ráðh. hygðust semja við EBE um veiðiheimildir, fyrst og fremst til handa bretum. Hann sagði eitthvað á þá leið, að hæstv. ríkisstj. biði eftir því að fá tilboð frá Efnahagsbandalaginu og síðan vega það og meta. Þetta verður ekki skilið á annan hátt en þann, að hæstv. ríkisstj. sé með hugmyndir um að semja við Efnahagsbandalagið um veiðiheimildir bretum til handa. (Gripið fram í.) Ja, ég tók þessi orð hæstv. forsrh. á þann veg. Ef ég hef misskilið, þá óska ég eindregið eftir því að hæstv. forsrh. gefi þá yfirlýsingu hér og nú úr ræðustól að hæstv. ríkisstj. ætli ekki að semja. Ef þetta er misskilningur hjá mér, þá ætti honum að vera létt verk að gefa slíka yfirlýsingu. Ef hún kemur ekki í þessum umr., ótvíræð yfirlýsing um það að hæstv. ríkisstj. ætli sér ekki að semja við Efnahagsbandalagið, þá skil ég þessi ummæli hæstv. forsrh. á þann veg að ráðh. séu með hugmyndir um að semja. Og það er auðvitað sá ótti sem fyrst og fremst er í hugum íslendinga, að það sé verið, ef ekki þegar búið að gera einhvers konar samkomulag varðandi veiðiheimildir bretum til handa.

Ég ítreka það, að ef það samkv. því sem hæstv. forsrh. segir hér er rétt, að ummæli sendimanns EBE varðandi málið séu algjörlega röng, þá ætti hæstv. ríkisstj. að fylgja því eftir á þann veg að gefa út opinberlega tilkynningu um að slíkt sé algjörlega úr lausu lofti gripið og hafi ekki við nein rök að styðjast. Það ætti ekki að verða mjög kostnaðarsamt eða taka mikinn tíma hæstv. ráðh. frá öðrum störfum.

Ég vil segja fáein orð í sambandi við það sem hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, kom hér inn á og hæstv. forsrh. varðandi þingstörfin. Það eru a.m.k. fimm stórmál sem gefnar hafa verið út yfirlýsingar um að eigi að afgr. fyrir þinghlé nú fyrir jól. Það eru a.m.k. fimm mál. Það eru skattamálin og að sjálfsögðu fjárlögin, í tengslum við fjárlögin, eftir því sem boðað hefur verið, breyting á lögum um sjúkratryggingar. Það frv. hefur mér vitanlega ekki sést enn á borði þm. og er komið að því að fram fari 2. umr. um fjárlög. Það er lánsfjáráætlun sem hæstv. fjmrh. boðaði í fjárlagaræðu sinni að mundi sjást um miðjan nóvember. Það hefur ekki sést enn á borðum þm. Það er vegáætlunin sem samkv. fjálglegum yfirlýsingum hæstv. samgrh. átti að afgr. fyrir áramót. Og síðast tollskráin. Öllum þessum málum hefur verið yfirlýst að ætti að ljúka hér fyrir þinghlé, og ég tek undir þá gagnrýni sem komið hefur fram um það að meðferð mála með þeim hætti, sem hér er greinilega fyrirhugað að eigi að verða, slík meðferð nær ekki nokkurri átt. Það er ekki farið að sjást enn frv. sem á að afgr. samhliða fjárlögum fyrir árið 1977, og er þó ekki nema um það bil ein vika þar til þinghlé verður gert. Það er fyllsta ástæða til þess að benda á þetta og gagnrýna, og undir það tek ég.

Ég efast mjög um að það hafi áður, a.m.k. það sem ég þekki til, verið jafnmikið af stórmálum sem eftir hefur verið að afgr. á jafnstuttum tíma og nú er til stefnu, ef á annað borð á að afgr málin fyrir þinghlé. Það væri því vissulega ástæða til þess að spyrjast um það hvort nýjar upplýsingar lægju fyrir að því er þetta varðar, hvort eitthvað af þessum stórmálum hafi nú þegar verið ákveðið að afgr. eða ekki fyrir þinghlé. Ef afgr. á þau öll, þá skil ég ekki hvernig í ósköpunum hæstv. ríkisstj. ætlast til þess af þm. að þeir geti annað því með skikkanlegum hætti að afgr. öll þessi stórmál á einni viku. Það er því ekki að ástæðulausu að hér er á þetta bent og vakin athygli á því hvernig vinnubrögðum hefur verið háttað og hvernig er fyrirhugað að öllu óbreyttu að haga vinnubrögðum þar til þinghlé verður gert.