13.12.1976
Efri deild: 21. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

66. mál, vegalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Brtt. sú, sem ráðh. gerði að umræðuefni, er flutt vegna seinagangs í greiðslum frá Vegagerð ríkisins til sveitarfélaganna. Á árinu 1976 er gert ráð fyrir því að framlag samkv. 1. mgr. 32. gr. vegalaga til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum verði um 220 millj. kr. eða meira. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, mun lítið sem ekkert hafa verið greitt af þessu framlagi hinn 1. nóv. 1976 og engin vissa er fyrir greiðslu á þessu framlagi fyrir n.k. áramót. Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin yfirleitt fengið greidd 30–50% af framlaginu á ári hverju. Sveitarfélög verða að geta treyst því að þessi framlög skili sér á reikningsárinu eftir því sem tekjur til vegamála innheimtast. Eðlilegast virðist að Vegagerðin semji áætlun um mánaðargreiðslur í samræmi við skil á heildartekjum vegamála eða greiðist samkv. framlögðum reikningi innan 15 daga, eins og brtt. segir til um, frá framvísun reikninga. Sveitarfélögin reikna með greiðslum þessum frá Vegagerðinni og byggja fjárhagsáætlanir sínar á reglulegum greiðslum frá Vegasjóði. Komi þessar greiðslur ekki á reikningsárinu reglulega raskar það framkvæmdum eða framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna.

Því vildum við undirstrika og ítreka að sveitarfélögunum verði tryggt og þau geti treyst því að þessi framlög skili sér reglulega á reikningsárinu, en verði ekki notað til þarfa Vegagerðarinnar eins og um sjálfsafgreiðslu sé þar að ræða og þá á kostnað sveitarfélaganna. En nú hefur ráðh. óskað eftir því að við flm. tökum brtt. okkar til baka. Okkur er ljúft að verða við þeirri ósk, og treystum við því að ráðh. hafi þá í hyggju að leysa þessi mál á annan hátt, með breytingu á reglugerð.