10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

Umræður utan dagskrár

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður hélt því fram að ég hefði komist svo að orði, að það væri rangt að gefa yfirlýsingar um það sem í vændum væri, og þetta væri sprottið af því að það væri eitthvað sem ég vildi láta fela. Það er mesti misskilningur hjá honum. Hins vegar álít ég að það séu eðlileg vinnubrögð, meðan samningaviðræður standa yfir, að menn séu ekki að gefa miklar yfirlýsingar og síst af öllu yfirlýsingar sem a.m.k. að dómi hins aðilans stangast á við staðreyndir. Og þó að það hafi verið skoðun mín, eins og ég lýsti hér áðan, að ekki tækjust samningar í einu eða öðru formi í þessum mánuði, og þess vegna væri það algerlega útilokað sem samningamaður EBE hefði sagt, að breskir togarar mundu hefja hér veiðar eftir áramótin, þá hef ég ekki talið rétt af mér að gefa upplýsingar um það fyrr en komin er fram yfirlýsing frá samningamanni Efnahagsbandalagsins. Ég hefði ekki farið að gefa þá yfirlýsingu að fyrra bragði og ekki talið það rétt gagnvart samningsaðilanum.

Í slíkum viðræðum eins og þessum verða menn að fylgja vissum kurteisisreglum. Það getur kannske komið manni stundum vel að gefa svona hátíðlegar yfirlýsingar sem ganga í augun á almenningi. En það er hins vegar ekki víst að það sé til bóta fyrir framgang málsins eða þeirrar stefnu sem aðilar vinna að. Þess vegna er það mitt mat, að meðan viðræður standa yfir, þá eigi menn sem mest að spara sér slíkar yfirlýsingar, því að þær gera bara málinu ógagn.

Ég er ekki að segja að þessar yfirlýsingar, sem samningamaður Efnahagsbandalagsins hefur gefið, breyti nokkru um niðurstöðuna. En ef slíkar yfirlýsingar sem þessi gætu haft nokkur áhrif, þá geta þær að sjálfsögðu átt þátt í að spilla fyrir að samkomulag náist, og þess vegna er ég alveg undrandi yfir því, hvers vegna þessi maður, sem er talinn mjög reyndur samningamaður, hefur haldið þannig á málum. Það kann að vera, að hann telji þetta rétta „taktík“ gagnvart bretum. Við vitum að á fundi, sem Efnahagsbandalagið heldur 14. þ.m., á að ræða um það, sennilega til þrautar, hvort Írland og Bretland eigi að fá sérstaka einkalögsögu innan 50 mílnanna. Það kann að vera að hann álíti að það geti dregið eitthvað úr þessari kröfu breta ef þeim væri gefin von um að fá einhver fiskveiðiréttindi innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Ég vil aðeins segja í tilefni af því, eða réttara sagt: ég vil vara breta við því að treysta nokkuð á slíkt og fara að slá eitthvað af sínum kröfum um 50 mílna einkalögsögu vegna þess að þessi samningamaður gefi þeim von um að þeir fái einhver veiðiréttindi hjá okkur. Það væri ákaflega mikill misskilningur hjá bretum ef þeir færu eitthvað að slaka á sínum kröfum eða óskum um 50 mílna einkalögsögu vegna þessara fyrirheita sem samningamaður Efnahagsbandalagsins hefur gefið þeim.

Það var alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður hafði eftir mér, að ég tel að af beggja hálfu sé skammt komið hvernig væntanlegt samkomulag okkar og Efnahagsbandalagsins um fiskfriðunarmál ætti að vera. Ég vil rifja það upp í þessu sambandi, að báðir þeir viðræðufundir, sem fram hafa farið að þessu, hafa fyrst og fremst verið könnunarviðræður sem hafa beinst að því hvort það væru einhver atriði í fiskveiðimálum sem þessir aðilar hefðu að semja um og hvort það væri ástæða til að hefja formlegar viðræður eða ekki. Þessar könnunarviðræður leiddu til þess, að það var álitið rétt að hefja formlegar viðræður um samning sem fjallaði um fiskverndarmál og þessir aðilar kæmu sér saman um. En eins og margsinnis hefur komið fram, bæði hér og annars staðar, þá á Efnahagsbandalagið enn þá eftir að móta sína fiskveiðistefnu og ekki síst í sambandi við Grænland. Það gildir eins um okkur, að við höfum áhuga á því að fá fram vissa fiskvernd á miðunum við Grænland vegna þorsksins og karfans sem gengur mikið á okkar mið. En við eigum eftir að láta fiskifræðinga ganga frá því, hverjar óskir okkar eru í þessum efnum og hvernig við eigum að haga þessum málum. Það er af þessum ástæðum sem ég dreg þá ályktun, sem kom fram hér áðan, að viðræður um þessi mál milli okkar og Efnahagsbandalagsins hljóti að dragast nokkuð mikið á langinn. Þetta eru flókin og vandasöm mál. sem hér er um að ræða, og að sumu leyti alveg nýjung, vegna þess að áður hefur fiskverndin byggst að því að það væru stofnarnir, sem margar þjóðir taka þátt i, sem fjölluðu um slíkar ráðstafanir. Nú er gert ráð fyrir að þetta verði gert með samningum milli tveggja aðila, og það breytir náttúrlega viðhorfinu geysilega mikið, auk þess sem þessi mál eru enn til athugunar og í þróun á Hafréttarráðstefnunni, hvernig þeim verði fyrir komið. Þess vegna geri ég fastlega ráð fyrir því, að það hljóti að taka verulegan tíma að ná samkomulagi við Efnahagsbandalagið um þessi mál.

Um hitt atriðið, gagnkvæm fiskveiðiréttindi, þá gildir það að Efnahagsbandalagið hafi okkur eitthvað að bjóða. Það hefur ekki komið fram í þessum könnunarviðræðum að það hafi neitt sérstakt að bjóða. Það er haft eftir Gundelach í fréttum í gær, að þeir geti boðið okkur 30 þús. tonn. Þeir fá að veiða 66 þús. tonn á þessu ári og sjá náttúrlega allir að það geta ekki orðið gagnkvæmir fiskveiðiréttarsamningar á þeim grundveili. Þar þarf eitthvað annað og meira að koma til.