13.12.1976
Neðri deild: 21. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

93. mál, Iðnþróunarfélag Austurlands

Flm. (Lúðvík Jósepsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 104 flyt ég frv. um Iðnþróunarstofnun Austurlands. Efni frv. er það, að sett verði á fót Iðnþróunarstofnun Austurlands sem hafi það hlutverk að vinna að eflingu iðnaðar á Austurlandi. Nánar er verkefnið skilgreint í 2. gr. frv., en þar segir m.a. að þessi stofnun skuli hafa forgöngu um að koma á fót nýjum iðnfyrirtækjum á Austurlandi og efla þau sem eru fyrir og enn fremur að koma á sem hagkvæmustu sölufyrirkomulagi á iðnaðarframleiðslu fjórðungsins og í þriðja lagi að veita fjárhagslegan stuðning og fyrirgreiðslu til stofnunar nýrra iðnfyrirtækja þar sem sérstaklega verði leitast við að koma upp samrekstri nokkurra byggðarlaga um iðnaðarframleiðslu.

Gert er ráð fyrir að sérstök 5 manna stjórn verði fyrir þessari Iðnþróunarstofnun og að ríkisstj. eða iðnrh. tilnefni þar tvo stjórnarmenn, en samtök sveitarstjórnarmanna í fjórðungnum tilnefni 3 af stjórnarmönnum. Og þá er gert ráð fyrir því að ríkissjóður leggi þessari stofnun sem stofnfé eða óafturkræft framlag 20 millj. kr. á ári í þrjú ár og að sveitarfélögin á Austurlandi leggi fram hálft framlag á móti þessu framlagi sem einnig verði skoðað sem stofnframlag. Þetta er sem sagt aðalefni þessa frv.

Í grg. með frv. er nokkuð víkið að því vandamáli sem hér er í rauninni verið að fjalla um, en það er hvernig eigi að leysa þann vanda að efla iðnað úti á landsbyggðinni umfram það sem verið hefur. Það gefur auga leið, að það er á margan hátt mjög erfitt að koma upp nokkrum teljandi iðnrekstri þar sem framleiðsluumdæmið er lítið eða fámennt og þar sem aðalmarkaður fyrir framleiðsluna er í mörgum tilfellum langt í burtu og þá auðvitað á aðalþéttbýlissvæði landsins. Þá koma upp þeir erfiðleikar sem standa í sambandi við fámennið úti á landi og svo fjarlægðina frá höfuðborgarsvæðinu. Það er hins vegar enginn vafi á því, að það er mikil þörf á því að reyna að finna einhverjar færar leiðir til þess að landsbyggðin geti orðið með í iðnaðaruppbyggingu í landinu.

Ég geri mér að vísu fyllilega grein fyrir því, að það mun verða svo um langan tíma, að aðalverkefni margra byggðarlaga úti á landi, sérstaklega við sjávarsiðuna, verður bundið við sjávarútvegsstörf í einu eða öðru formi, og aðalverkefni byggðarlaganna uppi í landinu verður auðvitað bundið mjög við landbúnaðarstörf eða úrvinnslu úr landbúnaðarafurðum. En þó að þetta verði um langan tíma aðalstörfin á þessum svæðum, þá er enginn vafi á því að það er þýðingarmikið að finna ráð til þess að á þessum stöðum geti einnig vaxið upp nokkur iðnaður umfram þann brýnasta þjónustuiðnað sem þarna er fyrir hendi og hlýtur jafnan að vera á þessum stöðum.

Í þessu sambandi koma upp hugmyndir um það, hvort ekki sé hægt að vinna að því að koma á samstarfi í iðnaðarframleiðslu á milli byggðarlaga. Þetta er nokkuð þekkt erlendis frá. Við þekkjum það, að t.d. í Noregi hefur verið unnið á þessum grundvelli allmikið, þar sem tekist hefur að koma upp myndarlegri iðnaðarframleiðslu með þeim hætti að unnið er að sömu framleiðslu á mörgum stöðum þar sem menn skipta nokkuð með sér verkefnum í framleiðslunni, og á þann hátt geta lítil byggðarlög eða tiltölulega fámenn byggðarlög notið sín miklu betur en ella, náð miklu meiri árangri. En það þarf nokkurt átak til að koma þessu fram, og um það fjallar í rauninni þetta frv. varðandi Austurland.

Það, sem mér sýnist helst til ráða í þessum efnum, er að komið verði á fót í fjórðungnum stofnun sem taki að sér að reyna að ráða fram úr þessum málum og sé eðlilegt að ríkið leggi þarna fram nokkurt stofnfé ásamt heimamönnum og taki þannig að sér nokkra forustu í því að skipuleggja þessa starfsemi. Á þann hátt væri hægt að hjálpa til að fá leiðbeinendur í sambandi við framleiðslu af þessu tagi inn í fjórðungana og þannig væri hægt að ná betri tökum á markaðsmálum og sölumálum, það væri hægt að skipuleggja þau á annan hátt ef upp gæti komið ein stofnun sem hefði með þessi mál nokkuð sameiginlega að gera.

Í rauninni er það þetta sem hefur gerst hjá okkur í myndarlegasta iðnaði okkar hér í landinu, sem er fiskiðnaður okkar. Þegar lítið er á þann iðnað, þá vitum við að það eru í kringum 100 frystihús rekin í landinu, dreifð næstum á jafnmarga staði á landinu. En þessi framleiðsla kemur saman í sameiginlegum samtökum, sem nú eru aðallega tvenn, og í gegnum þær miðstöðvar, sem þarna eru myndaðar, hefur tekist að skapa þessari framleiðslu slíka forustu að það hefur tekist að gera þetta að eins konar margþættu framleiðslukerfi eins stórs fyrirtækis. Það er einmitt þetta sem ég held að þurfi að gerast ef á að koma til einhver teljandi iðnaður úti á landsbyggðinni.

Þó að þetta frv. sé miðað við það að reyna að leysa þetta mál á Austurlandi, þá gefur auga leið að það yrði farin svipuð leið í öðrum fjórðungum landsins ef þetta þætti tiltækilegt eða heppnaðist, það sem hér er bent á. Ég tel hins vegar eðlilegt að hafist sé handa aðeins á einum stað í þessa átt í byrjun og séð hvernig gengur.

Það er enginn vafi á því, að þetta verkefni þarf að leysa hér á landi. Það má ekki fara svo að nær allur iðnaður, sem eflaust á eftir að vaxa hér upp og verða miklu þýðingarmeiri í framleiðslulífi landsmanna en hann er í dag, verði svo að segja óhjákvæmilega að vaxa upp hér í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu eða í mesta lagi nokkuð á Akureyrarsvæðinu. Ég held að það sé byggðaþróuninni landinu allri alveg nauðsynlegt að landsbyggðin almennt geti orðið hér nokkur þátttakandi í. En þá reynir ábyggilega á að skipuleggja þann iðnað frá byrjun, m.a. á þennan hátt sem hér er bent á, að reyna að koma á samvinnu nokkurra byggðarlaga um tiltekna framleiðslu, þar sem einn staðurinn gæti unnið að þessum þætti framleiðslunnar, annar að öðrum þætti, sá þriðji kannske unnið að því að setja þessa framleiðsluþætti saman í eitt og sá fjórði ynni hins vegar aðallega að markaðsöflun og sölumálum. Ég efast ekkert um það, að miðað við þær umr. sem hér hafa oft farið fram, bæði um byggðamál hér á Alþ. og stefnuna í þeim málum, eins og þær miklu umr. sem hafa átt sér stað, bæði hér á Alþ. og fara nú fram annars staðar í okkar landi varðandi iðnþróun og eflingu iðnaðar, þá er hér tekið á einum þætti þessara mála sem ábyggilega er þörf á að reyna að finna rétta lausn á.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta mál við 1. umr. Það er ekki þörf á því. En ég vil vænta þess að sú n., sem fær þetta mál til fyrirgreiðslu, hv. iðnn., taki það til gaumgæfilegrar athugunar og veiti því fyrirgreiðslu, ef henni líst á þá hugmynd sem frv. fjallar um, og hún líti á þetta mál með þeim augum að hér er ekki einvörðungu verið að fjalla um þetta mál sem sérmál Austurlands, heldur er hér verið að fjalla um þetta mál með það í huga hvernig eigi að taka á þessu verkefni almennt séð fyrir alla landsbyggðina. Ef n. sýnist ástæða til þess að gera hér nokkrar breytingar á, þá er það auðsótt af minni hálfu. Ég tel að hér sé aðalatriðið að reyna að finna lausn á þessu vandamáli, hvernig hægt sé að standa að því að efla á raunhæfan hátt iðnaðarrekstur úti í fámenninu og úti á landsbyggðinni.

Ég vil aðeins minna á það, að mörg dæmi eru um það, að góðar hugmyndir hafi komið frá mönnum úti á landi, í fámennum byggðarlögum um iðnaðarframleiðslu. Þeir hafa unnið talsvert að því að undirbúa slíkan rekstur. En svo hefur jafnan farið á þann veg að sannað hefur verið af þeim, sem hafa haft málið til athugunar á síðara stigi, að út af fyrir sig væri hugmyndin góð, en það væri bara miklu betra að hafa fyrirtækið í Reykjavík af því að þá væri um miklu handhægari rekstur þar að ræða og þyrfti hvorki að flytja hráefni eins langt til framleiðslustaðar né heldur framleiðsluvörurnar jafnlangt á markað aftur. Þetta hefur sem sagt ævinlega orðið til þess að torvelda það að landsbyggðin gæti tekið þann þátt í iðnþróuninni sem hún þarf að gera. Ég held, eins og ég hef sagt, að það sé hægt að finna lausn á þessum málum m.a. eftir þessari samstarfsleið sem er þekkt viða erlendis frá.

Hæstv. forseti. Ég legg svo til að að lokinni umr. verði þessu frv. vísað til iðnn. til fyrirgreiðslu.