10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Þau hafa vakið mikla undrun hjá okkur íslendingum, þau ummæli sem höfð eru eftir Finn Olaf Gundelach um þær viðræður sem hafa farið fram á milli hans og íslenskra ráðh. Það kom fram í tali hæstv. forsrh. áðan að það væru fyrirhugaðar einhverjar viðræður í Brüssel núna 16.– 17. þ. m. Ég verð að segja það, að ég tel að það sé ekki hægt að fara til þessara viðræðna öðruvísi en að Gundelach beri til baka þau ummæli sem eftir honum hafa verið höfð. Ég tel að þessi framkoma þessa sendimanns sé á þann veg, að það sé eina rétta svarið við slíku að íslenska ríkisstj. fari ekki eða láti ekki fara til fundar öðruvísi en að þessi ummæli séu a.m.k. borin til baka.

Þórarinn Þórarinsson: Herra forseti. Vegna þess að ég tók þátt af hálfu þingflokks Framsfl. í þeim viðræðum sem fóru hér fram við fulltrúa Efnahagsbandalagsins, þá finnst mér rétt að ég segi nokkur orð í þessum umr.

Ég vil láta það koma fyrst fram, að ég hef orðið ákaflega undrandi vegna þeirra ummæla sem hafa verið höfð eftir aðalsamningamanni Efnahagsbandalagsins, að það væru væntanlegir samningar milli Íslands og þess alveg á næstunni og það svo snemma að breskir togarar mundu fá að nýju veiðiheimildir innan íslensku fiskveiðilögsögunnar eftir 1. jan. Í þeim viðræðum, sem ég var viðstaddur, þá fullyrði ég að ekki hafi komið neitt fram sem hafi gefið hinum danska fulltrúa Efnahagsbandalagsins ástæðu til þess að halda því fram sem hann virðist hafa gert. Mitt mat á þeim umr. var í raun og veru allt annað en hans — alveg gagnstætt. Mér fannst að það, sem kæmi fram í þessum umr., væri yfirleitt á þann veg að það væru engar líkur á neins konar samkomulagi milli okkar og Efnahagsbandalagsins fyrir áramót og ekki í náinni framtíð. Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú, að aðilar eru ekki undir það búnir að ganga frá samningum að svo stöddu. Hvorugur aðili hefur t.d. enn þá fullmótað stefnu sína varðandi fiskverndunarmál. Efnahagsbandalagið hefur í raun og veru enga stefnu mótað enn í þeim málum, ekki komið sér saman um neina stefnu. Um okkur er það að segja, að við höfum talið nauðsynlegt að það yrði komið á vissri fiskvernd, vissri vernd á fiskstofnum við Grænland, þar sem slík vernd mundi snerta okkur verulega. En við höfum ekki enn þá neinar fiskifræðilega mótaðar tillögur um það, hvernig þessu skuli fyrir komið. Það eigum við eftir að láta okkar sérfræðinga vinna. Þess vegna hefur það verið mitt mat, að það hlyti að taka verulegan tíma að ná samkomulagi milli okkar og Efnahagsbandalagsins um þetta atriði sem yrði að sjálfsögðu höfuðatriði samninganna. Og varðandi gagnkvæm fiskveiðiréttindi, þá lítur dæmið þannig út, að samkv. þeim samningum, sem við höfum gert við vestur-þjóðverja og belgíumenn, þá fá þeir rétt til að veiða hér 66 þús. tonn á næsta ári, eða frá 1. des. í ár og til 1. des. næsta árs. Það hefur enn þá ekki komið fram af hálfu Efnahagsbandalagsins hvað það væri reiðubúið til að láta þarna á móti.

Í þeim lausafréttum, sem voru hafðar eftir Gundelach í gær, talaði hann um það að Efnahagsbandalagið væri reiðubúið til að láta af hendi veiðiheimildir til okkar sem næmi 30 þús. tonnum. Það er ekki nema helmingurinn af því sem þjóðir Efnahagsbandalagsins fá að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á næsta ári, svo að það liggur í augum uppi að á þeim grundvelli eru allar frekari veiðiheimildir til þess útilokaðar.

Ég tel að þessi mál hafi verið á því stigi, að það hefði átt að forðast yfirlýsingar af beggja hálfu um það hvað í vændum væri og síst af öllu að gefa slíkar yfirlýsingar eins og fulltrúi Efnahagsbandalagsins hefur gert, sem mér virðist alveg stríða á móti því sem kom fram í þessum viðræðum. Fyrst þetta hefur verið gert af hans hálfu, þá finnst mér rétt af því að ég tók þátt í þessum viðræðum að sú skoðun mín komi hér fram sem ég sagði frá áðan. Mitt mat á þessum viðræðum er að það séu engar horfur á neins konar samkomulagi í þessum mánuði og það hljóti að taka verulegan tíma að ná samkomulagi, ef það þá næst.